Umsókn um kæruleyfi - leiðbeiningar

 

Lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála

 Heimildir til kæru til Hæstaréttar, kæruleyfi, tímafrestir og 

 skilyrði fyrir veitingu kæruleyfis 

Samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 sæta úrskurðir Landsréttar um eftirfarandi kæru til Hæstaréttar:
    a. frávísun frá héraðsdómi eða Landsrétti eða niðurfellingu máls að hluta eða öllu leyti fyrir héraðsdómi eða Landsrétti, 
    b. hvort dómari Landsréttar víki sæti í máli, 
    c. málskostnaðartryggingu fyrir Landsrétti, 
    d. réttarfarssekt fyrir Landsrétti, 
    e. skyldu vitnis samkvæmt 53. gr. laganna til að svara spurningu.

Um er að ræða tæmandi talningu á þeim tilvikum sem unnt er að skjóta úrskurðum í einkamálum til Hæstaréttar án sérstaks kæruleyfis.
    Í 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið á um að unnt sé að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar í einkamálum þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Við mat á því hvort Hæstiréttur samþykki að taka kæruefnið til meðferðar skal rétturinn líta til eftirfarandi skilyrða:
    - hvort kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni,
    - hvort kæruefnið hafi fordæmisgildi,
    - hvort kæruefnið hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins.
Þá getur Hæstiréttur tekið kæruefni til meðferðar ef ástæða er til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni.
    Telji Hæstiréttur kæru tilefnislausa eða augljóslega setta fram í þeim tilgangi að tefja framgang máls getur rétturinn, á hvaða stigi máls sem er, synjað að taka kæruefni samkvæmt 1. og 2. mgr. 167. gr. laganna til meðferðar, sbr. 3. mgr. 167. gr. 
    Samkvæmt 1. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991 skal sá sem vill leita leyfis Hæstaréttar til að kæra dómsathöfn Landsréttar afhenda Landsrétti skriflega umsókn um kæruleyfi ásamt kæru, áður en tvær vikur eru liðnar frá uppkvaðningu dómsathafnar ef hann eða umboðsmaður hans var þá staddur á dómþingi, en ella áður en tvær vikur eru liðnar frá því hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um dómsathöfn. 
    Umsókn um kæruleyfi frestar frekari framkvæmdum á grundvelli dómsathafnar þar til leyst er úr máli fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991. Þó ber að gæta að því að ákvæði sérlaga geta staðið til þess að frekari framkvæmdir á grundvelli dómsathafnar frestast ekki.
    Landsréttur sendir ósk um kæruleyfi ásamt kæru til Hæstaréttar og gagnaðila svo fljótt sem verða má nema rétturinn kjósi sjálfur að fella dómsathöfnina úr gildi, sbr. 1. mgr. 171. gr. laga nr. 91/1991.
    Sá sem sækir um kæruleyfi skal innan viku frá því að Landsréttur sendi Hæstarétti umsókn um kæruleyfi ásamt kæru, senda Hæstarétti þau gögn málsins sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið í sex eintökum. Hann skal þá einnig afhenda Hæstarétti skriflega greinargerð sem geymi m.a. rökstuðning hans fyrir því að fallast eigi á beiðni hans um kæruleyfi, sbr. 2. mgr. 171. gr. laga nr. 91/1991. Séu kærumálsgögn ekki afhent Hæstarétti innan framangreinds frests verður ekki frekar af máli, sbr. 3. mgr. 171. gr. laga nr. 91/1991.

 Umsókn um kæruleyfi og rökstuðningur

    Samkvæmt 1. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991 skal sá sem vill leita leyfis Hæstaréttar til að kæra dómsathöfn Landsréttar afhenda Landsrétti skriflega umsókn um kæruleyfi ásamt kæru innan tilgreindra tímamarka. Í umsókn um kæruleyfi skal skýrlega koma fram ósk um að slíkt leyfi verði veitt til kæru á úrskurði Landsréttar í tilteknu máli. Þar sem 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 mælir fyrir um að unnt sé að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar í einkamálum þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum er jafnframt æskilegt að það heimildarákvæði sem umsækjandi byggir á sé tilgreint í umsókninni. Þá skal greina í kæru rökstuðning fyrir því að kæra skuli tekin til meðferðar, sbr. b. lið 1. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991.
    Um leið og umsækjandi afhendir Hæstarétti kærumálsgögn, þ. á m. þann úrskurð sem óskað er kæru á, skal hann afhenda Hæstarétti skriflega greinargerð sem geymi kröfur hans og málsástæður sem hann byggir á, svo og rökstuðning fyrir því að fallast eigi á beiðni hans um kæruleyfi, sbr. 2. mgr. 171. gr. laga nr. 91/1991. Þá skal umsækjandi afhenda gagnaðila eða gagnaðilum eitt eintak kærumálsgagna og greinargerðar, sbr. 2. mgr. 171. gr. laga nr. 91/1991.
    Æskilegt er að í greinargerð sé forðast eftir fremsta megni að blanda saman umfjöllun annars vegar um þær röksemdir sem umsækjandi telur að leiða eigi til þess að fallist verði á beiðni hans um kæruleyfi og hins vegar um kæruefnið sjálft nema slíkt sé óhjákvæmilegt. Þannig er æskilegt að fyrst sé vikið að fyrrnefnda álitaefninu og svo að því síðarnefnda. Að því er varðar röksemdir fyrir því að fallast beri á beiðni um kæruleyfi skal umsækjandi forðast málalengingar og beina röksemdum sínum að því einu sem varðar skilyrðin fyrir veitingu kæruleyfis. Sé byggt á því að fleiri en eitt skilyrði 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 sé fyrir hendi þannig að fallast beri á beiðnina er rétt að gera grein fyrir hverju skilyrði fyrir sig. Vísa skal til helstu réttarreglna eftir því sem við á. 

 Afstaða gagnaðila

    Þegar umsækjandi um kæruleyfi hefur afhent Hæstarétti málsgögn og greinargerð á gagnaðili þess kost að afhenda Hæstarétti innan viku skriflega greinargerð í 6 eintökum sem geymi afstöðu hans til kæruefnis, kröfur og málsástæður sem byggt er á og eftir atvikum afstöðu hans til þess hvort verða eigi við beiðni um kæruleyfi, sbr. 172. gr. laga nr. 91/1991. Telji gagnaðili skorta á að kærandi hafi afhent Hæstarétti þau gögn máls sem hann telur þörf á til að leysa úr kæruefninu getur hann látið slík gögn fylgja greinargerð sinni. Samtímis skal hann afhenda kæranda eitt eintak kærumálsgagna og greinargerðar. 
    Líkt og varðandi umsóknina sjálfa er æskilegt að forðast sé eftir fremsta megni að blanda saman umfjöllun annars vegar um röksemdir gagnaðila varðandi beiðni um kæruleyfi og hins vegar um kæruefnið sjálft nema slíkt sé óhjákvæmilegt. Þannig er æskilegt að fyrst sé vikið að fyrrnefnda álitaefninu og svo að því síðarnefnda. Æskilegt er að í greinargerð gagnaðila komi fram skýr afstaða til beiðninnar um kæruleyfi, þ.e. hvort fallast eigi á hana eða ekki. Í báðum tilvikum skal gagnaðili rökstyðja afstöðu sína og vísa til helstu réttarheimilda. Í því sambandi skal forðast málalengingar og röksemdum beint að því einu sem varðar skilyrðin fyrir veitingu kæruleyfis eftir því sem röksemdir umsækjanda í umsókn og eftir atvikum í greinargerð gefa tilefni til. Hafi umsækjandi talið að fleiri en einu skilyrði til veitingar kæruleyfis sé fullnægt í málinu er æskilegt að gagnaðili fjalli um hvert og eitt þeirra skilyrða fyrir sig. 

 Lyktir máls

    Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla taka þrír hæstaréttardómarar ákvörðun um hvort kæra verði tekin til meðferðar. Ákvörðunin er færð í gerðarbók og eftir atvikum færðar röksemdir fyrir henni. 
    
Þegar vika er liðin frá því að kærumálsgögn og eftir atvikum greinargerð gagnaðila hafa borist Hæstarétti getur rétturinn ákveðið hvort kæra verði tekin til meðferðar og eftir atvikum lagt dóm á kæruefnið, sbr. 1. mgr. 173. gr. laga nr. 91/1991. Í þessu felst að fallist Hæstiréttur á beiðni um kæruleyfi þarf hann ekki að afgreiða beiðnina sérstaklega heldur getur rétturinn kveðið upp dóm í málinu á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja.
    Telji Hæstiréttur á hinn bóginn að ekki séu skilyrði til að fallast á beiðni um kæruleyfi tilkynnir Hæstiréttur aðilum, héraðsdómara og Landsrétti um það skriflega, sbr. 3. mgr. 174. gr. laga nr. 91/1991. Fylgir endurrit ákvörðunarinnar með tilkynningunni.

 

 

 

Lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála

 Heimildir til kæru til Hæstaréttar og kæruleyfi

    Samkvæmt  1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 sæta úrskurðir Landsréttar um eftirfarandi kæru til Hæstaréttar:
    a. frávísun frá héraðsdómi eða Landsrétti eða niðurfellingu máls að hluta eða öllu leyti fyrir héraðsdómi eða Landsrétti, 
    b. hvort dómari Landsréttar víki sæti í máli, 
    c. réttarfarssekt fyrir Landsrétti, 
    d. skyldu vitnis skv. 119. gr. til að svara spurningu. 

Um er að ræða tæmandi talningu á þeim tilvikum sem unnt er að skjóta úrskurðum í sakamálum. til Hæstaréttar. 
    Í 2. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 segir að Hæstiréttur geti þó á hvaða stigi máls sem er synjað um að taka kæruefni til meðferðar ef rétturinn telur kæru tilefnislausa eða augljóslega setta fram í þeim tilgangi að tefja framgang máls.
    Samkvæmt 4. mgr. 212. gr. laga nr. 88/2008 frestar kæra frekari framkvæmdum á grundvelli dómsathafnar þar til leyst er úr máli fyrir Hæstarétti. 
    Samkvæmt framangreindu er almenna reglan því sú að ekki er unnt að leita eftir leyfi Hæstaréttar til kæru á úrskurðum Landsréttar í sakamálum. Frá þeirri meginreglu gildir þó sú undantekning að hafi sá sem vill kæra úrskurð Landsréttar á grundvelli 1. mgr. 211. gr. ekki gert það innan þess þriggja sólarhringa frests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 212. gr. laganna getur hann óskað eftir leyfi Hæstaréttar til þess, en hann skal afhenda Landsrétti skriflega kæru áður en það verður gert, sbr. 3. mgr. 212. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu fer um leyfisbeiðnina samkvæmt 200. gr. laganna. 


Umsókn um kæruleyfi og rökstuðningur

    Vilji ákærði sækja um kæruleyfi skal hann senda ríkissaksóknara skriflega umsókn þess efnis, sbr. 1. mgr. 200. gr., sbr. 3. mgr. 212. gr. laga nr. 88/2008, en kæruna skal hann hafa afhent Landsrétti áður en það er gert, sbr. 3. mgr. 212. gr. laganna. Sæki ríkissaksóknari um kæruleyfi skal hann afhenda Hæstarétti skriflega umsókn þess efnis, sbr. 2. mgr. 200. gr., sbr. 3. mgr. 212. gr. laga nr. 88/2008. Nauðsynlegt er að umsókninni fylgi endurrit þess úrskurðar sem óskað er kæru á. Þar sem heimild 3. mgr. 212. gr. laga nr. 88/2008 er undantekning frá meginreglunni um að úrskurðir Landsréttar er varða þau atriði sem tilgreind eru í 1. mgr. 211. gr. laganna sæti kæru til Hæstaréttar án sérstaks leyfis er æskilegt að umsækjandi færi rök fyrir því hvers vegna hann kærði ekki innan þess tímafrests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 212. gr. laganna. Þá er jafnframt æskilegt að hann færi önnur rök fyrir því af hverju hann telur að Hæstiréttur eigi að fallast á beiðni hans, en forðast skal málalengingar eftir fremsta megni. 

Afstaða gagnaðila

    Hæstiréttur gefur öðrum málsaðilum kost á að tjá sig um beiðni um kæruleyfi, sbr. 3. mgr. 200. gr., sbr. 3. mgr. 212. gr. laga nr. 88/2008. Þar sem um kærumál í sakamáli er að ræða og mikilvægt að gætt sé að málshraða er frestur gagnaðila til að skila umsögn að jafnaði stuttur.
    Æskilegt er að í greinargerð gagnaðila komi fram skýr afstaða til beiðninnar, þ.e. hvort fallast eigi á hana eða ekki. Í báðum tilvikum skal gagnaðili rökstyðja afstöðu sína, en forðast skal málalengingar eftir fremsta megni. 


Lyktir máls

    Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla taka þrír hæstaréttardómarar ákvörðun um hvort kæra verði tekin til meðferðar. Ákvörðunin er færð í gerðarbók og eftir atvikum færðar röksemdir fyrir henni.
    Þegar meðferð umsóknar er lokið tilkynnir Hæstiréttur aðilum máls og eftir atvikum Landsrétti skriflega um niðurstöðuna, sbr. 3. mgr. 200. gr., sbr. 3. mgr. 212. gr. laga nr. 88/2008. Fallist Hæstiréttur á beiðni um kæruleyfi verður hann ekki krafinn um rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun en sé umsókn hafnað skal greint frá ástæðum þess í tilkynningu til aðilanna. Sé umsókn hafnað fylgir endurrit ákvörðunarinnar jafnframt með tilkynningunni.