Dómur um veðrétt fyrir aukakröfum samkvæmt b. lið 5. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem reyndi á túlkun og beitingu b. liðar 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Um var að ræða fjárkröfu banka á hendur einkahlutafélagi, sem bankinn naut veðréttinda fyrir í tiltekinni fasteign á grundvelli tryggingarbréfa. Fasteignin hafði verið seld nauðungarsölu og deildu aðilar meðal annars um hvort kröfur bankans um vexti og dráttarvexti nytu veðtryggingar með höfuðstól kröfunnar. Með vísan til 4. og 5. gr. laga nr. 75/1997 og lögskýringargagna, taldi Hæstiréttur að skýra yrði tryggingarbréfin svo að hámarksfjárhæð þeirra hefði lotið að höfuðstól þeirra skulda sem veðréttindi ættu að ná til, svo og til samningsbundinna vaxta, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar samkvæmt b. lið 5. gr. laga nr. 75/1997. Þar sem vextirnir hefðu fallið í gjalddaga utan tímamarka lagagreinarinnar, meira en ári áður en krafa um nauðungarsölu fasteignarinnar var sett fram, var ekki fallist á að þeir nytu veðtryggingar með höfuðstólnum. Aftur á móti var fallist á að veðtryggingin næði til dráttarvaxta af höfuðstólnum að því leyti sem þeir hefðu fallið til á tilteknu tímabili. Var fjárhæðin sem bankinn hafði fengið úthlutað við nauðungarsöluna lækkuð þessu til samræmis og jafnframt kveðið á um varðveislu hennar á reikningi þar til komin væri niðurstaða í öðru dómsmáli sem rekið var milli aðilanna.   

Dóminn í heild sinni má lesa hér.