Print

Mál nr. 505/2016

Gunnhildur Loftsdóttir (Skarphéðinn Pétursson hrl.) og Leirljós ehf. (Páll Arnór Pálsson hrl.)
gegn
Strái ehf., Arnari Bjarna Eiríkssyni, Berglindi Bjarnadóttur, Sigrúnu Margréti Einarsdóttur (Einar Hugi Bjarnason hrl.), Erlingi Loftssyni, Elínu Erlingsdóttur, Lofti Erlingssyni, og Valgerði Erlingsdóttur (Guðjón Ármannsson hrl.), og Strá ehf., Arnar Bjarni Eiríksson, Berglind Bjarnadóttir, og Sigrún Margrét Einarsdóttir (Einar Hugi Bjarnason hrl.), gegn Gunnhildi Loftsdóttur (Skarphéðinn Pétursson hrl.), Leirljósi ehf. (Páll Arnór Pálsson hrl.), Erlingi Loftssyni, Elínu Erlingsdóttur, Lofti Erlingssyni og Valgerði Erlingsdóttur (Guðjón Ármannsson hrl.)
Lykilorð
  • Fasteign
  • Vatnsréttindi
  • Eignarréttur
  • Samningur
  • Landskipti
  • Áfrýjun
  • Áfrýjunarfrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta
Reifun

S ehf. o.fl. kröfðust þess aðallega að viðurkennt yrði að orkunýtingaréttur vatns fyrir landi jarðarinnar Breiðaness í Skeiða- og Gnúpverjahreppi væri í óskiptri sameign þeirra sem eigenda jarðanna Sandlækjarkots II, Gunnbjarnarholts og Kletta og eigenda jarðanna Breiðaness, Sandlækjar I og Sandlækjar II. Allar höfðu jarðirnar tilheyrt svokallaðri Sandlækjartorfu, en á grundvelli samninga um landskipti var jörðin Breiðanes sú eina þeirra sem land átti að Þjórsá. Eigendur jarðarinnar Breiðaness, G og L ehf., byggðu á því að við landskipti sem gerð höfðu verið 20. janúar 1964 hefðu vatnsréttindi í Þjórsá fylgt þeim hluta landsins sem féll síðar undir jörðina Breiðanes, en þau réttindi gætu ekki talist til hlunninda sem vera skyldu í óskiptri sameign jarðanna samkvæmt samningnum svo sem S ehf. o.fl. héldu fram. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að allt frá gildistöku vatnalaga nr. 15/1923 hefði meginreglan verið sú að vatnsréttindi, m.a. réttur til að vinna orku úr fallvatni, fylgdu því landi, sem vatn lægi að eða félli um, nema annað hefði verið ákveðið á lögmætan hátt, þar á meðal með samningi um kaup eða landskipti. Samkvæmt landamerkjabréfi 3. júní 1885 hefðu jarðirnar Sandlækur og Sandlækjarkot átt land í óskiptri sameign að Þjórsá. Hefðu eigendur þessara jarða því haft saman á hendi réttindin, sem af þessi leiddi eftir gildistöku vatnalaga. Á þeim grunni hefði eigendunum verið frjálst að taka ákvörðun um eignarhald að vatnsréttindunum við landskiptin 20. janúar 1964 og eftir atvikum við síðari landskipti. Vísaði Hæstiréttur til þess að vegna framangreindrar meginreglu vatnalaga væri óhjákvæmilegt að líta svo á að hefði ekki annað verið ákveðið með landskiptum hefðu vatnsréttindin eingöngu fylgt eignarrétti að landinu, sem bakki Þjórsár og þar með botn hennar fram í miðjan farveg hefði hverju sinni verið hluti af. Því næst rakti Hæstiréttur að með landskiptunum milli Sandlækjar og Sandlækjarkots 20. janúar 1964 hefðu eigendur jarðanna neytt heimildar 1. mgr. 16. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 til að skipta landi með samningi, en eftir 2. mgr. sömu lagagreinar hefði þeim borið að skrá um skiptin greinilega skiptagerð, þar á meðal um þau réttindi sem landinu átti að fylgja. Yrði inntak samningsins að ráðast af hlutlægri skýringu texta hans, en jafnframt yrði að gæta að því að tilgangur landskipta eftir ákvæðum landskiptalaga væri að ljúka óskiptri sameign að landi og gæðum jarða. Yrði því að leggja til grundvallar að mæla þyrfti í samningi ótvírætt fyrir um að slík sameign skyldi haldast um tiltekin réttindi ef svo hefði verið samið. Í samningnum frá 20. janúar 1964 hefði verið mælt fyrir um að Neseyja í Stóru-Laxá skyldi áfram vera í óskipti sameign sem og „hlunnindi öll sem eru á jörðunum og þau sem kunna að finnast“. Taldi Hæstiréttur að líkur stæðu gegn því í ljósi 3. gr. landskiptalaga að hugtakið hlunnindi gæti í samningi um landskipti tekið til vatnsréttinda og yrði slík merking þess ekki ótvírætt leidd af almennri málvenju. Yrðu S ehf. o.fl. auk E o.fl., eigenda annarra jarða í fyrrum Sandlækjartorfu, að bera af því halla að ekki hefði verið kveðið sérstaklega á um þetta í samningnum frá 20. janúar 1964. Lagði Hæstiréttur því til grundvallar að eftir landskiptin 20. janúar 1964 hefðu vatnsréttindin komið í hlut eiganda Sandlækjar, en við landskipti á þeirri jörð 24. janúar 1964 hefðu þau réttindi gengið áfram til eiganda jarðarinnar Breiðaness. Voru G og L ehf. því sýknuð af kröfum S ehf. o.fl.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu hvort fyrir sig til Hæstaréttar 11. júlí 2016. Þau krefjast sýknu af kröfum gagnáfrýjenda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 9. september 2016. Þau krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað, en til vara að viðurkennt verði að orkunýtingarréttur vatns fyrir landi jarðarinnar Breiðaness sé í óskiptri sameign gagnáfrýjenda og aðaláfrýjenda. Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

 Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðuðu gagnáfrýjendur mál þetta 6. febrúar 2015, gagnáfrýjandinn Strá ehf. sem eigandi Sandlækjarkots II, Arnar Bjarni Eiríksson og Berglind Bjarnadóttir sem eigendur Gunnbjarnarholts og Sigrún Margrét Einarsdóttir sem eigandi Kletta, en þessar jarðir og aðrar, sem málið varðar, eru allar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Málinu beindu gagnáfrýjendur að aðaláfrýjandanum Gunnhildi Loftsdóttur ásamt Helgu Guðrúnu Loftsdóttur, Hrafnhildi Loftsdóttur, Lofti Sigurði Loftssyni og Sesselju Loftsdóttur sem eigendum jarðarinnar Breiðaness, og stefndu Erlingi Loftssyni, Elínu Erlingsdóttur, Lofti Erlingssyni og Valgerði Erlingsdóttur sem eigendum Sandlækjar I og Sandlækjar II. Samkvæmt því, sem komið hefur fram fyrir Hæstarétti, hefur aðaláfrýjandinn Leirljós ehf. fengið afsal fyrir eignarhlutum Helgu Guðrúnar Loftsdóttur, Hrafnhildar Loftsdóttur, Lofts Sigurðar Loftssonar og Sesselju Loftsdóttur í jörðinni Breiðanesi og hefur félagið á þeim grunni tekið við aðild að málinu í þeirra stað.

Héraðsdómur í málinu var kveðinn upp 11. apríl 2016 og var honum sem fyrr segir áfrýjað 11. júlí sama ár af hendi aðaláfrýjenda. Gagnáfrýjendur skutu málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 9. september 2016 og var það gert á grundvelli 3. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Heimild í því ákvæði til málskots án tillits til áfrýjunarfrests er bundin við gagnáfrýjun gagnvart þeim aðila, sem hefur þegar áfrýjað héraðsdómi sem aðaláfrýjandi. Henni verður á hinn bóginn ekki beitt gagnvart öðrum, sem átt hafa aðild að máli í héraði en hafa ekki áfrýjað dómi. Við útgáfu gagnáfrýjunarstefnu 9. september 2016 var lokið fresti gagnáfrýjenda samkvæmt 1. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 til áfrýjunar gagnvart stefndu Erlingi Loftssyni, Elínu Erlingsdóttur, Lofti Erlingssyni og Valgerði Erlingsdóttur, sem höfðu ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti. Verður því að vísa málinu frá Hæstarétti að því er varðar gagnáfrýjun héraðsdóms gagnvart þessum stefndu.

II

Samkvæmt gögnum málsins var gert bréf 3. júní 1885 um „landamerki fyrir Sandlækjar og Sandlækjarkotslöndum“, þar sem meðal annars kom fram að merki þeirra að austan gagnvart Skarði og Þrándarholti lægju á nánar tiltekinn hátt til suðurs „beint í Stórabug við Þjórsá“. Merkin fylgdu síðan Þjórsá vestur „að Mánagarði, síðan ræður það Garðbrot meðfram Reykjalandi uppí Sandlækjará, þaðan ræður hún (Sandlækjará) uppí Stórulaxá.“ Þar sagði einnig: „Líka fylgir þessum sömu jörðum Neseyja og ræður þá norðurkvísl árinnar uppað Þverkvísl, sem skilur Kúhólma og Neseyju, síðan ræður suðurkvísl árinnar upp og austur í Laxárholt.“

Samningur var gerður 20. janúar 1964 um landskipti milli Sandlækjar og Sandlækjarkots. Þar var lýst legu línu, sem dregin var gegnum sameiginlegt land jarðanna, og sagði síðan eftirfarandi: „Land frá þessum merkjum að Stóru-Laxá tilheyrir Sandlækjarkoti en land hinum megin merkjanna tilheyrir Sandlæk. Að öðru leyti ráða þinglýst landamerki Sandlækjartorfunnar og aðliggjandi jarða. Neseyja í Stóru-Laxá skal vera óskipt og eign beggja jarða að jöfnu. Sandlækjarkot skal hafa rétt til að beita mjólkurkúm næstu fjögur sumur að næturlagi í Engjar, sem eftir þessi landskipti tilheyra Sandlæk. Hlunnindi öll sem eru á jörðunum og þau sem kunna að finnast eru óskipt sameign jarðanna.“ Samningi þessum var þinglýst 3. mars 1964.

Landi því, sem kom í hlut Sandlækjar með framangreindum samningi, var í framhaldi af honum skipt í þrennt með öðrum samningi 24. janúar 1964. Þar var fyrst lýst landi, sem falla skyldi undir jörðina Sandlæk II, en því næst landi fyrir ónafngreint nýbýli, sem síðar fékk heitið Breiðanes. Við afmörkun á síðarnefnda landinu var meðal annars tekið fram að til vesturs réðu „þinglýst landamerki milli Sandlækjartorfu og Reykja úr Þjórsá að Sandlækjarósi“ og að austan næði það syðst að beinni línu „um flóðgáttina á áveituskurðinum í Þjórsá“, en þar á milli lægju merki þess að sunnan að Þjórsá. Á eftir lýsingunni á landi, sem eiga skyldi undir Sandlæk II og Breiðanes, var eftirfarandi tekið fram í samningnum: „Annað land en það, sem hér er lýst, tilheyrir Sandlæk I, nema hvað hálf Neseyja á móti Sandlækjarkoti er óskipt.“ Þessum samningi var einnig þinglýst 3. mars 1964.

Í málinu liggur fyrir samningur frá 6. nóvember 1990 um skipti á landi Sandlækjarkots, sem var þinglýst 8. sama mánaðar. Í honum var vísað til þess að landi hafi áður verið skipt úr jörðinni annars vegar fyrir Kletta í júní 1977 og hins vegar Gunnbjarnarholt 6. desember 1989, en gögn um þau landskipti hafa ekki verið lögð fram. Samkvæmt samningi þessum mun 1/10 hluti jarðarinnar hafa áður verið lagður undir Kletta, 3/10 undir Gunnbjarnarholt og 5/10 undir Sandlækjarkot II, þannig að 1/10 hluti af upphaflega landinu hafi staðið eftir fyrir Sandlækjarkot. Aftur var gerður samningur 1. desember 2009 um skipti á sama landi og var honum þinglýst 17. maí 2010. Þar var kveðið á um merki milli jarðanna, en þess einnig getið að „hlunnindi Sandlækjarkots“, sem ekki var nánar lýst, skyldu skiptast þannig að 1/10 hluti ætti undir Kletta, 4/10 undir Gunnbjarnarholt og 5/10 undir Sandlækjarkot II. Engin hlunnindi ættu á hinn bóginn að fylgja Sandlækjarkoti. Loks var gerður enn einn samningur um landskipti 15. janúar 2012 og var honum þinglýst 24. febrúar sama ár, en samkvæmt honum skiptust ótilgreind hlunnindi þannig að 1/10 félli undir Kletta, 5/10 undir Gunnbjarnarholt og 4/10 undir Sandlækjarkot II.

Helga Guðrún Loftsdóttir, Hrafnhildur Loftsdóttir, Loftur Sigurður Loftsson og Sesselja Loftsdóttir rituðu undir yfirlýsingar 20. janúar 2012, þar sem staðfest var að þau hefðu hvert fyrir sig „selt á leigu sinn hluta í öllum vatnsréttindum sem fylgja jörðinni Breiðanes í Þjórsá til Landsvirkjunar til 65 ára frá undirritun samnings þar um.“ Var tekið fram í yfirlýsingunum, sem var þinglýst 13. febrúar 2012, að hvert þeirra fjögurra væri „eigandi að 20% af eignarhluta jarðarinnar“. Af þeirra hálfu var gagnáfrýjendum ritað bréf 26. júní 2013, þar sem fram kom að Landsvirkjun hafi „haldið því fram að eigendur nágrannajarða telji sig eiga hlut í vatnsréttindum Breiðaness“ og af þeim sökum „haldið eftir stórum hluta þeirra greiðslna sem falla eiga eigendum Breiðaness í skaut uns búið er að útkljá ágreining um þetta efni í dómsmáli.“ Var af þessu tilefni beint fyrirspurn til gagnáfrýjenda um hvort þau teldu sig eiga hlut í „vatnsréttindum Breiðaness“, svo og á hvaða grunni það væri reist. Þessu svöruðu gagnáfrýjendur með bréfi 29. júlí 2013, þar sem þau lýstu þeirri skoðun að vatnsréttindin væru „hlunnindi í óskiptri sameign Sandlækjar og Sandlækjarkots eins og skýrlega kemur fram í landskiptagjörð frá árinu 1964“ og ættu þau því hlutdeild í þeim réttindum.

Gagnáfrýjendur höfðuðu sem áður segir málið 6. febrúar 2015 og kröfðust þess aðallega að viðurkennt yrði að orkunýtingarréttur vatns fyrir landi jarðarinnar Breiðaness væri í óskiptri sameign allra upphaflegra aðila málsins, en til vara í óskiptri sameign gagnáfrýjenda og þáverandi eigenda Breiðaness. Með hinum áfrýjaða dómi var aðalkrafa gagnáfrýjenda tekin til greina.

III

Samkvæmt 2. gr. vatnalaga nr. 15/1923, eins og þau hljóðuðu þegar landi Sandlækjar og Sandlækjarkots var skipt 20. janúar 1964, fylgdi landareign hverri réttur til umráða og hagnýtingar á vatni, sem á henni var, eftir því sem nánar var heimilað í lögunum. Í 1. mgr. 3. gr. vatnalaga var mælt svo fyrir að þegar á eða lækur skildi landareignir ætti hvor þeirra land í miðjan farveg. Í 1. mgr. 16. gr. laganna var gert ráð fyrir því að vatnsréttindi mætti láta af hendi án þess að eignarréttur að landi væri jafnframt látinn, í 2. mgr. sömu lagagreinar var kveðið á um að vatnsbotn og vatnsréttindi fælust í kaupum á landareign nema öðru vísi væri samið og í 3. mgr. hennar var áskilið að við skipti á sameignarlandi skyldi hverri eign fylgja svo auðnotuð réttindi, sem unnt væri, til vatns til heimilisþarfa, búsþarfa og jarðræktar, svo og nægilegt land eða not af landi til að hagnýta þau réttindi. Þá var í 1. mgr. 49. gr. vatnalaga mælt fyrir um að eiganda landareignar, sem vatnsréttindi fylgdu, svo og öðrum, sem tekið hafi heimildir á þeim, væri rétt að nota vatn, sem um landið rynni, til að vinna úr því orku. Eftir að lögunum var breytt með lögum nr. 132/2011 eru samsvarandi fyrirmæli nú í 1. mgr. 2. gr., 1. mgr. 3. gr., 2. mgr., 3. mgr. og 4. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 49. gr. vatnalaga.

Samkvæmt framansögðu hefur meginreglan verið sú allt frá gildistöku vatnalaga að vatnsréttindi, meðal annars réttur til að vinna orku úr fallvatni, fylgja því landi, sem vatn liggur að eða fellur um, nema annað hafi verið ákveðið á lögmætan hátt, þar á meðal með samningi um kaup eða landskipti. Eftir fyrrnefndu bréfi 3. júní 1885 um „landamerki fyrir Sandlækjar og Sandlækjarkotslöndum“ áttu jarðirnar, sem það tók til, land í óskiptri sameign að Þjórsá. Höfðu eigendur jarðanna því saman á hendi réttindin, sem af þessu leiddi eftir ákvæðum vatnalaga þegar þau höfðu tekið gildi. Á þeim grunni var eigendunum jafnframt frjálst að taka ákvörðun um eignarhald að vatnsréttindunum við landskiptin, sem gerð voru 20. janúar 1964, og eftir atvikum við síðari landskipti. Vegna framangreindrar meginreglu er á hinn bóginn óhjákvæmilegt að líta svo á að hafi ekki annað verið ákveðið með landskiptunum hafi vatnsréttindin að þeim gerðum eingöngu fylgt eignarrétti að landinu, sem bakki Þjórsár og þar með botn hennar fram í miðjan farveg hefur hverju sinni verið hluti af.

Með landskiptunum milli Sandlækjar og Sandlækjarkots 20. janúar 1964 neyttu eigendur jarðanna heimildar samkvæmt 1. mgr. 16. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 til að skipta landi með samningi, en eftir 2. mgr. sömu lagagreinar bar þeim þá að skrá um skiptin greinilega skiptagerð með nákvæmri lýsingu á afstöðu þess lands, sem hver um sig hlyti, takmörkum þess og öllum réttindum, sem því áttu að fylgja. Inntak þessa samnings verður eftir meginreglum samningaréttar að ráðast af hlutlægri skýringu texta hans og getur þar engum sköpum skipt hvað kunni við gerð hans að hafa vakað fyrir einstökum aðilum að honum, svo sem gagnáfrýjendur hafa þó haldið fram, en um það liggur heldur ekkert fyrir í málinu. Við skýringu samningsins verður jafnframt að gæta að því að tilgangur landskipta eftir ákvæðum síðastnefndra laga er eðli máls samkvæmt að ljúka óskiptri sameign að landi og gæðum jarða. Verður í því ljósi að leggja til grundvallar að mæla þurfi í samningi ótvírætt fyrir um að slík sameign skuli þrátt fyrir þetta haldast um tiltekin réttindi ef svo hefur verið samið. Í samningnum 20. janúar 1964 var mælt fyrir á þann veg um Neseyju í Stóru-Laxá, svo sem áður var getið. Þar var jafnframt kveðið á um að eins skyldi fara um „hlunnindi öll sem eru á jörðunum og þau sem kunna að finnast“. Við skýringu á orðinu hlunnindi í þessu samhengi verður að líta til þess að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. landskiptalaga má ekki gera staðbundin skipti á námarétti, veiði, reka, vergögnum, lóðagjöldum, beitutekjum, þörungum eða fjörubeit nema skipti séu það hagkvæm að á engan eiganda sé hallað eða samþykki þeirra allra komi til. Um vatnsréttindi er þar ekki rætt, en á hinn bóginn segir í niðurlagi 3. mgr. sömu lagagreinar að um umráð og notkun vatns og fallvatna fari eftir almennum lögum. Vegna þessara lagaákvæða standa þannig líkur gegn því að hugtakið hlunnindi geti í samningi um landskipti að réttu lagi talist án nánari tilgreiningar taka til vatnsréttinda og verður slík merking þess heldur ekki ótvírætt leidd af almennri málvenju. Hafi aðilar samningsins verið einhuga um að vatnsréttindi jarðanna í Þjórsá yrðu áfram í óskiptri sameign þeirra höfðu þeir í hendi sér að kveða þar beinlínis á um það, svo sem borið hefði að gera eftir áðurnefndri 2. mgr. 16. gr. landskiptalaga, en í því sambandi verður einnig að huga að því að gagnáfrýjendur hafa meðal annars borið því við að öllum samningsaðilum hafi verið kunnugt um að réttindi þessi væru verðmæt. Ekkert var þó berum orðum sagt um þetta í samningnum og er óhjákvæmilegt að gagnáfrýjendur ásamt stefndu beri af því halla. Að þessu öllu virtu verður að skýra samninginn frá 20. janúar 1964 á þann veg að hann hafi ekki efnislega geymt fyrirmæli um að vatnsréttindi í Þjórsá fyrir landi Sandlækjar og Sandlækjarkots yrðu áfram í óskiptri sameign eigenda beggja jarðanna, heldur hafi þögn um þau réttindi falið í sér að ráða yrði af meginreglum vatnalaga á hvers hendi þau yrðu framvegis. Eftir þeirri skýringu á samningnum komu vatnsréttindin með honum í hlut eiganda Sandlækjar, en við landskipti á þeirri jörð 24. janúar 1964 gengu þau réttindi á sama grunni áfram til eiganda Breiðaness. Samkvæmt þessu verða aðaláfrýjendur sýknuð af kröfum gagnáfrýjenda.

Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Málinu er vísað frá Hæstarétti að því er varðar áfrýjun gagnáfrýjenda, Strás ehf., Arnars Bjarna Eiríkssonar, Berglindar Bjarnadóttur og Sigrúnar Margrétar Einarsdóttur, gagnvart stefndu, Erlingi Loftssyni, Elínu Erlingsdóttur, Lofti Erlingssyni og Valgerði Erlingsdóttur.

Aðaláfrýjendur, Gunnhildur Loftsdóttir og Leirljós ehf., eru sýkn af kröfum gagnáfrýjenda.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 11. apríl 2016.

            Mál þetta, sem tekið var til dóms þann 15. febrúar sl., er höfðað með stefnu birtri 6. febrúar 2015.

            Stefnendur eru Strá ehf., kt. [...], Sandlækjarkoti, 801 Selfossi, Arnars Bjarna Eiríkssonar, kt. [...] og Berglindar Bjarnadóttur, kt. [...], bæði til heimilis að Gunnbjarnarholti, 801 Selfossi og Sigrúnar Margrétar Einarsdóttur, kt. [...], Klettum, 801 Selfossi. Fyrirsvarsmaður Strá ehf. er Eiríkur Eiríksson, kt. [...], stjórnarformaður, til heimilis að Sandlækjarkoti, 801 Selfossi.

            Stefndu eru Gunnhildur Loftsdóttir, kt. [...], Miðbraut 26, 170 Seltjarnarnesi, Hrafnhildur Loftsdóttir, kt. [...], Ólafsgeisla 37, 113 Reykjavík, Helga Guðrún Loftsdóttir, kt. [...], Blöndubakka 5, 109 Reykjavík, Sesselja Loftsdóttir, kt. [...], Loftur Sigurður Loftsson, kt. [...], bæði til heimilis að Breiðanesi, 801 Selfossi, Erlingur Loftsson, kt. [...], Sandlæk 1, 801 Selfossi, Elín Erlingsdóttir, kt. [...], Laugalandi, 851 Hellu, Valgerður Erlingsdóttir, kt. [...], Túngötu 4, 880 Kirkjubæjarklaustri og Loftur Erlingsson, kt. [...], Tröð, 801 Selfossi.

            Dómkröfur stefnenda eru þær aðallega að viðurkennt verði með dómi að orkunýtingarréttur vatns fyrir landi jarðarinnar Breiðaness, landnúmerið 166542, sé í óskiptri sameign stefnenda og stefndu. Stefnendur krefjast þess til vara að viðurkennt verði með dómi að orkunýtingarréttur vatns fyrir landi jarðarinnar Breiðaness, landnúmerið 166542, sé í óskiptri sameign stefnenda og stefndu Gunnhildar Loftsdóttur, Hrafnhildar Loftsdóttur, Helgu Guðrúnar Loftsdóttur, Sesselju Loftsdóttur og Lofts Sigurðar Loftssonar. Í báðum tilvikum krefjast stefnendur málskostnaðar, óskipt úr hendi stefndu, að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins, ef til hennar kemur.

            Stefndu krefjast allir sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar.

            Fyrir uppkvaðningu dóms var gætt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

            Málavextir

            Á árinu 1885 var þinglýst landamerkjum fyrir Sandlækjar- og Sandlækjar-kotsjörðum í Gnúpverjahreppi og aðliggjandi jarðir, en jarðirnar mynduðu svokallaða Sandlækjartorfu, sem liggur að bökkum Þjórsár. Ekki var kveðið á um landskipti jarðanna eða skiptingu hlunninda milli þeirra í skjalinu heldur eingöngu um landamerki að aðliggjandi jörðum.

            Nánar var hins vegar kveðið á um landskipti og hlunnindi milli Sandlækjar og Sandlækjarkots með landskiptagjörð dags. 20. janúar 1964, þar sem landskipti Sandlækjartorfunnar voru ákveðin, þ.e. milli jarðanna Sandlækjar og Sandlækjarkots. Við landskiptin kom í hlut Sandlækjar allt land sem lá að Þjórsá. Þáverandi eigendur jarðanna undirrituðu skjalið til staðfestingar gjörðinni, en það voru  Loftur Loftsson, sem þingýstur eigandi Sandlækjar og Margrét Jóna og Ingunn María Eiríksdætur, sem þinglýstir eigendur Sandlækjarkots. Í landskiptagjörðinni var tekið fram að Neseyja í Stóru-Laxá skyldi vera óskipt og eign beggja jarða að jöfnu og þá var sérstaklega tekið fram að „hlunnindi öll sem [væru] á jörðunum og þau sem [kynnu] að finnast [væru] óskipt sameign jarðanna“.

            Eftir þetta hefur bæði Sandlæk og Sandlækjarkoti verið skipt frekar.

            Með landskiptagjörð dags. 6. nóvember 1990 gerðu þinglýstir eigendur Sandlækjarkots með sér samkomulag um skiptingu jarðarinnar. Um skiptingu jarðarinnar var vísað til byggingarbréfs og landskiptagjörðar fyrir Kletta dags. í júní 1977 og byggingarbréfs landskiptagjörðar fyrir Gunnbjarnarholt dags. 6. desember 1989. Samkvæmt því voru 4/10 hlutar jarðarinnar úrskipti fyrir Kletta og Gunnbjarnarholt. Var þannig jörðinni skipt í fjóra parta, þ.e. Sandlækjarkot (1/10 jarðarinnar), Sandlækjarkot 2 (5/10 jarðarinnar), Kletta (1/10 jarðarinnar) og Gunnbjarnarholt (3/10 jarðarinnar). Rituðu þáverandi þinglýstir eigendur jarðarinnar undir landskiptagjörðina henni til staðfestingar, þ.e. þau Margrét Eiríksdóttir, Eiríkur Bjarnason, Eiríkur Kr. Eiríksson og Elín Oddgeirsdóttir en jafnramt rituðu handhafar byggingarbréfa Kletta og Gunnbjarnarholts undir skjalið því til samþykktar, þ.e. þeir Ásgeir Eiríksson og Arnar Bjarni Eiríksson. Í landskiptagjörðinni var ekki vikið að skiptingu á hlunnindum milli jarðanna fjögurra.

            Með landskiptagjörð fyrir Sandlækjarkot 2 (viðauki), dags. 1. desember 2009 var gerð frekari skipting milli Kletta og Sandlækjarkots 2. Í landskiptagjörðinni var sérstaklega tekið fram að hlunnindi Sandlækjarkotsjarðarinnar skyldu skiptast þannig, innbyrðis milli jarðanna, að 1/10 hluti myndi hér eftir sem hingað til fylgja Klettum, landnúmerið 166589, að 4/10 hlutar myndu hér eftir fylgja Gunnbjarnarholti, landnúmerið 166549 og 5/10 hlutar myndu hér eftir sem hingað til fylgja Sandlækjarkoti 2, landnúmerið 179080. Staðfest var með eigendum jarðanna að engin hlunnindi skyldu fylgja lóð Sandlækjarkots, landnúmerið 166588. Með landskiptagjörð dags. 15. janúar 2012 voru gerð frekari landskipti vegna nýrrar landspildu og var framangreindum hlutföllum breytt á þann veg að 1/10 hluti myndi hér eftir fylgja Klettum, landnúmerið 166589, að 5/10 hlutar myndu hér eftir fylgja Gunnbjarnarholti, landnúmerið 166549 og 4/10 hlutar myndu hér eftir fylgja Sand-lækjarkoti 2, landnúmerið 179080. Samkvæmt þessu fylgja engin hlunnindi þeim lóðum sem skipt hafa verið úr jörðunum heldur tilheyra þau eingöngu Klettum, Gunnbjarnarholti og Sandlækjarkoti 2.

            Fjórum dögum eftir upphaflega landskiptagjörð milli Sandlækjar og Sandlækjarkots sem áður er lýst, þ.e. þann 24. janúar 1964, voru landskipti jarðarinnar Sandlækjar ákveðin með landskiptagjörð, sem fól nánar tiltekið í sér að jörðinni var skipt í þrjá parta, þ.e. Sandlæk I, Sandlæk II og Breiðanes. Var skjalið undirritað af hálfu þeirra aðila sem fengu hvert land í sinn hlut, þ.e. þeim Lofti Loftssyni sem eiganda og ábúanda Sandlækjar I, Guðjóni Erlingi Loftssyni, eiganda og ábúanda Sandlækjar II og Lofti Sigurði Loftssyni, eiganda nýbýlis sem síðar fékk heitið Breiðanes. Sá hluti Sandlækjarjarðarinnar sem lá að bökkum Þjórsár tilheyrði Breiðanesi og er Breiðanes hin eina af jörðum málsaðila sem liggur að Þjórsá. Í landskiptagjörðinni var ekki vikið að skiptingu á hlunnindum milli jarðanna þriggja en sérstaklega var tekið fram að hálf Neseyja á móti Sandlækjarkoti væri óskipt.

            Sandlækur I hlaut síðar landnúmerið 166590 en nokkrum lóðum hefur verið skipt úr jörðinni og hlotið sérstök landnúmer. Hefur þá í sumum tilfellum verið tekið fram að lóðum fylgdi engin hlutdeild í óskiptum hlunnindum Sandlækjartorfunnar, en óþarft er að rekja þessi lóðaskipti sérstaklega.

            Sandlækur II hlaut síðar landnúmerið 166591 en nokkrum lóðum hefur verið skipt úr jörðinni og hlotið sérstök landnúmer.

            Breiðanes hlaut síðar landnúmerið 166542 en engum lóðum hefur verið skipt úr jörðinni. Með skiptayfirlýsingu dags. 30. nóvember 2007 lýsti skiptastjóri db. Lofts S. Loftssonar og db. Kristjönu Bjarnadóttur því yfir að jörðin kæmi í hlut fimm erfingja dánarbúanna. Skyldu erfingjarnir eiga hver sín 20% jarðarinnar en um er að ræða núverandi þinglýsta eigendur jarðarinnar. Sérstaklega var tekið fram í skiptayfirlýsingunni að með jörðinni fylgdi hlutdeild hennar í óskiptum hlunnindum Sandlækjartorfu og hlutdeild hennar í Nesey í Stóru-Laxá. Með yfirlýsingum dags. 20. janúar 2012 staðfestu fjórir af fimm eigendum jarðarinnar, þ.e. stefndu Hrafnhildur, Loftur Sigurður, Helga Guðrún og Sesselja, að þeir hefðu selt á leigu sinn hlut í öllum vatnsréttindum sem fylgja jörðinni Breiðanes í Þjórsá til Landsvirkjunar til 65 ára frá undirritun samnings þar um. Segir í yfirlýsingunum að með vatnsréttindum sé átt við orkunýtingarréttindi eða fallréttindi sbr. 16. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Var yfirlýsingunum þinglýst sem kvöð á eignarhluta viðkomandi landeiganda jarðarinnar þann 14. febrúar 2012. Með bréfi dags. 31. október 2013 tilkynnti sýslumaðurinn á Selfossi þeim eina landeiganda, sem ekki undirritaði sambærilega yfirlýsingu og hinir fjórir, þ.e. stefndu Gunnhildi, um leiðréttingu á þinglýsingarmistökum vegna yfirlýsinganna. Segir að ekki hafi verið lagaskilyrði til að þinglýsa yfirlýsingunum og að athugasemd verði færð í þinglýsingabók vegna þessa.

            Stefnendur í máli þessu eru núverandi þinglýstir eigendur þriggja af fjórum jörðum sem áður tilheyrðu Sandlækjarkotsjörðinni. Eigendur jarðanna fjögurra skiptu með sér hlutdeild Sandlækjarkotsjarðarinnar í hlunnindum Sandlækjartorfunnar með landskiptagjörð dags. 1. desember 2009, líkt og fyrr var rakið. Stefnandi Strá ehf. er eigandi jarðarinnar Sandlækjarkot 2, landnúmerið 179080, stefnandi Arnar Bjarni og Berglind eru eigendur jarðarinnar Gunnbjarnarholts, landnúmerið 166549 og stefnandi Sigrún Margrét er eigandi jarðarinnar Klettar, landnúmerið 166589, samkvæmt kaupmála dags. 28. júní 1987.

            Stefndu eru eigendur þeirra jarða og lóða, sem skipt hefur verið út úr jörðunum, sem áður tilheyrðu Sandlækjarjörðinni. Stefndi Erlingur er eigandi Sandlækjar I, landnúmerið 166590 og Sandlækjar I, lóð 1, landnúmerið 201306. Stefndu Valgerður  og Loftur Erlingsson eru eigendur Sandlækjar I, land 3, landnúmerið 201308 og þá er stefndi Valgerður ein eigandi Sandlækjar II, land 2, landnúmerið 201309. Stefnda Elín er eigandi Sandlækjar I, land 4, landnúmerið 212043, Sandlækjar I, lóð 5, landnúmerið 217870, Sandlækjar I, land 7, landnúmerið 219035, Sandlækjar II, landnúmerið 166591, Sandlækjar II, land, landnúmerið 191848 og Sandlækjar II, lóð, landnúmerið 209688. Stefndu Sesselja, Gunnhildur, Helga Guðrún, Hrafnhildur og Loftur Sigurður Loftsbörn eru eigendur Breiðaness, landnúmerið 166542 og Sandlækjar I, lóð 5, landnúmerið 166643. Þinglýstum eigendum Sandlækjar I, land 2, landnúmerið 201307 og Sandlækjar I, lóð, landnúmerið 193349 er ekki stefnt, en lóðum þeirra fylgir ekki hlutdeild í óskiptum hlunnindum Sandlækjartorfunnar.

            Málsástæður og lagarök stefnenda.

            Aðalkrafa stefnenda

            Stefnendur kveða að í eignarétti hafi hugtakið „fasteign“ iðulega verið skilgreint þannig að fasteign teljist vera afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega eru við landið skeytt. Skilgreining þessi hafi verið bundin í lög með setningu laga um fasteignakaup nr. 40/2002, sbr. 2. gr. laganna, sem hafi tekið gildi 1. júní 2002. Talið hafi verið að í eignarrétti yfir fasteign felist heimild til hvers konar umráða og ráðstöfunar verðmætisins innan þeirra marka sem réttarreglur og réttindi þriðja manns setja. Vatnsréttindi hafi verið flokkuð sem sérstök eignaréttindi að fasteignum, þ.e. hluti viðkomandi fasteignar og því sé nýting réttindanna og ráðstöfun hluti viðkomandi fasteignaréttinda, nema réttindin hafi verið löglega skilin frá fasteigninni og fengin öðrum aðila í hendur.

            Þegar landskiptagjörðin hafi verið undirrituð í janúar 1964 hafi landskiptalög nr. 46/1941 verið í gildi og séu það enn. Samkvæmt 1. gr. laganna geti komið til skipta eða endurskipta að nokkru eða öllu leyti, að uppfylltu einhverju þeirra skilyrða sem um sé getið í 1.-3. tölul. ákvæðisins, heimalönd sveitajarða og afréttarlönd, sem jöfnum höndum séu notuð til vetrarbeitar, tún, sáðreitir, engi, landsnytjar aðrar og hlunnindi svo og mannvirki, sem tvö eða fleiri býli hafa áður haft til samnota. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna sé landeigendum frjálst að skipta sjálfir landi sín á milli, líkt og gert hafi verið með landskiptagjörðinni og skuli í henni lýst afstöðu þess lands sem hver um sig hlýtur við skiptin, takmörkun þess og öllum réttindum er því fylgja, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna.

            Í vatnalögum nr. 15/1923 sé kveðið á um vatnsréttindi og hvernig málum varðandi þau sé skipað. Þau lög hafi að mestu staðið óbreytt frá gildistöku þeirra og fram til 30. september 2011, en þá hafi tekið gildi lög nr. 132/2011, en með þeim hafi verið gerðar breytingar á hluta laga nr. 15/1923. Í 2. gr. upphaflegu laganna hafi verið sú meginregla að landareign hverri fylgdi réttur til umráða og hagnýtingar því vatni sem á henni væri, á þann hátt sem lögin heimiluðu, þ.m.t. rétturinn til orkuvinnslu samkvæmt 49. gr. laganna. Hafi ákvæðið því gilt um vatnsréttindi Sandlækjartorfunnar þegar henni hafi verið skipt upp í janúar 1964. Þá hafi verið kveðið á um það í 2. mgr. 16. gr. laganna að ef maður léti af hendi hluta landareignar, er lægi að vatni eða á, þá væri vatnsbotn og vatnsréttindi falin í kaupinu, nema öðruvísi semji, þó svo að sá hluti landareignarinnar, sem eftir yrði, héldi óskertum vatnsréttindum samkvæmt 15. gr. og hefði næg og kauplaus landsafnot til hagnýtingar þeim. Í 3. mgr. 16. gr. laganna hafi komið fram að ef sameignarlandi væri skipt eignarskiptum eða afnotum, þá skyldu hverri eign fylgja svo auðnotuð vatnsréttindi sem unnt væri og nægt land eða næg kauplaus landsafnot til hagnýtingar vatnsréttindum hennar samkvæmt 15. gr. laganna. Efnislega samhljóða ákvæði sé nú að finna í 3. og 4. mgr. 15. gr. laga nr. 15/1923, eftir að þeim hafi verið breytt með lögum nr. 132/2011.

            Stefnendur byggja á því að þegar Sandlækjartorfunni hafi verið skipt upp hafi ekki verið um kaup að ræða í skilningi 2. mgr. 16. gr. laga nr. 15/1923. Við landskiptin hafi bæði eigendur Sandlækjar og Sandlækjarkots látið af hendi hluta af landareign en vatnsréttindin hafi fylgt báðum jörðunum, þ.e. Sandlæk og Sandlækjarkoti eftir skiptinguna. Þetta sé í samræmi við þá meginreglu að óheimilt sé að skilja hlunnindi frá jörðum nema sérstakar undantekningar séu gerðar frá þeirri reglu í lögum. Landskiptagjörðin sjálf frá 20. janúar 1964 sé alveg skýr um þetta atriði enda tekið sérstaklega fram að öll hlunnindi sem væru á jörðunum og þau sem kynnu að finnast væru í óskiptri sameign jarðanna. Þetta sé í samræmi við áskilnað 2. mgr. 16. gr. laga nr. 46/1941 þar sem sú skylda hafi verið lögð á landeigendur, sem skiptu landi sínu sjálfir, að tiltaka hvaða réttindi fylgdu hverju landi. Því sé ljóst að aðilar hafi ekki samið á annan veg en að vatnsréttindin fylgdu báðum jörðum í óskiptri sameign.

            Grunnheimild fyrir eignarétti stefnenda og stefndu sé áðurnefnd þinglýst landskiptagjörð dags. 20. janúar 1964 þar sem jörðunum sem áður mynduðu Sandlækjartorfuna, Sandlæk og Sandlækjarkoti, hafi verið skipt. Í landskiptagjörðinni segi orðrétt: „Hlunnindi öll sem eru á jörðunum og þau sem kunna að finnast eru óskipt sameign jarðanna“. Að mati stefnenda sé ekkert óskýrt við þetta orðalag og án nokkurs vafa ljóst hver merkingin sé. Við blasi að átt sé við hvers konar hlunnindi og réttindi sem hafi verið á jörðunum, þ.m.t. vatnsréttindi í Þjórsá fyrir landi Sandlækjartorfunnar. Ef ætlunin hefði verið sú að undanskilja vatnsréttindin sérstaklega hefði það án alls vafa verið tekið sérstaklega fram í landskiptagjörðinni. Það hafi hins vegar ekki verið gert heldur hafi þvert á móti komið fram að „hlunnindi öll“ sem væru á jörðunum skyldu vera í óskiptri sameign jarðanna. Hefði ætlunin verið sú að breyta eðli eignaréttar þáverandi eigenda Sandlækjartorfunnar til vatnsréttindanna hefði þurft að orða það með ótvíræðum hætti. Þetta hafi ekki verið gert og vilji samningsaðila, þegar umrætt skjal hafi verið undirritað um miðja tuttugustu öld, hafi því án alls vafa verið sá að vatnsréttindin væru í óskiptri sameign. Í þessu sambandi sé einnig til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 skuli við landskipti ekki aðeins farið eftir flatarmáli lands, heldur og gæðum þess og verðmæti á hverjum stað. Ef ætlun samningsaðila hefði verið sú að vatnsréttindin yrðu séreign þess samningsaðila sem fékk við skiptin þann hluta Sandlækjartorfunnar sem lá að árbakkanum hefði landskiptagjörðin borið þess merki, þ.e. eðlilegt hefði þá verið að sá fengi minna flatarmál lands en gagnaðilinn. Þessu sé ekki fyrir að fara í þessu máli heldur geri landskiptagjörðin þvert á móti ráð fyrir jöfnum skiptum lands með samningsaðilum.

            Í þessu sambandi beri sérstaklega að hafa í huga að um og eftir aldamótin 1900 hafi ýmsir aðilar fyrirhugað nýtingu vatnsafls á Íslandi og nokkur félög verið stofnuð til að hrinda þeim hugmyndum í framkvæmd. Eitt þeirra félaga hafi verið Títanfélagið hf., sem stofnað hafi verið af Einari Benediktssyni skáldi, í þeim tilgangi að virkja fossa og flúðir Þjórsár. Um sama leyti hafi Alþingi komið á fót nefnd, svokallaðri Fossanefnd, sem gert hafi verið að semja frumvarp að vatnalögum, fara yfir og gera samantekt á vatnsréttindamálum að fornu og nýju og gera tillögur að framtíðarskipan vatnsréttinda og virkjanamála á Íslandi. Niðurstaða nefndarinnar hafi m.a. verið sú að hafna bæri hugmyndum Títanfélagsins hf. og íslenska ríkið ætti þess í stað að taka að sér sjálft að virkja Þjórsá. Vegna setningar vatnalaga og sökum þess að hugmyndir Títanfélagsins hf. hafi ekki fengið brautargengi hjá fjárfestum hafi ekki orðið úr virkjunaráformum félagsins í Þjórsá. Félaginu hafi svo endanlega verið slitið um miðja 20. öld og vatnsréttindi félagsins framseld íslenska ríkinu með samningi við Títanfélagið þann 16. janúar 1952. Vatnsréttindi Sandlækjartorfunnar hafi ekki verið þar á meðal enda hafi þau ekki verið framseld til Títanfélagsins.

            Því sé ljóst að almenn vitneskja hafi verið um stórfelld kaup vatnsréttinda frá jörðum við Þjórsá snemma á síðustu öld. Þannig liggi t.a.m. fyrir að þann 22. júlí 1916 hafi Jón Bjarnason, þáverandi bóndi á Sandlækjarkoti, selt vatnsréttindi í Þjórsá fyrir fjórðungshluta úr landinu Þrándarholti, til Einars Benediktssonar. Í þessu ljósi liggi í augum uppi að ef ætlun þeirra einstaklinga sem undirrituðu landskiptagjörðina frá 20. janúar 1964 hefði verið sú að vatnsréttindi ættu að vera undanþegin landskiptunum, hefði slíkt verið tekið sérstaklega fram. Fyrirætlun aðila á þessum tíma, sem hafi verið forsenda landskiptagjörðarinnar, hafi því augljóslega verið að vatnsréttindin, sem og önnur hlunnindi Sandlækjartorfunnar, væru í óskiptri sameign aðila. Hafi því þótt ástæða til að taka það sérstaklega fram í landskiptagjörðinni að öll hlunnindi væru í óskiptri sameign, enda liggi fyrir að jörðin Sandlækur hafi við landskiptin fengið allan árbakka Þjórsár. Ingunn María og Margrét Jóna Eiríksdætur sem undirritað hafi landskiptagjörðina sem þinglýstir eigendur Sandlækjarkots hafi því án alls vafa verið í góðri trú um að vatnsréttindi fyrir landi Sandlækjartorfunnar yrðu í óskiptri sameign með Lofti Loftssyni, þinglýstum eiganda Sandlækjar, þegar skjalið hafi verið  undirritað að Sandlæk 20. janúar 1964. Þær systur hafi því mátt treysta því að vatnsréttindin færðust ekki yfir til Lofts við landskiptagjörðina heldur væru sameiginleg í samræmi við vilja samningsaðila þar að lútandi. Þá benda stefnendur  einnig á að sérstaklega sé tekið fram í landskiptagjörðinni að hlunnindi „sem kunni að finnast“ séu einnig óskipt sameign jarðanna. Þetta orðalag renni enn frekari stoðum undir það að vilji samningsaðila hafi staðið til þess að öll réttindi skyldu vera sameign aðila. Jafnframt sé sérstaklega tekið fram í landskiptagjörðinni að Neseyja í Stóru-Laxá skuli vera óskipt og eign beggja jarða að fullu og gefi það til kynna tilætlun aðila að hafa jöfn skipti á öllum gæðum Sandlækjartorfunnar.

            Mikilvægt sé að halda því til haga að hér sé um að tefla mikilsverð og verðmæt réttindi, vatnsréttindi, þ.m.t. orkunýtingarrétt vatns í Þjórsá, á mesta virkjunarsvæði landsins, sbr. 49. gr. þágildandi laga nr. 15/1923. Ef ætlun þeirra aðila sem undirrituðu landskiptagjörðina hafi raunverulega verið sú að eignaréttur að vatnsréttindum færðist að öllu leyti yfir til eiganda Sandlækjar þá hafi það staðið eiganda Sandlækjar nær að tryggja skýra þinglýsingu réttinda sinna að jörðinni, svo sem með skýrri yfirlýsingu um að hann væri eigandi vatnsréttindanna. Þetta hafi ekki verið gert heldur liggi þvert á móti fyrir í máli þessu að hvorki í kjölfar landskiptagjörðarinnar né síðar hafi verið fylgt formreglum um þinglýsingu við yfirfærslu eignaréttar að vatnsréttindum, enda augljóst að tilgangurinn með landskiptagjörðinni hafi alls ekki verið sá að slíkur réttur færðist yfir til eiganda Sandlækjarjarðarinnar. Ef raunverulega hafi verið samið um það að eignaréttur ætti að færast yfir hefði eigandi Sandlækjarjarðarinnar vitaskuld gert reka að því að fá eign sína skráða í þinglýsingabókum, enda um mikla hagsmuni að tefla í því ljósi að miklar fyrirætlanir hafi verið um virkjun vatnsafls í Þjórsá og slík réttindi gengið kaupum og sölum áður en landskiptagjörðin hafi verið undirrituð. Síðari eigendur útskiptra jarða Sandlækjarjarðarinnar hafi heldur með engu móti sinnt því að fá ætlaða eign sína skráða almennri eignaskráningu í þinglýsingabókum og/eða skv. fasteignaskráningu. Þvert á móti hafi sérstaklega verið tekið fram að um óskipt hlunnindi í Sandlækjartorfu sé að ræða, sbr. til að mynda skiptayfirlýsingu dags. 30. nóvember 2007. Áréttað sé að ekkert hafi verið fjallað um það í landskiptagjörð Sandlækjar frá 24. janúar 1964 hvaða jörð hlunnindi, þ.m.t. vatnsréttindi, skyldu fylgja. Það hefði eiganda jarðarinnar Breiðanes þó verið í lófa lagið teldi hann vatnsréttindin fylgja þeirri jörð eingöngu.

            Ákveðið hafi verið að vatnsréttindin væru sameiginleg eignaréttindi í landskiptagjörðinni. Slík réttindi falli ekki á brott nema með samkomulagi landeiganda, sbr. fyrrnefnd ákvæði landskiptalaga nr. 46/1941 og vatnalaga nr. 15/1923, eða með sérstakri lagaheimild að gættum ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ekkert slíkt samkomulag hafi verið gert og engin lög hafi verið sett sem nemi á brott vatnsréttindi stefnenda. Stefndu berið sönnunarbyrði fyrir því að þau sitji ein að eignarétti yfir vatnsréttindum Sandlækjartorfunnar.

            Stefnendur kveða engan vafa á því að á þeim tíma sem skiptagjörðin hafi verið undirrituð hafi vatnsréttindi verið talin til hlunninda samkvæmt lögum og því í raun ómögulegt fyrir þá sem undirrituðu landskiptagjörðina í janúar 1964 að leggja annan skilning í orðið „hlunnindi“ en að undir það félli vatnsréttindi. Áréttað sé að fræðimenn hafi talið að vatnsréttindi væru sérstök réttindi, ásamt t.d. námuréttindum, veiðiréttindum, rekaréttindum o.s.frv. Jafnframt að samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 46/1941 skyldi lýsa öllum réttindum sem hverju landi fylgdi við landskipti en ákvæðið vísi að þessu leyti til 1. mgr. 1. gr. laganna þar sem rætt sé um hlunnindi. Þá sé einnig bent á að í 3. gr. eldri jarðalaga nr. 65/1976, sem hafi tekið gildi 11. júní 1976, komi fram að lögin nái til jarða, jarðarhluta, afréttarlanda, öræfa og landspildna, svo og til ítaka, skóga, vatnsréttinda, veiðiréttinda og hvers konar annarra hlunninda. Þessi texti laganna verði ekki skilinn á annan veg en þann að vatnsréttindi teljist hlunnindi samkvæmt lögunum, sbr. orðin „…vatnsréttindi… og hvers konar annarra hlunninda…“. Samkvæmt 10. mgr. 2. gr. núgildandi jarðalaga nr. 81/2004, sem hafi tekið gildi 1. júlí 2004, merki hlunnindi í lögunum hvers konar auðlindir, nytjar aðrar en grasnytjar, lífræn og ólífræn efni og efnasambönd, villt dýr, plöntur, annað lífríki og önnur nýtanleg réttindi sem fylgja jörð. Sé því ljóst að vatnsréttindi teljist til hlunninda samkvæmt lögunum, sbr. orðin „hvers konar auðlindir“.

            Með vísan til framanritaðs sé á því byggt af hálfu stefnenda að vatnsréttindi í Þjórsá, sem áður tilheyrðu Sandlækjartorfunni, séu réttindi sem séu í óskiptri sameign stefnenda og stefndu, enda hafi vatnsréttindin ekki verið undanskilin í landskiptagjörðinni frá 20. janúar 1964 heldur þvert á móti tiltekið að öll hlunnindi væru í sameign Sandlækjar og Sandlækjarkots. Vatnsréttindin sem hafi tilheyrt Sandlækjartorfunni hafi þannig aldrei verið löglega skilin frá jörðunum Sandlæk og Sandlækjarkoti heldur þvert á móti kveðið á um það sérstaklega að þau ættu að vera sameiginleg. Ef þáverandi eigandi Sandlækjarjarðarinnar hefði talið sig vera að eignast verðmæt vatnsréttindi í Þjórsá að öllu leyti, þ.m.t. rétt til að hagnýta sér vatnsaflsorku sbr. 49. gr. þágildandi laga nr. 15/1923, hefði hann án alls vafa gert reka að því að skrá þá eign sína í opinberum skrám, en það hafi hann ekki gert. Í þessu sambandi sé einnig til þess að líta að fram til þessa hafi verið ágreiningslaust milli stefnenda og stefndu að önnur hlunnindi en vatnsréttindi, sem áður hafi tilheyrt Sandlækjartorfunni væru sameign aðila, þ.m.t. námaréttindi og veiðiréttur til lax- og silungsveiða. Síðarnefndu hlunnindin séu raunar færð í fasteignaskrá jarða stefnenda. Þannig liggi fyrir að arður vegna veiðiréttinda í Stóru-Laxá hafi allt frá upphafi og til dagsins í dag verið skipt jafnt á milli Sandlækjar og Sandlækjarkots. Samkvæmt yfirmati arðskrár fyrir veiðifélag Árnesinga dags. 5. september 1963 skyldu 60 einingar koma í hlut Sandlækjar og Sandlækjarkots. Hafi þannig komið 30 einingar í hlut hvorrar jarðar og arður greiddur til eigenda beggja jarða samkvæmt því. Frá því arðskránni hafi verið breytt í júlí 1979, þegar jarðirnar skyldu fá sameiginlega 70 einingar í sinn hlut, og svo aftur með matsgerðs dags. 2. febrúar 1991, hafi jöfn skipti verið viðhöfð þannig að 35 einingar koma í hlut hvorrar jarðar. Einingunum sé svo skipt innbyrðis milli eigenda þeirra jarða og lóða sem tilheyri annars vegar Sandlæk og hins vegar Sandlækjarkoti. Allt sé þetta gert í samræmi við orðalag landskiptagjörðarinnar frá 20. janúar 1964 um að öll hlunnindi séu í óskiptri sameign beggja jarða, þótt ekki sé þar tekið sérstaklega fram að veiðiréttindi séu í óskiptri sameign.

            Nú sé um hálf öld frá því að umrædd landskiptagjörð hafi verið undirrituð. Allan þann tíma hafi það verið sameiginlegur skilningur málsaðila að eignaréttur að vatnsréttindum væru í óskiptri sameign. Það hafi fyrst verið með bréfi lögmanns fjögurra af fimm eigendum Breiðaness, stefndu Helgu Guðrúnar, Hrafnhildar, Lofts og Sesselju Loftsbarna, dags. 26. júní 2013, að þeirri skoðun hafi verið lýst að vatnsréttindin væru fasteignatengd réttindi og að bakkajörðin Breiðanes ætti þessi réttindi. Þessu hafi stefnendur strax mótmælt með bréfi dags. 29. júlí 2013 þar sem þeirri afstöðu stefnenda hafi verið lýst að vatnsréttindin væru í óskiptri sameign. Hafi sá réttur sem nefndir stefndu haldi fram einhvern tíma verið fyrir hendi hafi þau glatað honum vegna tómlætisáhrifa.

            Fyrir liggi að frá því landskiptagjörðin hafi verið gerð í janúar 1964 hafi bæði Sandlæk og Sandlækjarkoti verið skipt frekar upp, þar sem hver jörð hafi sitt eigið landnúmer. Það komi hins vegar ekki í veg fyrir að vatnsréttindin geti verið í óskiptri sameign núverandi eiganda viðkomandi jarða enda leiði rétturinn af títtnefndri landskiptagjörð, sem ekki hafi verið hróflað við með síðari gerningum.

            Þá vísa stefnendur til þess að ákvæði 1. mgr. 16. gr. þágildandi laga nr. 15/1923, sem hafi kveðið á um að ef vatnsréttindi væru látin af hendi án þess að eignarréttur að landi fylgi færi eftir reglum um landkaup, eigi ekki við í málinu. Ástæða þess sé sú að vatnsréttindin hafi aldrei verið skilin sérstaklega frá jörðunum, hvorki með landskiptagjörðinni í janúar 1964 né síðar, og þá ekki heldur án þess að eignaréttur að landi fylgi. Að sama skapi geti dómur Hæstaréttar frá 14. maí 2009 í máli nr. 562/2008 ekki haft fordæmisáhrif í máli þessu. Í því máli hafi legið fyrir að vatnsréttindi hafi verið sérstaklega skilin frá jörðinni Skálmholtshrauni með samningi gerðum í ársbyrjun 1952 og framseld íslenska ríkinu. Málið hafi fyrst og fremst snúist um það hvort það leiddi af ákvæðum laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum að vatnsréttindi íslenska ríkisins væru niður fallin. Í málinu hafi því verið hafnað að vatnsréttindi teldust til ítaksréttinda í skilningi laga nr. 113/1952 og því ekki verið fallist á málatilbúnað landeigandans í málinu. Í hæstaréttarmálinu hafi ekki verið, líkt og í því máli sem hér er til úrlausnar, meðal gagna málsins landskiptagjörð þar sem kveðið væri sérstaklega á um að öll hlunnindi ættu að vera í óskiptri sameign, heldur hafi þvert á móti verið kveðið á um það í landskiptagjörð vegna jarðarinnar að vatnsréttindin væru eign ríkissjóðs.

Varakrafa stefnenda

            Aðalkrafa stefnenda byggi á því að þeir eigi, sem núverandi eigendur jarða sem áður hafi tilheyrt jörðinni Sandlækjarkoti, vatnsréttindi Sandlækjartorfunnar í óskiptri sameign með stefndu, sem núverandi eigendum þeirra jarða sem áður hafi tilheyrt jörðinni Sandlæk. Verði hins vegar talið að eigendur Sandlækjar hafi frá 20. janúar 1964 skipt upp jörðinni með þeim hætti að hlutdeild hennar í vatnsréttindum Sandlækjartorfunnar tilheyri eingöngu jörðinni Breiðanesi, landnúmer 166542, eigi stefnendur réttindin í óskiptri sameign með núverandi þinglýstum eigendum Breiðaness, þ.e. stefndu Gunnhildi Loftsdóttur, Hrafnhildi Loftsdóttur, Helgu Guðrúnu Loftsdóttur, Sesselju Loftsdóttur og Lofti Sigurði Loftssyni.

            Eins og áður segir hafi jörðinni Sandlæk verið skipt í þrjá hluta með landskiptagjörð dags. 24. janúar 1964, þ.e. Sandlæk I, Sandlæk II og Breiðanes. Sú skipting, og allar síðari skiptingar jarðanna, séu stefnendum óviðkomandi. Hafi stefnendur ekki undir höndum öll nauðsynleg gögn og upplýsingar til að geta lagt mat á hvort þær skiptingar feli efnislega í sér að hlutdeild Sandlækjarjarðarinnar í vatnsréttindum Sandlækjartorfunnar tilheyri nú eingöngu Breiðanesi en það sé eina jörðin sem liggi að Þjórsá. Sé þessi krafa því gerð í varúðarskyni.

            Um málsástæður stefnenda að baki varakröfu vísa þeir til málsástæðna fyrir aðalkröfu sinni að breyttu breytanda. Auk þess benda þeir á að samkvæmt vottorði fasteignamats ríkisins sé gjaldstofn til fasteignamats jarðarinnar Breiðaness, sundurliðað í sex liðum. Þar sé hvergi minnst á vatnsréttindi af neinu tagi, hvorki til veiða, virkjunar né annarra nota.

            Um lagarök vísa stefnendur til 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignaréttarins, sbr. 1. gr. og 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu um vernd eignarréttarins, sbr. lög nr. 62/1994 um lögfestingu sáttmálans. Þá vísa þeir til meginreglna eignaréttar um hlunnindi, um venjurétt og óslitin not, sem og almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Jafnframt til ákvæða vatnalaga nr. 15/1923, landskiptalaga nr. 46/1941, laga um fasteignakaup nr. 40/2002, jarðalaga nr. 65/1976 og núgildandi jarðalaga nr. 81/2004. Um aðild málsins vísast til 18. og 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um heimild sína til að höfða viðurkenningarmál um kröfu sína á hendur stefndu vísa stefnendur til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnaðarkröfu sína vísa stefnendur til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt byggir á ákvæðum laga nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefndu Gunnhildar

Stefnda Gunnhildur, hér eftir í þessum kafla nefnd stefnda nema annars sé getið, kveður að stefnendur byggi málsókn sína á meintu lögmætu fráviki frá þeirri vel þekktu, viðurkenndu og margdæmdu reglu íslensks eignarréttar, að eignarhaldi á jörðum sem liggi að vatnsfalli fylgi allur nýtingarréttur vatnsréttinda sem heimill er að lögum þar með talinn fallvatnsréttu eða orkunýtingarréttur.

Víða megi sjá í lögum tilvist reglunnar en skýrast komi hún væntanlega fram í núgildandi löggjöf í 2. gr. vatnalaga nr. 15/1923, eins og greininni hafi verið breytt með lögum nr. 132/2011, en þar segi orðrétt: „[l]andareign hverri, þ.m.t. þjóðlendu, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er á þann hátt sem lög þessi heimila.“

Óumdeilt sé að við landskiptin 1964 hafi svohljóðandi reglu verið að finna í þágildandi 16. gr. vatnalaga nánar tiltekið í 2. mgr.: „[n]ú lætur maður af hendi hluta landareignar, er liggur að vatni eða á, og er þá vatnsbotn og vatnsréttindi falin í kaupinu, nema öðruvísi semji,....“.

Þá hafi komið fram í 3. mgr. sömu greinar að „[e]f sameignarlandi er skipt eignarskiptum eða afnota, þá skulu hverri eign fylgja svo auðnotuð vatnsréttindi sem unnt er og nægt land eða næg og kauplaus landsafnot til hagnýtingar vatnsréttindum hennar samkvæmt 15. gr.“ Í 15. gr. hafi verið fjallað um vatn til nota á heimili, til bústarfa og í jarðrækt.

Meginregla 2. mgr. 16. gr. laganna sé afar skýr, vatnsréttindi fylgi landi sérstakrar tilgreiningar þar að lútandi og ef sú regla eigi ekki að gilda þurfi aðilar að semja alveg sérstaklega um að svo verði.

Af inntaki 3. mgr. megi svo sjá að ef óheimilt væri við skiptingu á sameignarlandi að fylgja meginreglu 1. mgr. og láta vatnsréttindi fylgja að fullu og óskert með því landi sem réttindin tengdust, væri tilgangslaust að setja sérstaka reglu í 3. mgr. til þess að tryggja áfram fyrrum eiganda að sameignarlandi vissan rétt til vatns, sbr. 15. gr., sem hann annars missti við landskiptin. Nýting straumvatns, þ.e. orkunýting, sé því ekki hluti af þeim réttindum sem falli undir 3. mgr. 16. gr. laganna og falli því skv. 1. mgr. sömu greinar til þess er fær landið sem liggur að straumvatninu.

Kveður stefndi að stefnendur haldi því hins vegar fram að eignarhaldi á jörðinni Breiðanesi eigi ekki að fylgja orkunýtingarréttur rennandi vatns fyrir landi jarðarinnar, þvert á þau ákvæði laga sem gildi um ágreining aðila og rakin hafi verið.

Rétt sé þó að taka fram að stefnendur mótmæli því ekki að viðkomandi reglur taki til ágreiningsins og sé efnisinntaki þeirra eins lýst í stefnu og stefnda hafi rakið. Stefnendur leggi hins vegar í stefnu ranglega, að mati stefndu, út frá ofangreindum reglum, mistúlki gögn málsins sem máli skipti s.s. landskiptagjörðir og heimfæri svo gögn málsins á þann hátt að það gangi í berhögg við inntak reglnanna sem áður hafi verið lýst. Af þessu leiði sú ranga niðurstaða að stefnendur telji vatnsréttindin fyrir landi Breiðaness vera óskipta sameign margra jarða, sem hún geti ekki verið að mati stefndu og mótmælir stefnda forsendum og niðurstöðu stefnenda.

Stefnda bendir einnig á að víða sé að finna þversagnir í röksemdafærslu stefnenda sem að mati stefndu geti ekki gengið saman. Þannig er því t.d. lýst í stefnu að virkjunarréttindi í Þjórsá hafi verið öllum alkunn sem verðmæt réttindi þegar aldamótaárið 1900 og hafi því verið aðilum landskiptanna vel þekkt árið 1964, en því engu að síður svo haldið fram að orðalagið hlunnindi „sem síðar kunni að finnast“ í landskiptagjörðinni 1964 renni stoðum undir að þar hafi verið átt við sömu virkjunarréttindi. Þessir skýringarkostir fari ekki saman.

Þá er því lýst í sömu málsgrein að þar sem réttindin hafi verið alkunn sem og meginreglan um að vatnsréttur fylgi því landi sem liggi að fallvatni, hafi aðilum landskiptagjörðarinnar augljóslega borið að taka það sérstaklega fram ef vatnsréttindin væru undanskilin við landskiptin. Það sé rétt hjá stefnendum, en það hafi greinilega og meðvitað ekki verið tekið fram, því hafi það einmitt verið ætlun aðila að um eignarhald og nýtingu vatnsréttinda skyldi fara skv. áður tilvitnaðri reglu 16. gr. vatnalaga sem allir hafi þekkt.

Vatnsréttindin falli þá sjálfkrafa og án þess að það þurfi að taka fram í landskiptagjörðinni til eiganda landsins sem liggi að Þjórsá, Breiðanesi, en verði einmitt ekki sjálfkrafa að óskiptri sameign eins og stefnendur túlki þögn landskiptanna varðandi vatnsréttindin. Sú niðurstaða væri enda í beinni andstöðu við það sem stefnendur lýsi sjálfir að sé lögfylgja landskiptanna, skv. gildandi lagareglum 1964. Með öðrum orðum hefði sérstaklega þurft að taka það fram í landskiptagjörðinni, ef um vatnsréttindi ætti að fara öðruvísi en skv. þágildandi vatnalögum, svo hafi ekki verið gert sem leiði þá þegar til sýknu stefndu.

Rétt sé að geta þess að fullyrðing í stefnu um að markmið aðila með landskiptunum hafi verið að „öll“ réttindi væru áfram í sameign aðila sé augljóslega röng. Sé það enda einn megintilgangur landskipta að slíta sameign og stofna séreign á þann veg að öll hefðbundin réttindi fylgi henni sem lög mæli fyrir um, nema sérstök frávik séu á því gerð og þau tekin fram í landskiptagjörðinni. Slík frávik megi svo auðvitað ekki vera í andstöðu við lög, s.s. bann 9. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006 við því að skilja veiðirétt frá fasteign.

Með vísan til framangreindra röksemda mótmælir stefnda þeirri fullyrðingu stefnenda að það hafi staðið eiganda Breiðanes árið 1964 „nær“ að þinglýsa sérstakri yfirlýsingu um eignarhald vatnsréttindanna. Slík yfirlýsing sé bersýnilega óþörf í ljósi þess að vatnsréttindin fylgi fasteigninni. Þar af leiðandi neiti stefnda því að hún eða nokkur sem réttindi hennar séu leidd af hafi ekki „fylgt formreglum um þinglýsingu við yfirfærslu eignaréttar að vatnsréttindum“, eins og það sé orðað í stefnu.

Umræddar formreglur séu í fyrsta lagi ekki til, í öðru lagi óþarfar þar sem réttindin fylgi fasteigninni sjálfkrafa og í þriðja lagi geti þinglýsingareglur aðeins verið upplýsandi varðandi sönnun á eignarrétti en hvorki stofnað til eignarréttar né fellt hann úr gildi, einar og sér.

Í stefnu sé því lýst að vatnsréttindi lands sem liggur að straumvatni geti ekki fallið niður nema með samkomulagi allra landeigenda með tilvísun til landskiptalaga nr. 46/1941 og vatnalaga nr. 15/1923. Ef stefnda skilji þetta rétt þá sé umrædd fullyrðing sönn, báðir þessir lagabálkar fullyrði svo ekki verði um villst og afar skýrt, að ef beita eigi annarri reglu en að vatnsréttindi fylgi þeim jarðarparti sem liggur að straumvatni, verði að taka slíkt skýrt fram og tryggja samþykki allra eigenda til slíkrar ráðstöfunar, enda í andstöðu við skráðar meginreglur sömu laga, sbr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 og 16. gr. vatnalaga nr. 15/1923 sem í gildi hafi verið við landskiptin 1964. Það væri þar af leiðandi skýrt brot á eignarréttindum stefndu sem eiganda að Breiðanesi, sem varin séu af ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar sbr. lög nr. 33/1944, ef skerða ætti rétt stefndu til vatnsréttinda sem fylgi Breiðanesi með dómi, kveður stefnda að með vísan til greinarinnar verði réttur hennar vatnsréttinda ekki takmarkaður af stefnendum nema gegn greiðslu skaðabóta.

Öfug regla gildi þar af leiðandi ekki, eins og stefnendur haldi fram, í þá veru að aðilar að landskiptagjörð þurfi sérstaklega taka fram að þeir samþykki að fara að lögum við skiptin og sætti sig þar af leiðandi við að vatnsréttindin fylgi bakkajörðinni með sérstöku ákvæði þar að lútandi. Þvert á móti hefði það legið beint við að taka fram í landskiptagjörðinni berum orðum ef vatnsréttindi ættu að vera áfram í óskiptri sameign þvert á meginreglu laga. Ljóst sé að aðilar hafi gætt að slíkum reglum, þar sem Nesey sé gerð að óskiptri sameign, en af því megi ráða að það hafi ekki verið ætlun aðila varðandi vatnsréttindin. Þá vekur stefnda athygli á því að sérstaklega sé vikið að því í landskiptagjörðinni að Sandlækjarkot haldi tilteknum beitarréttindum í Engjum, þrátt fyrir að það land falli eftir landskiptin til Sandlækjar, sem enn frekari staðfesting á því að aðilar hafi hugleitt rækilega hvaða réttindi fylgdu hvorri jörð við landskiptin.

Þá sé aðeins eftir ein óhrakin málsástæða stefnenda fyrir því að vatnsréttindin geti talist sameign og það sé sú málsástæða að þau falli undir hugtakið „hlunnindi“ eins og það komi fyrir í eftirfarandi setningu landskiptagjörðar Sandlæks og Sandlækjarkots: „Hlunnindi öll sem eru á jörðunum og þau sem kunna að finnast eru óskipt sameign jarðanna.“

Þessari túlkun hafnar stefnda algerlega, vatnsréttindi hafi aldrei fallið undir hugtakið hlunnindi, eins og það sé notað í landskiptagjörðinni frá 20. janúar 1964 né skv. lögum eða öðrum réttarheimildum. Þannig megi ráða af landskiptalögum nr. 41/1946 að vatnsréttindi falli ekki í flokk svokallaðra hlunninda. Í 1. mgr. 3. gr. laganna séu talin upp þau helstu hlunnindi sem í þá daga hafi verið talin koma til álita við landsskipti, séu þar nefnd m.a. veiði ýmiskonar, reki og námuvinnsla, en hvergi sé þar minnst á vatnsréttindi.

Sé það heldur ekki skrýtið þar sem um vatnsréttindi skyldi við landskipti fara skv. 3. mgr. 3. gr., en þar segi efnislega að um umráð og notkun vatns og fallvatna skuli fara skv. almennum lögum við landskipti. Með því sé aðallega verið að vísa til vatnalaga nr. 15/1923, sem mæli og hafi mælt fyrir um hvernig fara skuli með vatnsréttindi við skipti, kaup og sölu lands, eins og rakið hafi verið og gangi út frá því að réttindin fylgi landi sem liggi að fallvatni eftir skipti.

Það sé því bersýnilega rangt að mati stefndu að hægt sé að líkja fasteignartengdum réttindum sem fylgi við kaup, sölu og skipti fasteigna eins fallvatnsréttindum við hlunnindi eins og rétt til reka eða veiðiréttar líkt og stefnendur gera. Sé þessari túlkun mótmælt sem rangri og ósannaðri af hálfu stefndu. Sé það þvert á móti eðlilegt að nýting fallvatnsréttinda fylgi því landi sem liggur að straumvatni. Þennan nýtingarrétt megi þó gera að sérstökum fasteignarréttindum og skilja frá viðkomandi fasteign. Öfug regla gildi hins vegar almennt um hlunnindi sbr. t.d. tilvitnaða 9. gr. lax- og silungsveiðilaga, í hlunnindum hafi hins vegar áður fyrr getað stofnast ítak, en Hæstiréttur hafi t.d. hafnað að slík ítaksréttindi gætu stofnast í vatnsréttindum sbr. Hrd. 562/2008.

Með gagnályktun frá því að vatnsréttindi falli ekki undir skilgreininguna á ítaki megi þar af leiðandi að mati stefndu fullyrða að vatnsréttindi geti alls ekki talist til hlunninda í þeirri merkingu sem stefnendur leggi í það hugtak og eins og orðið hlunnindi hafi verið notað í landskiptagjörðinni 20. janúar 1964. Af lögskýringargögnum sé óhætt telja að nær tæmandi hafi verið talið að undir ítak mætti fella í skilning laganna rétt til eftirfarandi landsnytja; slægna, beitar, svarðartekju, torfristu, laxveiði, silungsveiði, reka alls konar, grasatekju, eggjatekju, fuglatekju, sölvafjöru og maríukjarnafjöru.

Þannig megi leiða yfirgnæfandi líkur að því að hugtakið hlunnindi hafi þvert á móti átt að ná til réttinda eða sambærilegra réttinda og hafi getað fallið undir skilgreininguna ítak, enda sé t.d. laxveiði bæjanna enn óskipt sameign. Hlunnindi séu aftur á móti ekki réttindi sem talin séu eðlilegt fylgifé með fasteign eins og rétturinn til nýtingar fallvatns. Þá mótmælir stefnda tilvísun stefnenda til 3. gr. eldri jarðalaga nr. 65/1976 í þessu samhengi, m.a. á þeim grundvelli lögin hafi ekki verið í gildi þegar landskiptin hafi átt sér stað og þar sem 3. greinin fjalli almennt um gildissvið laganna, sem ekkert reyni á í málinu, verði ekki séð að umrædd tilvísun hafi nokkurt vægi.

Í stefnu sé vikið að tómlætisáhrifum sem að mati stefnenda geti haft áhrif í málinu. Virðist stefnendur halda því fram að stefnda hafi misst lögvarinn rétt sinn til vatnsréttinda á grundvelli tómlætis. Stefnda mótmælir þessu og fær ekki séð hvernig réttur sem henni sé tryggður að lögum geti fallið niður á þeim grunni. Miklu nær væri að mati stefndu að líta til tómlætis stefnenda við að setja fram kröfur sínar um að þeir teldu sig eiga einhvern rétt til nýtingar fallvatns fyrir landi Breiðaness, þvert á hefðbundna lagatúlkun.

Það séu stefnendur sem hafi þurft að stefna málinu og sækja meintan rétt sinn, sem hafi ávallt verið að lögum hjá stefndu, að höfða dómsmál 51 ári eftir að vatnsréttindin hafi fallið til eiganda Breiðaness, til þess að ógilda þann gerning, sé vítavert tómlæti af hálfu stefnenda og þeirra sem þau leiða rétt sinn af og sýknuástæða ein og sér.

Varðandi varakröfu stefnenda vísar stefnda til sömu sýknuástæðna og færðar séu fram varðandi aðalkröfu.

Stefnendur beri fulla og óskoraða sönnunarbyrði fyrir því að víkja skuli frá hinni lögbundnu reglu um eignar- og nýtingarrétt fasteignareiganda að fallvatni fyrir landi sínu eða orkunýtingarrétt vatns, eins og stefnendur kjósi að kalla þann rétt. Sú sönnunarbyrði hafi ekki tekist og hafi stefnda hrakið allar málsástæður stefnenda þar að lútandi og verði því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnenda.

Þá gagnrýnir stefnda kröfugerð stefnenda og kveður að ekki verði annað ráðið af stefnu en að krafist sé jafnrar hlutdeildar allra aðila í málinu í hinni óskiptu sameign. Að mati stefndu gangi slík kröfugerð ekki fyllilega upp. Ef í dæmaskyni væri verið að fjalla um óumdeilda óskipta sameign jarðanna Sandlæks og Sandlækjarkots, Nesey í Stóru-Laxá, eftir landskiptin 20. janúar 1964, þá væri ljóst að hlutdeild jarðanna í eyjunni væri eftir skiptingu helmingshlutdeild í eynni. Jörðin Sandlækur, sem stefnda og aðrir eigendur Breiðaness leiði rétt sinn af, hafi svo verið skipt í þrjár jarðir 24. janúar 1964. Þannig falli til eigenda Breiðaness á hverjum tíma þriðjungshlutur af þeim helmingi sameignarinnar sem hafi fallið til Sandlækjar.

Sameiginlegur hlutur stefndu með öðrum eigendum Breiðaness geti því aldrei orðið minni en sú skipting mæli fyrir um, þ.e. fyrst 3/6 hlutar sem hafi fallið til Sandlækjar og svo 1/6 heildinni sem falli til Breiðaness sem 1/3 af Sandlæk. Hlutur eigenda Breiðaness geti því aldrei orðið lægri en 1/6 heildarhluti af allri sameigninni, alveg sama hversu eigendum annarra hluta Sandlækjar og Sandlækjarkots fjölgi. Þannig falli í hlut stefndu 1/5 réttinda Breiðaness, á móti systkinum sínum fjórum, þ.e. 1/15 (1/5 af 1/3) af óskiptunni [sic.] sem heild.

Ef hins vegar fallist yrði á kröfur stefnenda óbreyttar, verði ekki annað séð en að stefnendur krefjist þess að allir fái jafnan hlut að tiltölu í sameigninni. Þannig yrðu hlutirnir alls 13 ef fallist yrði á aðalkröfuna, þ.e. 4 stefnendur og 9 stefndu, og hlutur stefndu þá 1/13 í sameigninni sem heild, en ef fallist yrði á varakröfuna, þ.e. 4 stefnendur og 5 stefndu, þá yrði hlutur stefndu 1/9 í sameigninni. Slíkt ósamræmi gangi ekki upp án frekari skýringa stefnenda á því hvernig svo megi vera, hlutur stefndu geti ekki tekið hlutfallslegum breytingum eftir því hversu margir aðilar séu í hópi stefnenda og stefndu á meðan eignarhlutur stefndu í Breiðanesi haldist óbreyttur.

Með öðrum orðum þá geti hlutur hvers og eins í sameigninni ekki gengið fram hjá þeirri staðreynd að fyrst hafi óskiptri sameign Sandlækjar og Sandlækjarkots verið skipt til helminga og svo leiði hver aðili rétt sinn og þá hlutdeild í óskiptunni [sic.] af upphaflegri skiptingu jarðanna til helminga og síðan skerðist hann hugsanlega við frekari skiptingar þess parts. Er skorað á stefnendur að bæta úr þessum annmarka og skýra dómkröfurnar frekar að þessu leyti, að öðrum kosti kunni málinu að vera vísað frá dómi án kröfu.

Það leiði hins vegar af eðli máls, að við sýknu af öllum kröfum stefnenda þurfi í sjálfu sér ekki að deila um hugsanlega hlutdeild aðila til vatnsréttindanna í Þjórsá. Þau falli 100% til eigenda Breiðaness og þar af fimmtungur í hlut stefndu.

Um lagarök og málskostnaðarkröfu sína vísar stefnda til þeirra lagaákvæða sem rakin hafi verið sem og almennt til meginreglna landskiptalaga nr. 46/1941, vatnalaga nr. 15/1923, laga nr. 33/1944, einkum 72. gr. um vernd eignarréttinda sbr. og 1. gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994. Stefnda vísar einnig til skuldbindingargildis landskiptagerða, kaupsamninga og afsala.

Stefnda krefst þess að hver sem úrslit málsins verða að þá verði stefnendum gert að greiða henni málskostnað in solidum. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefnda á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. og 2. mgr. 130. gr. og 1. mgr. 131. gr. laganna.

Málsástæður og lagarök stefndu Hrafnhildar Loftsdóttur, Helgu Guðrúnar Loftsdóttur, Sesselju Loftsdóttur og Lofts Sigurðar Loftssonar

Þessir stefndu, hér eftir í þessum kafla stefndu nema annars sé getið, krefjast sýknu á þeim grunni að þau vatnsréttindi sem jafnan séu kölluð fallvatnsréttindi eða orkunýtingarréttur sé hluti af þeim eignarréttindum sem tilheyri fasteign. Þeir telja að réttur til orkunýtingar á vatni í landi Breiðaness og á bökkum jarðarinnar við Þjórsá tilheyri óskertur þeirri jörð og að aðrar jarðir sem Breiðanesi hafi verið skipt út úr eigi enga kröfu í þann orkunýtingarrétt eða vatnsréttindi að öðru leyti en því sem lög sérstaklega heimili. Breiðanes sé sjálfstæð jörð með öllum þeim réttindum sem jörðinni fylgi.

Landskiptasamningarnir beri með sér að jörðin Breiðanes eigi land út í miðja Þjórsá og skv. 2. gr. vatnalaga nr. 15/1923 fylgi landareign hverri réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er á þann hátt sem lögin heimili. Ef stefnendur vilji hafa annan hátt á því sem lögin taki fram beri þeim að sýna fram á að þeir hafi öðlast þessi fasteignaréttindi á lögmætan hátt, t.d. með samningum eða landskiptum. Það hafi þeir ekki gert. Í landskiptunum hafi ekkert land verið eftir sameiginlegt nema Nesey í Stóru-Laxá. 

Af 15. gr. vatnalaganna verði dregin sú ályktun að vatnsréttindi séu hluti af eignarréttindum jarðar en ekki hlunnindi enda sé þar fjallað um leyfi til að skilja vatnsréttindi frá landareign og hvernig haga skuli skiptum vatnsréttinda við sölu hlutar eignar og við landskipti. 15. greinin sé svohljóðandi eftir breytingar með lögum nr. 132/2011:

„15. gr. [Leyfi til að skilja vatnsréttindi frá landareign og skipting vatnsréttinda við sölu hluta landareignar.

  Ekki má skilja frá landareign vatnsréttindi til heimilis- og búsþarfa nema með leyfi Orkustofnunar.

  Nú eru vatnsréttindi framseld án þess að eignarréttur að landareign sé jafnframt framseldur og fer þá um réttarvernd þeirra samkvæmt ákvæðum þinglýsingalaga er varða fasteignir.

  Nú er framseldur hluti landareignar sem liggur að vatni eða á og eru vatnsréttindi innifalin í kaupunum nema öðruvísi sé kveðið á um. Þó skal sá hluti landareignar sem eftir stendur hafa næg vatnsréttindi til að fullnægja heimilis- og búsþörfum og næg og endurgjaldslaus landsafnot til hagnýtingar þeim.

  Ef sameignarlandi er skipt skulu hverjum eignarhluta fylgja, svo sem frekast er kostur, næg vatnsréttindi til að fullnægja heimilis- og búsþörfum og næg og endurgjaldslaus landsafnot til hagnýtingar þeim.“

Ljóst sé skv. 3. mgr. að sé framseldur hluti landareignar er liggur að vatni þá fylgi vatnsréttindin kaupunum, nema öðruvísi sé um samið. Í tilviki landskipta skuli fylgja vatnsréttindi til heimilis og búþarfa hverjum eignarhluta. Í landskiptum á Sandlækjartorfu sé hvergi minnst á þessi vatnsréttindi og megi ætla að næg vatnsréttindi til búþarfa hafi fylgt hverjum útskiptum hluta í báðum landskiptum þannig að skilyrðum 4. mgr.  15. gr. hafi verið fullnægt. Ella hefði ekki liðið nær hálf öld án athugasemda um þetta frá landeigendum.

Engin efnisleg breyting hafi verið gerð með lögum nr. 132/2011 þannig að vatnalögin hafi gilt um þetta efni er landskiptin hafi verið gerð 1964.

Stefnendur geri því skóna að þegar Sandlækjartorfunni hafi verið skipt hafi ekki verið um kaup að ræða og því eigi ákvæði 2. mgr. 15. gr. (áður 16. gr.) vatnalaganna ekki við. Reyndar sé ekki talað um kaup heldur framsal í lögunum en það breyti litlu því í landskiptum felist framsal. Af þessu tilefni megi m.a. benda á ákvæði 3. mgr. 16. gr. landskiptalaganna sem mæli fyrir um það að sé ekki skipt að tiltölu réttri, en einhver eigenda hafi látið af hendi meira verðmæti í landeign eða réttindum innan sameignarinnar en hann fékk á móti, skuli líta á það sem afsal eða selt, og breytist þá skattskylda jarðanna eða jarðapartanna samkvæmt því. Hér sé landskiptum jafnað við kaup þegar komi til réttaráhrifa.

Samkvæmt 49. gr. vatnalaganna sbr. lög nr. 132/2011 sé eiganda landareignar, sem vatnsréttindi fylgja, svo og öðrum, sem heimildir hafi á þeim tekið, rétt að nota það vatn, sem um hana rennur, til að vinna úr því orku, enda sé enginn fyrir það sviptur því vatni, sem hann þarf að nota samkvæmt III. og IV. kafla, né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun, né vatni, er nota þarf með þeim hætti, spillt fyrir neinum, svo að til verulegra óþæginda horfi. Hér sé rétturinn skýr hjá eiganda útskipts lands en réttur annarra, svo sem nágranna vegna vatnsnýtingar vegna búþarfa, tryggður eða áréttaður. Enn sé verið að styrkja aðalregluna, að vatnsorkunýtingarrétturinn sé hjá landeigandanum, eiganda bakkajarðarinnar.

Stefnendur fari hins vegar rangsælis er þeir fjalli um 49. gr. í stefnu og telji það hafi staðið eiganda Sandlækjar nær að tryggja skýra þinglýsingu réttinda sinna að jörðinni, svo sem að hann væri eigandi vatnsréttindanna að jörðinni. Það sé einmitt sá sem vill skilja lögbundin réttindi frá jörð sem eigi að gæta þess við landskiptin að réttindin eigi ekki að fylgja útskiptum jarðarhluta. Ekki hafi verið þörf á þinglýsingu vegna þess að vatnsréttindin hafi við skiptin ekki verið skilin frá landinu sjálfu. Hið sama hafi gerst er Sandlæk hafi verið skipt 24. janúar 1964, vatnsréttindin hafi fylgt hverjum jarðarparti fyrir sig með þeim undantekningum sem hafi verið í vatnalögum.

Stefnendur haldi því fram að vatnsréttindin hafi aldrei verið löglega skilin frá jörðunum við landskiptin 20. janúar 1964 og hafi þáverandi eigandi Sandlækjarjarðarinnar talið sig vera að eignast verðmæt vatnsréttindi í Þjórsá hefði hann átt að gera reka að því að skrá þá eign sína í opinberum skrám. Ekki tíðkist að fasteignaeigendur láti þinglýsa inntaki eignaréttar síns að fasteign og allra síst ef um lögákveðin réttindi er að ræða.

Sandlækjarkot hafi fengið vatnsréttindi öll sem hafi verið á þeirri jörð við landskiptin 1964 þ. á m. orkunýtingarrétt við Stóru-Laxá og gera stefndu enga kröfu vegna þess réttar. Hins vegar séu veiðihlunnindi í bæði Stóru-Laxá og Þjórsá eign allra jarða í torfunni þar sem gert hafi verið ráð fyrir að þau hlunnindi héldust í óskiptri sameign eftir landskiptin.

Af 67. gr. vatnalaganna sé ljóst að bakkajörðin eigi rétt til þess að gera mannvirki í vatnsnýtingar, þ.m.t. orkunýtingar, í merkivatni og hafi lagaleg úrræði til að fá eiganda hins bakkans til samstarfs eða þá til að taka réttindi hans eignarnámi.

Í 3. gr. vatnalaganna sé hnykkt á eignarrétti bakkajarðar en þar segi í 1. mgr. að skilji á eða lækur landareignir, eigi hvort land í miðjan farveg. Athyglisvert sé að í 2. mgr. segi að ekki breytist merki þótt farvegur breytist. Af því megi draga þá ályktun að landeigandinn verði að þola ágang og standa undir kostnaði við flóðavarnir. Í ljósi þess sé varla hægt að líta á orkunýtingarrétt sem hlunnindi upphaflegu jarðarinnar sem þessari jörð hafi verið skipt út úr.

Samkvæmt 1. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 og 1. gr. jarðalaga nr. 81/2004 merki vatnsréttindi rétt til að nytja grunnvatn, vatnsfall eða stöðuvatn.

Í 3. gr. laga um landskipti nr. 46/1941 virðist allur vafi tekinn af um að vatnsréttindi séu ekki hlunnindi. Þar segi: „Við skiptin skal ekki aðeins farið eftir flatarmáli lands, heldur og gæðum þess og verðmæti á hverjum stað. Eigi má staðbundin skipti gera á námarétti, þar með talin mótak, veiði í vötnum eða sjó, selveiði, fuglaveiði með háf eða skotum, reka, vergögnum, lóðagjöldum, beitutekjum, þörungum föstum og lausum og fjörubeit, nema skiptin séu það hagkvæm, að á engan eiganda sé hallað, eða samþykki allra eigenda komi til.“ Þarna séu hlunnindin upptalin sem engin staðbundin skipti megi gera á en vatnsréttindi séu ekki með enda sé sérstaklega um þau fjallað sem hluta fasteignaréttinda annars staðar í lögunum. Svo komi í lok 3.mgr. 3. gr. mjög afgerandi lagaregla: „Um umráð og notkun vatns og fallvatna, svo og um girðingar, fer eftir almennum lögum“ Af þessu leiði að réttur bakkajarðar gildi „skv. almennum lögum“ og að orkunýtingarréttur fylgi bakkajörðinni í landskiptum nema annað sé sérstaklega tekið fram í landskiptagerð.

Þegar straumvatn rennur á bökkum eignarlands eigi bakkajörðin botninn út í miðjan farveg og öll þau verðmæti sem landið sjálft gefi af sér. Veiði í straumvatninu teljist aftur á móti til hlunninda og um hana gildi sérlög, lög um lax- og silungsveiði.  Fylgi landinu hagræði fyrir orkuframleiðendur svo sem halli á því þá geti landeigandinn leyft öðrum að nýta þann halla eða selt þau réttindi sem honum fylgi.  Þessi halli geti hins vegar verið óhagræði fyrir landeigandann sjálfan svo sem vegna skertra nýtingarmöguleika eða ágangs straumvatns. Stór hluti Breiðaness sé ofurseldur ágangi Þjórsár og ein kvísl hennar renni yfir landið og þar sé stíflað til þess að orkan í meginstraumnum nýtist. Það segi sig sjálft að slík flókin samsetning geri ómögulegt að skilgreina fallvatnsréttindin sem hlunnindi sem væru í sameign með öðrum jörðum.

Kröfugerð stefnenda sé verulega áfátt því krafist sé aðallega að viðurkennt verði með dómi að orkunýtingarréttur vatns fyrir landi jarðarinnar Breiðaness sé í óskiptri sameign stefnenda og stefndu. Ekki sé minnst á hver sé hlutdeild aðila í hinni óskiptu sameign þannig að ætla megi að stefnendur séu að krefjast jafnrar hlutdeildar allra, nokkuð sem geti alls ekki staðist og enginn fótur sé fyrir. Reyndar sé hvergi að finna í gögnum málsins hvernig skiptingin gæti hugsanlega verið skv. fornu jarðamati og 2. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 og eigi heldur að slík skipting eigi við þegar búið sé að skipta öllu landi. Stefnendur eigi í miklum örðugleikum með að rökstyðja viðurkenningarkröfu sína og verði ekki annað ráðið en óljós kröfugerð sé tilkomin vegna þeirrar staðreyndar að réttur sá sem stefnendur krefjist sé óljós að öllu leyti.

Stefndu kveða að hluta til sé lýsing stefnenda rétt hvað varði skilgreiningu á vatnsréttindum og tilvísanir í lagaákvæði, sem staðfesti að vatnsréttindi hafi verið flokkuð sem sérstök eignarréttindi að fasteignum, þ.e. hluti viðkomandi fasteignar og því sé nýting réttinda og ráðstöfun hluti viðkomandi fasteignaréttinda, nema réttindin hafi verið löglega skilin frá fasteigninni og fengin öðrum aðila í hendur. Þá staðfesti stefnendur að skv. 1. mgr. 16. gr. landskiptalaga sé landeigendum frjálst að skipta sjálfir landi sín á milli, sem aðilar málsins gerðu árið 1964.

Rangar séu hins vegar ályktanir stefnenda varðandi túlkun landskipta og laga tengd vatnsréttindum. Þversögn og rökleysa felist í því að vatnsréttindin séu hlunnindi sem sem ekki hafi verið hægt að skilja frá jörð og því hafi eigendur Sandlækjarkots að mati stefnenda enn átt hlutdeild í vatnsréttindum Sandlækjar eftir landskiptin 20. janúar 1964. 

Stefndu kveða stefnendur túlka landskiptagerðina frá 20. janúar 1964 þannig að ákvæðið í henni um að hlunnindi öll sem eru á jörðunum skuli vera óskipt sameign jarðanna sé ekkert óskýrt og við blasi að átt sé við hvers konar hlunnindi og réttindi sem voru á jörðunum.

Stefndu kveða að vatnsorkunýtingarrétturinn sé ekki hlunnindi eins og reyndar stefnendur sjálfir bendi á í upphafi málsástæðna stefnu heldur fasteignatengd réttindi. Hlunnindi séu landgæði af öðrum toga, oft réttur til nýtingar gæða á annarri fasteign eða á óskiptri sameign. Hlunnindi geti einnig falist í gæðum sem jörð gefur af sér, svo sem eggja- og dúntekju en vatnsréttindi og þá sérstaklega orkunýtingarréttur séu annars eðlis og nátengd fasteigninni og um þau gildi sérstök lagaákvæði.

Stefndu kveða stefnendur halda því fram að ef ætlunin hafi verið sú að breyta eðli eignaréttar þáverandi eigenda Sandlækjartorfunnar til vatnsréttindanna hefði þurft að orða það með ótvíræðum hætti. Þetta kveða stefndu vera rétt, nema að stefnendur haldi því fram að það hafi verið vilji samningsaðila að vatnsréttindi torfunnar hafi átt að vera í óskiptri sameign. Stefnendur hafi ekkert fyrir sér í þessu og túlkun stefnenda á landskiptunum að því er vatnsréttindi snertir, gangi þvert á texta landskiptagerðar og lög varðandi vatnsréttindi.

Stefndu kveða stefnendur halda því fram að hefði það verið ætlun þeirra einstaklinga sem undirrituðu landskiptagerðina frá 20. janúar 1964 að vatnsréttindi ættu að vera undanþegin landskiptunum þá hefði slíkt verið tekið sérstaklega fram.  Tvennt sé við þetta að athuga frá samningarréttarlegum sjónarhóli. Annars vegar gangi skilningur stefnenda gegn áður nefndum lagaákvæðum þannig að við skýringu á landskiptasamningi yrði fyrst og fremst horft til þeirra lagaákvæða sem gildi um réttindi á því sviði sem um ræðir. Hins vegar komi til reglur um sönnun og sönnunarbyrði. Almenna reglan sé sú, að sá, sem byggja vill byggja einhver nánar tiltekin réttindi á samningi, verði að sanna að samningurinn hafi verið með því efni sem hann heldur fram. Það sé langt frá að stefnendum sé að takast slík sönnun, frekar megi fullyrða hið gagnstæða. Stefnendur hafi ekkert fyrir sér í því að vatnsréttindum hafi verið haldið eftir til sameigenda, gagnstætt réttarreglu, og því verði að líta svo á að fullyrðing þeirra sé ósönnuð og sýkna verði af viðurkenningarkröfunni.

Stefndu hafna þeirri málsástæðu stefnenda að það sé tómlæti af hálfu stefndu eigenda Breiðaness að hafa ekki höfðað mál í kjölfar þess að þeim hafi verið ljós afstaða eigenda annarra jarða í Sandlækjartorfunni til eignarréttar á orkunýtingarrétti. Miklu fremur væri það tómlæti af hálfu stefnenda að hafa ekkert aðhafst til þess að fá viðurkenningu á meintum rétti sínum, rétti sem hafi gengið gegn skýrum lagafyrirmælum og rétti sem aldrei hafi verið samið um að stefnendur hefðu.

Stefndu vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 562/2008 og kveða að þar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að samkvæmt 1. mgr. 16. gr. vatnalaga nr. 15/1923 sé farið eftir reglum um landkaup ef vatnsréttindi væru látin af hendi án þess að eignarréttur að landi fylgdi. Af þessu ákvæði verði ráðið að löggjafinn hafi ekki litið svo á að slík réttindi væru sjálfstæð fasteign, en á hinn bóginn ákveðið með þessari sérstöku reglu að þau skyldu engu að síður lúta sömu reglum og fasteignir, í stað þess að fara eftir reglum, sem gilda um óbein eignarréttindi í fasteignum annarra. Einu gildi því að þessu leyti hvort vatnsréttindi séu látin af hendi þannig að bakki eða vatnsbotn fylgi með í kaupum eða án nokkurs lands, eins og hafi verið í því tilviki sem hafi verið til úrlausnar í málinu. Tilvísun 1. mgr. 16. gr. vatnalaga til reglna um landkaup takmarkist ekki við það eitt að fylgja beri formreglum um þinglýsingu við eignayfirfærslu fasteigna eins og áfrýjandi hélt fram, heldur feli hún jafnframt í sér að um vatnsréttindi skuli gilda reglur um fasteignir í öðru tilliti, eftir því sem við geti átt.  Með þessum dómi sé komin afgerandi niðurstaða varðandi vatnsréttindi og stöðu þeirra sem eignarréttinda. Sama afstaða hafi komið fram í dómi Hæstaréttar þann 19. nóv. 2009 í máli nr. 122/2009.

Sala á vatnsréttindum ýmissa jarða við Þjórsá til Títanfélagsins fyrir rúmri öld sé til marks um það að litið hafi verið á vatnsréttindin sem hluta fasteignaréttinda enda  samningum verið þinglýst á jarðirnar. Ekki sé þörf á að þinglýsa hlunnindum frekar en öðrum óbeinum eignarréttindum.

Í landskiptum 1964 hafi ekki verið gert ráð fyrir fallvatnsréttindum en þau hafi hins vegar verið þekkt réttindi sbr. Títansamningana. Því séu getgátur stefnenda um að vatnsréttindin falli undir hugtakið „hlunnindi sem kunni að finnast“ í landskiptasamningnum 20. janúar 1964 sérlega langsótt.

Stefndu kveða að stefnendur haldi því fram í stefnu að ákveðið hafi verið að vatnsréttindin hafi verið sameiginleg í landskiptagerðinni 20. janúar 1964 og slík réttindi falli ekki brott nema með samkomulagi landeigenda. Ekkert samkomulag hafi verið gert í þá veru og engin lög verið sett sem “nema á brott“ vatnsréttindi stefnenda. Stefndu beri því sönnunarbyrði fyrir því að þau sitji ein að eignarréttindum Sandlækjartorfunnar. Með þessum málatilbúnaði sé öllu snúið við eins og áður, lagaákvæði um eignarréttinn hafi verið fyrir hendi er landskipti voru gerð og því sé sönnunarbyrðin hjá stefnendum.

Stefndu kveða að varakrafa stefnanda virðist á því byggð að stefnendur haldi sínum rétti til orkunýtingar í Þjórsá á grundvelli landskiptagerðarinnar frá 20. janúar 1964 en að stefndu eigendur Breiðaness hafi fengið að öllu leyti orkunýtingarrétt Sandlækjarjarðanna í landskiptunum 24. janúar 1964. Telja stefndu að hér horfi stefnendur til mismunandi orðalags í landskiptagerðunum. Í þeirri fyrri sé tekið fram að öll hlunnindi séu í óskiptri sameign jarðanna en í þeirri seinni sé ekkert minnst á hlunnindi. Afar ólíklegt sé að þetta skipti nokkru máli í ljósi lagaákvæða sem um vatnsréttindi og hlunnindi gildi en komist hins vegar dómurinn að þeirri niðurstöðu að samningsákvæðið um hlunnindi taki til orkunýtingarréttar þá leiði skortur á slíku ákvæði í hinum síðari landskiptasamningi til þess að Breiðanes hafi fengið allan rétt Sandlækjarjarðanna, þá væntanlega að hálfu á móti eigendum Sandlækjarkotsjarða. Stefndu krefjast einnig sýknu af varakröfum, með tilvísun til fyrri málsástæðna varðandi aðalkröfu.

Um lagarök kveðast stefndu vísa til þeirra lagaákvæða sem að framan er getið, en það séu ýmis ákvæði vatnalaga nr. 15/1923, landskiptalaga nr. 46/1941, ábúðarlaga nr. 80/2004, og jarðalaga nr. 81/2004. Stefndu vísa einnig til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, svo sem landskiptagerða. Einnig vísa þeir til óskráðra reglna samningaréttar um skýringar á samningum og um sönnunarbyrði.

Málsástæður og lagarök stefndu Erlings Loftssonar, Elínar Erlingsdóttur, Valgerðar Erlingsdóttur og Lofts Erlingssonar

Þessir stefndu, hér eftir í þessum kafla stefndu nema annars sé getið, krefjast sýknu af varakröfu stefnenda. Stefndu taka undir með stefnendum um að orkunýtingarréttur í Þjórsá fyrir landi Sandlækjartorfu sé sameiginlega á hendi eigenda Sandlækjar 1 og 2, Sandlækjarkots og Breiðaness. Stefndu taka undir allar málsástæður sem stefnendur færa fram fyrir aðalkröfu sinni og gera að sínum. Stefndu mótmæla hins vegar varakröfu stefnenda og kveða stefndu að fyrir þessu séu engin rök færð.

Stefndu vísa til þess að þau séu eigendur 33,3% eignarhluta af orkunýtingarrétti Sandlækjartorfu í Þjórsá. Taka stefndu fram að gæta verði að því þegar þeir taki undir aðalkröfu stefnenda, að stefndu byggi ekki á því að eignarhlutar aðila að orkunýtingarréttinum séu jafn stórir. Stefndu benda á að með landskiptagerð frá 20. janúar 1964 hafi landi Sandlækjartorfunnar verið skipt í tvo jafna hluta miðað við landgæði. Með landskiptunum 24. janúar 1964 hafi landi Sandlækjar svo verið skipt í þrjá hluta miðað við landgæði, þ.e. Sandlæk 1, Sandlæk 2 og Breiðanes. Stefndu séu eigendur að landi Sandlækjar 1 og 2. Af þessu leiði það að eigendur Sandlækjarkots eigi tilkall til 50% af orkunýtingarrétti torfunnar í Þjórsá. Sandlækur, þ.e. stefndu, eigi tilkall til 33,3% og Breiðanes 16,6%.

Stefndu benda á að heildarlandamerki Sandlækjartorfunnar ráðist af landamerkjabréfi frá 3. júní 1885, en samkvæmt því bréfi eigi öll torfan land að Þjórsá. Þá kveða stefndu að ráðstöfun lands milli sameigenda torfunnar breyti ekki því að orkunýtingarréttur fylgi sameiginlega eigendum jarða í torfunni.

Stefndu kveða að lengi hafi jarðeigendum verið ljós verðmæti fallréttinda í Þjórsá.  Fossafélagið Títan hafi keypt upp mikinn hluta fallréttindanna á árunum 1914-1918 og þau réttindi sem Títan hafi fengið framselt hafi verið tilgreind sem hlunnindi í opinberri skráningu. Í landskiptagerðunum frá 1964 komi hvergi fram að verið sé að skipta þeim fallréttindum í Þjórsá sem fylgi því landi sem sé afmarkað í sameiginlegu landamerkjabréfi Sandlækjar og Sandlækjarkots frá árinu 1885. Túlka beri ákvæði landamerkjabréfanna þröngt, nánar tiltekið þannig að einungis sé verið að skipta landi en ekki öðrum réttindum sem fylgi heildarlandinu. Raunar komi þetta skýrt fram í landskiptagerðinni frá 20. janúar 1964 en þar sé beinlínis sagt að öll hlunnindi sem séu á jörðunum og þau sem kunni að finnast þar séu óskipta sameign jarðanna. Hafi átt að víkja frá þessari meginreglu við landskiptin 24. janúar 1964 þá hefði þurft að taka það fram skýrlega. Það hafi hins vegar ekki verið gert og hljóti því að vera augljóst að aldrei hafi staðið til að skipta þeim hlunnindum sem felist í orkunýtingarréttindum vatns fyrir landi Sandlækjartorfunnar.

Þá fullyrða stefndu að vilji þeirra sem komu að landskiptagerðunum á árinu 1963 hafi aldrei staðið til þess að eitt tiltekið býli innan torfunnar skyldi fá í sinn hlut öll fallréttindi í Þjórsá. Verði að túlka landskiptagerðirnar í samræmi við líklegan vilja þeirra sem hafi komið að gerð landskiptagerðanna. Hefði það verið ætlunin að öll fallréttindin kæmu í hlut eins býlis þá hefði viðkomandi býli vitaskuld fengið minna land í sinn hlut við skiptin. Hvergi sjáist þess þó merki þegar stærð hins útskipta lands sé skoðað. Þetta bendi ótvírætt til þess að fallréttindunum hafi verið haldið utan við skipti.

Þá byggja stefndu á þeirri meginreglu að við landskipti skuli ekki skipta hlunnindum, sbr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941. Þá segi í 3. mgr. 15. gr. vatnalaga að ef sameignarlandi sé eignarskiptum eða afnota þá skuli hverri eign fylgja svo auðnotuð vatnsréttindi sem unnt er og nægt land eða næg og kauplaus landsafnot til hagnýtingar vatnsréttindum hennar skv. 15. gr.

Þá vísa stefndu loks til þess að jarðir í Sandlækjartorfunni eigi aðild að Veiðifélagi Árnesinga og Veiðifélagi Þjórsár óháð því hvar land þeirra liggur innan Sandlækjartorfunnar. Hafi eigendur Sandlækjar, Sandlækjarkots og Breiðaness allir móttekið arð í gegnum tíðina vegna Stóru-Laxár þrátt fyrir að einungis Sandlækjarkot liggi að ánni. Mestu skipti þó að í samþykktum Veiðifélags Þjórsár frá 13. nóvember 1972 séu jarðirnar Sandlækur 1 og 2 sérstaklega tilgreindar meðal jarða sem eigi aðild að veiðifélaginu. Sé þetta ótvírætt til marks um að litið hafi verið svo á að jarðir í Sandlækjartorfu eigi sameiginlega öll réttindi í Þjórsá.     

            Forsendur og niðurstaða

            Í máli þessu deila aðilar um orkunýtingarrétt í Þjórsá þar sem hún liggur að landi Breiðaness, sem er hluti af svokallaðri Sandlækjartorfu. Er deiluefnið það hvort orkunýtingarrétturinn sé sameign allra aðila málsins, þ.e. þeirra sem eiga hlutdeild í hlunnindum og óskiptum gæðum Sandlækjartorfunnar, eða hvort orkunýtingarrétturinn sé einungis eign eigenda Breiðaness.

            Óumdeilt er að í upphafi var orkunýtingarrétturinn sameign allra landeigenda Sandlækjartorfunnar. Var svo a.m.k. allt til 20. janúar 1964, þegar landskipti voru gerð milli Sandlækjar og Sandlækjarkots, en við þau landskipti eignaðist Sandlækur allt það land Sandlækjartorfunnar sem liggur að Þjórsá, en síðar varð árbakkinn hluti af landi Breiðaness eins og áður er rakið. Að mati dómsins veltur niðurstaða málsins á því hvernig landskiptin frá 20. janúar 1964 verði skýrð, en ekki er fyrir að fara öðrum löggerningum milli annars vegar eigenda þess hluta torfunnar sem tilheyrir Sandlækjarkoti og hins vegar eigenda þess hluta sem tilheyrir Sandlæk.

            Að mati dómsins verður að fallast á það með stefnendum að samningsfrelsi sé meginregla sem verði að vera grundvallarforsenda við úrlausn málsins.

            Í landskiptagjörðinni frá 20. janúar 1964 er tekið fram hverju er skipt. Er því nákvæmlega lýst hvernig landinu er skipt. Hins vegar verður ekki séð af landskiptagjörðinni að ætlunin hafi verið að skipta öðru en landinu sjálfu. Þannig er sérstaklega tekið fram að Neseyja í Stóru-Laxá skuli vera óskipt og eign beggja jarða að jöfnu. Þá er einnig tekið fram að „[h]lunnindi öll sem eru á jörðunum og þau sem kunna að finnast eru óskipt sameign jarðanna.“ Verður hér jafnframt að líta til þess að samkvæmt því sem fram er komið hefur veiðiréttur í Stóru-Laxá verið talinn til óskiptra gæða torfunnar, sem þykir renna stoðum undir það að ekki hafi verið ætlunin að skipta öðru en því sem sérstaklega er tekið fram að sé skipt.

            Í 3. gr. landskiptalaga nr. 41/1946 segir að við skipti lands skuli ekki aðeins farið eftir flatarmáli lands, heldur og gæðum þess og verðmæti á hverjum stað. Eins og að framan er rakið verður að telja að á þeim tíma sem umrædd landskipti voru gerð hafi það verið alkunna að vatnsréttindi og þ.m.t. orkunýtingarréttur geti verið afar verðmæt réttindi. Stefnendur byggja á því að þess sjái ekki stað í landskiptagjörðinni að minna og eða verðminna land hafi komið í hlut Sandlækjar en Sandlækjarkots, til að vega upp á móti því verðmæti sem felist í orkunýtingarréttinum, en við því hefði mátt búast ef ætlunin við landskiptin hefði verið sú að orkunýtingarrétturinn ætti allur að falla í hlut Sandlækjar. Hafa stefndu hvorki sýnt fram á, né gert sennilegt, að í hlut Sandlækjar hafi komið verðminna land sem samvari verðmæti orkunýtingarréttarins. Þykir þetta veita veigamikla vísbendingu um að ætlunin við landskiptin hafi verið sú að orkunýtingarrétturinn væri í sameign jarðanna áfram, en ella hefði hallað verulega á eigendur Sandlækjarkots, en ekki hefur verið sýnt fram á eða gert líklegt að það hafi vakað fyrir mönnum á þeim tíma.

            Af hálfu stefndu hefur verið vísað til 2. gr. vatnalaga nr. 15/1923 um að landareign hverri skuli fylgja réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni sem á henni er, eins og nánar er lýst í ákvæðinu. Að mati dómsins getur þetta ákvæði ekki girt fyrir það að aðilar landskiptagjörðarinnar hafi getað samið um það að orkunýtingarrétturinn skyldi vera sameign jarðanna, en fyrir liggur að vatnsréttindindin tilheyrðu hinni óskiptu torfu fyrir skiptin og verður ekki talið að þeim hafi vegna þessa ákvæðis verið óheimilt að semja á þann veg að orkunýtingarrétturinn skyldi áfram vera sameign þó ekki ættu allir lengur land að árbakkanum.

            Þá hafa stefndu vísað til 2. mgr. 16. gr. vatnalaga nr. 15/1923 um að nú láti maður af hendi hluta landareignar, er liggur að vatni eða á, og sé þá vatnsbotn og vatnsréttindi falin í kaupinu, nema öðruvísi semji. Það er mat dómsins að regla þessi eigi ekki við um landskiptagjörð þá sem um er deilt í málinu, en jafnvel þó svo væri þá er ljóst af orðalagi ákvæðisins að heimilt er að semja á þann veg að vatnsbotn og vatnsréttindi séu ekki falin í kaupinu. Verður þessi tilvísun því ekki til þess að sýkna stefndu í málinu. Þá verður heldur ekki fallist á að tilvísun til 3. mgr. 16. gr. vatnalaga, sbr. nýtingarrétt sem lýst er í 15. gr. laganna, verði til þess að sýkna stefndu, en þar er um að ræða annars konar réttindi en orkunýtingarrétt þann sem um er deilt í málinu.

            Stefndu hafa vísað til þess að orkunýtingarréttur sá sem um er deilt í málinu sé ekki hlunnindi heldur sé hann fasteignatengd réttindi sem ekki geti fylgt annarri jörð en Breiðanesi, enda liggi ekki aðrar jarðir stefndu að ánni. Í hinni umþrættu landskiptagjörð er talað um að öll hlunnindi skuli vera óskipt. Það er álit dómsins að skýra verði umrædda landskiptagjörð þannig að með orðinu hlunnindi hafi verið átt við öll verðmæti og réttindi sem ekki er sérstaklega fjallað um og lýst skiptum á í skjalinu sjálfu. Bæði kemur hér til að ekki verður annað séð en að skjalið hafi verið samið af ólöglærðum manni og það að ekki verður séð að gerður sé greinarmunur á neinum verðmætum og réttindum sem á torfunni eru, umfram landið sjálft. Þá verður að líta til þess að ekki er það óþekkt að vatnsréttindi hafi í lögum og lagaframkvæmd verið talin til hlunninda, sbr. það að í 3. gr. jarðalaga nr. 65/1976 verður ekki betur sé en að vatnsréttindi séu þar talin til hlunninda, auk þess að í 10. mgr. 2. gr. jarðalaga nr. 81/2004 segir að hlunnindi séu hvers konar auðlindir, en jafnframt þykir mega líta til þess sem upplýst er í málinu að við opinbera skráningu fasteigna eru vatnsréttindi talin sem hlunnindi. Þykir orðið hlunnindi í umræddri landskiptagjörð þannig ekki geta útilokað það að hinn umþrætti orkunýtingarréttur geti hafa átt að vera áfram óskipt sameign jarðanna, en ekki þykir fært að fullyrða að möguleg hlunnindi séu tæmandi talin í 3. gr. landskiptalaga nr. 41/1946.

            Stefndu hafa vísað til tómlætis stefnenda, en á það verður ekki fallist þar sem ekki verður séð að þeir hafi haft tilefni til málssóknar fyrr en eftir að stefndu gerðu það samkomulag við Landsvirkjun sem staðfest var með yfirlýsingum þeirra frá 20. janúar 2012.

            Stefndu hafa gagnrýnt kröfugerð stefnenda á þeim forsendum að ekki sé í henni tekið tillit til þess að verði fallist á kröfur þeirra verði að líta til þess að í upphafi hljóti orkunýtingarrétturinn að hafa skipst að jöfnu milli Sandlækjar og Sandlækjarkots. Telja stefndu möguleg efni til frávísunar málsins af þessum sökum, án kröfu. Það er mat dómsins að ekki leiði þetta til frávísunar, en alþekkt er að óskipta sameign geti menn átt í ýmsum hlutföllum og er því ekki slegið föstu með kröfugerð stefnenda að eignarhluti allra aðila málsins hljóti að vera jafn.

            Aðrar málsástæður sem stefndu hafa fært fram, þ.m.t. vísanir til dóma Hæstaréttar, geta ekki dugað þeim til sýknu í málinu.

            Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfur stefnenda í málinu.

            Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

            Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm.

DÓMSORÐ:

Viðurkennt er að orkunýtingarréttur vatns fyrir landi jarðarinnar Breiðaness, landnúmerið 166542, sé í óskiptri sameign stefnenda, Strá ehf., Arnars Bjarna Eiríkssonar, Berglindar Bjarnadóttur og Sigrúnar Margrétar Einarsdóttur og stefndu, Gunnhildar Loftsdóttur, Hrafnhildar Loftsdóttur, Helgu Guðrúnar Loftsdóttur, Sesselju Loftsdóttur, Lofts Sigurðar Loftssonar, Erlings Loftssonar, Elínar Erlingsdóttur, Valgerðar Erlingsdóttur og Lofts Erlingssonar.

Málskostnaður fellur niður.