Dómur um vatnsréttindi í Þjórsá

12.10.2017

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli varðandi orkunýtingarrétt vatns í Þjórsá fyrir landi jarðarinnar Breiðaness í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Eigendur þriggja jarða úr svokallaðri Sandlækjartorfu höfðuðu málið og kröfðust aðallega viðurkenningar á því að réttindin væru í óskiptri sameign eigenda þeirra jarða sem áður höfðu tilheyrt torfunni, en á grundvelli landskipta sem farið höfðu fram var jörðin Breiðanes sú eina þeirra sem land átti að Þjórsá.

Í dómi Hæstaréttar var vísað það að allt frá gildistöku vatnalaga nr. 15/1923 hefði meginreglan verið sú að vatnsréttindi, m.a. réttur til að vinna orku úr fallvatni, fylgdu því landi, sem vatn lægi að eða félli um, nema annað hefði verið ákveðið á lögmætan hátt, þar á meðal með samningi um kaup eða landskipti. Vegna þessarar meginreglu vatnalaga væri óhjákvæmilegt í málinu að líta svo á að hefði ekki annað verið ákveðið með landskiptum hefðu vatnsréttindin eingöngu fylgt eignarrétti að landinu, sem bakki Þjórsár og þar með botn hennar fram í miðjan farveg hefði hverju sinni verið hluti af.

Samningur hafði verið gerður um landskipti milli Sandlækjar og Sandlækjarkots 20. janúar 1964. Vísaði Hæstiréttur til þess að inntak hans yrði að ráðast af hlutlægri skýringu texta hans, en jafnframt yrði að gæta að því að tilgangur landskipta eftir ákvæðum landskiptalaga væri að ljúka óskiptri sameign að landi og gæðum jarða. Yrði því að leggja til grundvallar að mæla þyrfti í samningi ótvírætt fyrir um að slík sameign skyldi haldast um tiltekin réttindi ef svo hefði verið samið. Rakti Hæstiréttur að í samningnum hefði meðal annars verið mælt fyrir um að „hlunnindi öll sem eru á jörðunum og þau sem kunna að finnast“ skyldu vera í óskiptri sameign. Taldi Hæstiréttur að líkur stæðu gegn því í ljósi 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 að hugtakið hlunnindi gæti í samningi um landskipti tekið til vatnsréttinda og yrði slík merking þess ekki ótvírætt leidd af almennri málvenju. Yrðu eigendur annarra jarða úr Sandlækjartorfunni að bera af því halla að ekki hefði verið kveðið sérstaklega á um þetta í samningnum frá 20. janúar 1964. Lagði Hæstiréttur því til grundvallar að eftir landskiptin 20. janúar 1964 hefðu vatnsréttindin komið í hlut eiganda Sandlækjar, en við landskipti á þeirri jörð 24. janúar 1964 hefðu þau réttindi gengið áfram til eiganda jarðarinnar Breiðaness. Voru eigendur jarðarinnar Breiðaness því sýknuð af kröfum eigenda jarðanna þriggja.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.