REGLUR
Hæstaréttar um kærumálsgögn í einkamálum, nr. 140/2018

1. gr.

    Þegar sóknaraðili sendir gögn kærumáls (kærumálsgögn) til Hæstaréttar samkvæmt 2. mgr. 171. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skulu gögnin vera í þeim búningi sem mælt er fyrir um í reglum þessum.
    Kærumálsgögn skulu vera í sex eintökum.

2. gr.

    Sóknaraðili ber ábyrgð á að kærumálsgögn séu í þeim búningi sem mælt er fyrir um í reglum þessum. Hann skal, sé þess kostur, hafa samráð við varnaraðila um hvaða skjöl málsins skuli vera meðal kærumálsgagna.
    Þegar málsaðilar senda Hæstarétti gögn samkvæmt reglum þessum skulu þau samtímis send gagnaðila.

3. gr.

    Sóknaraðili skal gæta þess að meðal kærumálsgagna séu einungis þau skjöl sem sérstaklega er þörf á til úrlausnar þeim ágreiningi sem kærumálið varðar.

 4. gr.

    Fremst í kærumálsgögnum skal vera efnisyfirlit. Þar skal eftirfarandi koma fram, í þeirri röð sem að neðan greinir og skal vísað til blaðsíðutals í málsgögnum:
    
1. Listi um kærumálsgögn samkvæmt 5. gr.
    2. Listi um öll framlögð skjöl málsins í héraði.
    3. Listi um öll framlögð skjöl málsins í Landsrétti.
    4. Yfirlit um þinghöld í málinu í héraði.
    5. Yfirlit um þinghöld í málinu í Landsrétti.
    6. Stutt hlutlæg greining á ágreiningsefnum kærumálsins og efni dómsmálsins.

5. gr.

    Kærumálsgögn skulu vera sem hér greinir:
    1. Hinn kærði úrskurður.
    2. Endurrit þinghalda málsins í Landsrétti og eftir atvikum í héraði. 
    3. Kæra og greinargerð sóknaraðila.
    4. Stefna til héraðsdóms eða annað sóknarskjal ef við á og greinargerð stefnda í héraði.
    5. Áfrýjunarstefna og greinargerðir aðila fyrir Landsrétti.
    6. Önnur skjöl, sem nauðsynleg eru til þess að leyst verði úr þeim ágreiningi sem til úrlausnar er í kærumálinu.
    7. Ný skjöl, sem nauðsynleg teljast vegna kærumálsins.
    8. Skjöl, sem getið er í 6. gr. þessara reglna.
Skjöl í töluliðum 6 og 7 skulu vera í tímaröð, nema ljóst sé að önnur röð sé heppilegri.

6. gr.

    Sóknaraðili getur látið fylgja gögn sem staðfesta greiðslu útlagðs kostnaðar við kærumálið og yfirlit um tíma, sem unnið hefur verið við þann þátt málsins sérstaklega.

7. gr.

    Kærumálsgögn skulu vera í einu bindi, eða fleirum ef þarf.
    Á kápu skulu koma fram nöfn málsaðila fyrir Hæstarétti og skal sóknaraðili tilgreindur fyrstur.
    Kærumálsgögn skulu vera með síðutali. Þau skulu vera skýr og vel læsileg og án yfirstrikana eða merkja um þær.

8. gr.

    Ef varnaraðili skilar greinargerð af sinni hálfu, sbr. 172. gr. laga nr. 91/1991, og telur þörf á fleiri gögnum til að leysa megi úr ágreiningnum í kærumálinu, en er að finna í kærumálsgögnum, getur hann látið þau fylgja greinargerð sinni. Skal hann láta fylgja skrá um þau gögn, sem hann leggur fram og skulu þau vera í tímaröð nema önnur röð sé heppilegri. Ef umfang þeirra skjala sem varnaraðili leggur fram er verulegt skulu þau vera í hefti og með síðutali og að öðru leyti í þeim búningi sem mælt er fyrir um í reglum þessum. Þá getur varnaraðili einnig látið fylgja gögn sem getið er í 6. gr.

9. gr.

    Ef gerð kærumálsgagna er í verulegu ósamræmi við fyrirmæli þessara reglna, án þess að 2. mgr. 173. gr. laga nr. 91/1991 eigi við, getur Hæstiréttur mælt fyrir um að bætt skuli úr innan tilgreinds frests. Sé fyrirmælum um úrbætur ekki sinnt getur rétturinn frestað máli þar til úr hefur verið bætt.
    Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 4. mgr. 171. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 29. gr. laga nr. 49/2016, og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 677/2015 um kærumálsgögn í einkamálum.


Hæstarétti Íslands, 25. janúar 2018



Þorgeir Örlygsson


                                                                                                                                Þorsteinn A. Jónsson