Meginreglur við áfrýjanir og kærur til Hæstaréttar

Áfrýjun

    
    Um áfrýjanir einkamála til Hæstaréttar fer samkvæmt lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála með síðari breytingum (eml.). Dómi verður ekki áfrýjað til Hæstaréttar nema að fengnu áfrýjunarleyfi. Fyrir áfrýjunarleyfi skal greiða 70.000 krónur. (2. tölul. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs með síðari breytingum) 
    Aðila er heimilt að óska eftir leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar. (176. gr. eml.) Sækja skal um leyfi til þess innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms. (1. mgr. 177. gr. eml.) Hæstiréttur getur þó orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja dómi sem berst næstu fjórar vikur eftir lok frestsins, enda sé dráttur á áfrýjun nægjanlega réttlættur. (2. mgr. 177. gr. eml.) 
    Aðila er heimilt að óska eftir leyfi til að áfrýja dómi héraðsdóms beint til Hæstaréttar. (175. gr. eml.) Sækja skal um slíkt leyfi innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms, en þó að því gættu að umsóknin berist í síðasta lagi þegar áfrýjunarstefna er lögð fyrir Landsrétt. (153. gr., sbr. 155. gr. eml.) Beiðni um leyfi Hæstaréttar til að áfrýja héraðsdómi til Hæstaréttar skal koma fram í áfrýjunarstefnu sem lögð er fyrir Landsrétt. Jafnframt skal sá sem óskar eftir leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar senda umsókn ásamt áfrýjunarstefnu til Hæstaréttar.
    Umsókn um áfrýjunarleyfi skal fylgja áfrýjunarstefna sem umsækjandi vill fá gefna út og endurrit dómsins sem óskað er áfrýjunar á. (1. mgr. 178. gr. eml.) Afhenda skal Hæstarétti tvö eintök af áfrýjunarstefnu. (2. mgr. 179. gr. eml.) Ef fallist er á beiðni um áfrýjunarleyfi, gefur Hæstiréttur stefnuna út, heldur eftir einu eintaki hennar, en áfrýjandi fær frumrit afhent. 

    Í áfrýjunarstefnu skal greina eftirfarandi (1. mgr. 179. gr. eml.): 
        a. heiti og númer sem málið bar á fyrra dómstigi, fyrir hvaða dómstól var leyst úr málinu og hvenær dómur var kveðinn upp í því, 
        b. nöfn aðila, kennitölu og heimili eða dvalarstað, svo og nöfn fyrirsvarsmanna þeirra, ef því er að skipta, stöðu þeirra og heimili eða                 dvalarstað, 
        c. hver eða hverjir flytji málið fyrir áfrýjanda, 
        d. í hverju skyni áfrýjað er og hverjar dómkröfur áfrýjandi gerir, 
        e. hvenær stefndi verði í síðasta lagi að tilkynna Hæstarétti að hann hafi í hyggju að halda uppi vörnum í málinu en skrifstofa                 Hæstaréttar ákveður dagsetningu í þessu skyni við útgáfu stefnu, 
        f. hverju það varði að stefndi komi ekki fram tilkynningu samkvæmt e. lið. 

    Fyrir útgáfu áfrýjunarstefnu skal greiða (3. tölul. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 88/1991 með síðari breytingum): 
        • 34.000 krónur af áfrýjunarfjárhæð allt að 3.000.000 krónum, 
        • 70.000 krónur af áfrýjunarfjárhæð frá 3.000.000 krónum að 30.000.000 krónum og vegna mála þar sem krafist er viðurkenningar á                 réttindum og/eða skyldum, 
        • 176.000 krónur af áfrýjunarfjárhæð frá 30.000.000 krónum að 90.000.000 krónum, 
        • 269.000 krónur af áfrýjunarfjárhæð frá 90.000.000 krónum að 150.000.000 krónum og 
        • 404.000 krónur af áfrýjunarfjárhæð frá 150.000.000 krónum og fjárhæðum umfram það.  

    Áfrýjunarstefnu verður að birta ekki síðar en viku áður en frestur stefnda til að tilkynna um varnir samkvæmt e. lið 1. mgr. 179. gr. eml. er á enda. (4. mgr. 179. gr. eml.)
    Áfrýjandi skal þingfesta mál fyrir Hæstarétti í síðasta lagi á sama degi og tilgreindur hefur verið sem dagur fyrir stefnda til að tilkynna um varnir. (1. mgr. 180. gr. eml.) Frestur til þingfestingar er að jafnaði ákveðinn 6 vikur frá útgáfu stefnu, nema sérstaklega standi á. Við þingfestingu skal áfrýjandi afhenda áfrýjunarstefnuna ásamt sönnun fyrir birtingu hennar, greinargerð af sinni hálfu og málsgögn í sjö eintökum. Um frágang málsgagna fer samkvæmt reglum Hæstaréttar nr. 434/2018 um málsgögn í einkamálum. Áfrýjandi skal ekki síðar en við þingfestingu afhenda stefnda eintak málsgagna sem lögð eru fram fyrir Hæstarétti. (1. mgr. 182. gr. eml.) 
    Við þingfestingu skal áfrýjandi greiða þingfestingargjald, 34.000 krónur. (4. tölul. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 88/1991 með síðari breytingum)
    Þegar mál hefur verið þingfest af hálfu áfrýjanda er stefnda veittur frestur til að skila greinargerð og málsgögnum af sinni hálfu ef hann hefur tilkynnt að hann hafi í hyggju að halda uppi vörnum. Er sá frestur að jafnaði 4 vikur. (1. mgr. 182. gr. eml.) Innan sama frests getur stefndi gagnáfrýjað dómi (héraðsdóms eða Landsréttar), en það verður hann að gera ef hann ætlar að leita breytinga á niðurstöðum dómsins. (3. mgr. 177. gr. eml.) Hafi stefndi ekki tilkynnt Hæstarétti að hann vilji halda uppi vörnum í málinu verður það þegar tekið til dóms án munnlegs málflutnings, en þá er litið svo á að stefndi krefjist staðfestingar hins áfrýjaða dóms. (3. mgr. 182. gr. eml.)
    Hafi málsaðilar ekki þegar lýst gagnaöflun lokið í greinargerðum sínum, ákveður Hæstiréttur sameiginlegan frest handa þeim til að ljúka gagnaöflun í málinu. Er sá frestur að jafnaði þrjár vikur. Hæstiréttur getur heimilað aðila að leggja fram ný gögn eftir lok gagnaöflunar ef ekki var unnt að afla þeirra gagna fyrr eða atvik hafa breyst svo að máli skiptir eftir þann tíma. (1. mgr. 184. gr. eml.)
    Þegar gagnaöflun er lokið er máli frestað til málflutnings með tilkynningu réttarins þar um. (1. mgr. 185. gr. eml.)
    
    Um áfrýjun sakamála til Hæstaréttar fer samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála með síðari breytingum (sml.). Dómi héraðsdóms verður ekki áfrýjað beint til Hæstaréttar. Dómi Landsréttar verður ekki áfrýjað til Hæstaréttar nema að fengnu áfrýjunarleyfi. 
    Unnt er að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar til þess að fá (1. mgr. 215. gr. sml.): 
        a. endurskoðun á ákvörðun viðurlaga, 
        b. endurskoðun á niðurstöðum sem eru byggðar á skýringu eða beitingu réttarreglna, 
        c. endurskoðun á niðurstöðum sem eru byggðar á mati á sönnunargildi annarra gagna en munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi eða                 Landsrétti, 
        d. ómerkingu á héraðsdómi og landsréttardómi og heimvísun máls, 
        e. frávísun máls frá héraðsdómi og Landsrétti. 
    Ekki er heimilt að veita leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar. (5. mgr. 215. gr. sml.)
    Ákærði getur óskað eftir leyfi til áfrýjunar á dómi Landsréttar innan fjögurra vikna (28 daga) frá birtingu dómsins, hafi birtingar verið þörf samkvæmt 3. mgr. 185. gr. sml., en ella innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins. Umsókn ákærða um leyfi til áfrýjunar skal send ríkissaksóknara. Umsókn skal fylgja skrifleg tilkynning um áfrýjun þar sem tekið er nákvæmlega fram í hverju skyni áfrýjað er og hverjar dómkröfur ákærða eru, svo og hvern hann vill fá skipaðan sem verjanda fyrir Hæstarétti eða hvort hann óskar eftir að flytja mál sitt sjálfur. (2. mgr. 217. gr. sml.) Ríkissaksóknari áframsendir umsókn ákærða ásamt gögnum til Hæstaréttar.
    Ríkissaksóknari getur óskað eftir áfrýjun á dómi Landsréttar innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins og skal hann þá beina skriflegri umsókn til Hæstaréttar. (3. mgr. 217. gr. sml.)
    Hafi hvorki ákærði né ríkissaksóknari áfrýjað innan þeirra fresta sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. 217. gr. sml. skal litið svo á að dómi Landsréttar sé unað af beggja hálfu. Hæstiréttur getur þó orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar sem berst næstu þrjá mánuði eftir lok áfrýjunarfrests, enda sé dráttur á áfrýjun nægilega réttlættur. (6. mgr. 217. gr. sml.)
    Þegar áfrýjun er ráðin gefur ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu þar sem skal greina (2. mgr. 218. gr. sml.): 
        a. heiti og númer sem málið bar á fyrra dómstigi og hvenær dómur var kveðinn upp,
        b. nafn ákærða, kennitölu eða fæðingardag og heimili, svo og hver komi fram fyrir hans hönd við áfrýjun samkvæmt 2. mgr. 197. gr. ef                 því er að skipta, 
        c. hver áfrýjar dómi og nákvæmlega í hvaða skyni það er gert, 
        d. ef því er að skipta hvert sé nafn, kennitala og heimili þess sem haft hefur uppi kröfu skv. XXVI. kafla sml. (einkaréttarkröfu) sem                 dæmd hefur verið að efni til á fyrra dómstigi, 
        e. að málið verði tekið til meðferðar í Hæstarétti í samræmi við tilkynningar sem aðilunum verði á síðari stigum sendar þaðan. 

    Hafi ríkissaksóknari áfrýjað dómi skal hann svo fljótt sem verða má fá áfrýjunarstefnu birta fyrir ákærða. Skal ákærða um leið gefinn kostur á að bera fram ósk um verjanda eða greina ella frá ósk sinni um að fá að flytja mál sitt sjálfur. (3. mgr. 218. gr. sml.)
    Hafi krafa samkvæmt XXVI. kafla sml. verið dæmd að efni til á fyrra dómstigi skal ríkissaksóknari láta birta áfrýjunarstefnu fyrir þeim sem með kröfuna fer. Sé um brotaþola að ræða skal honum um leið gefinn kostur á að bera fram ósk um réttargæslumann þá þegar eða með tilkynningu til Hæstaréttar. (4. mgr. 218. gr. sml.)
    Að þessu búnu sendir ríkissaksóknari Hæstarétti áfrýjunarstefnuna og skipar rétturinn ákærða þá verjanda og eftir atvikum brotaþola réttargæslumann. (5. mgr. 218. gr. sml.)
    Eftir áfrýjun skal Landsréttur verða við beiðni ríkissaksóknara um afhendingu dómsgerða. Eftir að dómsgerðir hafa borist og verjandi verið skipaður skal ríkissaksóknari í samráði við verjanda annast frágang málsgagna. Hæstarétti skulu afhent sjö eintök af málsgögnum en um gerð þeirra gilda reglur Hæstaréttar nr. 433/2018 um málsgögn í sakamálum. (219. gr. sml.) Ríkissaksóknari skal jafnframt afhenda verjanda ákærða eitt eintak málsgagna, nema verjandinn hafi óskað þess innan þriggja vikna frá skipun að fá tvö eintök.
    Þegar málsgögn hafa borist Hæstarétti ákveður rétturinn ákæruvaldi, verjanda og eftir atvikum einkaréttarkröfuhafa frest til að skila greinargerðum og frekari gögnum af sinni hálfu. Að jafnaði er þeim sem hefur lýst yfir áfrýjun veittur tveggja vikna frestur í því sambandi og gagnaðila viku frestur umfram það. Þegar greinargerð og gögn eru send Hæstarétti skal viðkomandi jafnframt senda gagnaðila afrit. (1. mgr. 220. gr. sml.) 
    Eftir afhendingu greinargerða og gagna er málinu frestað til munnlegs málflutnings. 

Kærur


    Um kærur í einkamálum til Hæstaréttar fer samkvæmt lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála með síðari breytingum (eml.).
    Úrskurðir Landsréttar sæta aðeins kæru til Hæstaréttar ef þeir fjalla um efnisatriði, sem talin eru upp í a. til e. liðum 1. mgr. 167. gr. eml. Þá er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. (2. mgr. 167. gr. eml.) Hæstiréttur getur á hvaða stigi máls sem er synjað að taka kæruefni til meðferðar ef rétturinn telur kæru tilefnislausa eða augljóslega setta fram í þeim tilgangi að tefja framgang máls. (3. mgr. 167. gr. eml.)
    Dómsathöfn Landsréttar verður kærð til Hæstaréttar eða kæruleyfis leitað áður en tvær vikur eru liðnar frá uppkvaðningu dómsathafnar og ber að afhenda Landsrétti skriflega kæru og eftir atvikum ósk um kæruleyfi Hæstaréttar, ásamt skriflegri kæru, innan þess tímamarks. Ef aðili eða umboðsmaður hans er ekki viðstaddur á dómþingi þegar dómsathöfn er kveðin upp er kærufrestur hans tvær vikur frá því hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana. (1. mgr. 168. gr. eml.)
    Fyrir kæru eða kæruleyfi til Hæstaréttar skal greiða til Landsréttar 70.000 krónur. (3. mgr. 169. gr. eml. og 1. tölul. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 88/1991 með síðari breytingum)
    Landsréttur sendir kæru, eða ósk um kæruleyfi ásamt kæru, til Hæstaréttar og gagnaðila þess sem kærir svo fljótt sem verða má nema rétturinn kjósi sjálfur að fella kærða dómsathöfn úr gildi. (1. mgr. 171. gr. eml.)

    Í kæru skal greina (1. mgr. 169. gr. eml.): 
        a. þá dómsathöfn sem er kærð, 
        b. rökstuðning fyrir því að kæra skuli tekin til meðferðar, 
        c. kröfu um breytingu á hinni kærðu dómsathöfn, 
        d. ástæður sem kæra er reist á. 
    Kæru má styðja með nýjum sönnunargögnum. Vilji kærandi bera ný gögn fyrir sig skal hann greina frá þeim í kæru, svo og hvað hann hyggst sanna með þeim. Slík gögn skulu fylgja kæru í frumriti eða staðfestu endurriti. (2. mgr. 169. gr. eml.)
    Innan viku frá því að Landsréttur sendi Hæstarétti kæru eða ósk um kæruleyfi skal sá sem kærir eða óskar eftir kæruleyfi vegna dómsathafnar Landsréttar senda Hæstarétti, í sex eintökum, þau gögn málsins sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið. Hann skal þá einnig afhenda Hæstarétti skriflega greinargerð sem geymi kröfur hans og málsástæður sem byggt er á, svo og rökstuðning fyrir því að taka skuli kæru til meðferðar. Hann skal samtímis afhenda gagnaðila eða gagnaðilum eitt eintak kærumálsgagna og greinargerðar. (2. mgr. 171. gr. eml.) Um gerð kærumálsgagna gilda reglur Hæstaréttar nr. 140/2018 um kærumálsgögn í einkamálum og ber sóknaraðili ábyrgð á að kærumálsgögn séu í þeim búningi sem þar er mælt fyrir um.  
    Ef sá sem kærir dómsathöfn eða óskar eftir kæruleyfi skilar ekki kærumálsgögnum til Hæstaréttar innan þess frests sem greinir í 2. mgr. 171. gr. verður ekki frekar af máli. (3. mgr. 171. gr. eml.) 
    Þegar sá, sem kærir úrskurð eða dómsathöfn eða óskar eftir kæruleyfi hefur afhent Hæstarétti málsgögn, á gagnaðili kost á því að skila innan viku til Hæstaréttar skriflegri greinargerð sem geymi afstöðu hans til kæruefnis, kröfur og málsástæður sem byggt er á og eftir atvikum afstöðu hans til þess hvort orðið verði við ósk um kæruleyfi. Telji hann skorta á að kærandi hafi afhent Hæstarétti þau gögn máls sem þörf sé á til að leysa úr kæruefninu getur hann látið fylgja greinargerð sinni þau málsgögn sem hann telur vanta. Hann skal samtímis afhenda kæranda eitt eintak kærumálsgagna og greinargerðar. Kjósi gagnaðili að afhenda gögn af sinni hálfu skal það gert í því horfi sem mælt er fyrir um í reglum Hæstaréttar um kærumálsgögn í einkamálum. (172. gr. eml.)
    Þegar vika er liðin frá því að kærumálsgögn og eftir atvikum greinargerð gagnaðila bárust Hæstarétti getur rétturinn ákveðið hvort kæra verði tekin til meðferðar og eftir atvikum lagt dóm á kæruefnið, en jafnan skal þó athuga skjöl sem berast síðar frá aðilum svo framarlega sem málinu er þá ekki lokið. (1. mgr. 173. gr. eml.)
    Kæra eða ósk um kæruleyfi frestar frekari framkvæmdum á grundvelli dómsathafnar þar til leyst er úr máli fyrir Hæstarétti. (2. mgr. 168. gr. eml.) Þó ber að gæta að því að í sérlögum geta verið ákvæði þess efnis að kæra fresti ekki frekari framkvæmdum á grundvelli dómsathafnar.
    
    Úrskurðir Landsréttar sæta aðeins kæru til Hæstaréttar ef þeir fjalla um efnisatriði, sem talin eru upp í a. til d. liðum 1. mgr. 211. gr. sml. Hæstiréttur getur þó á hvaða stigi máls sem er synjað að taka kæruefni til meðferðar ef rétturinn telur kæru tilefnislausa eða augljóslega setta fram í þeim tilgangi að tefja framgang máls. (2. mgr. 211. gr. sml.)
    Sá sem vill kæra úrskurð skal lýsa því yfir innan þriggja sólarhringa frá því að hann fékk vitneskju um úrskurðinn. (2. mgr. 212. gr. sml.) Sé úrskurður ekki kærður innan framangreinds frests er heimilt að leita eftir leyfi Hæstaréttar til kæru, en afhenda skal Landsrétti skriflega kæru áður en það verður gert. Um leyfisbeiðnina og meðferð hennar fer samkvæmt því sem segir í 200. gr. sml. (3. mgr. 212. gr. sml.)
    Sé kæru lýst yfir á dómþingi má kærandi láta við það sitja að bókað verði um hana í þingbók, þar á meðal í hvaða skyni kært er. Að öðrum kosti skal hann afhenda Landsrétti skriflega kæru þar sem greint skal frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæra er reist á. Skriflegri kæru skulu einnig fylgja ný gögn sem kærandi hyggst bera fyrir sig, enda sé í kæru getið hvað sanna eigi með þeim. (2. mgr. 212. gr. sml.)
    Landsréttur sendir kæruna til Hæstaréttar svo fljótt sem verða má ásamt endurritum úr þingbók og öðrum gögnum málsins sem varða kæruefnið nema rétturinn telji rétt að fella sjálfur úrskurð sinn úr gildi. Gögnin sendir Landsréttur í sex eintökum ásamt athugasemdum sínum ef hann vill. (1. mgr. 213. gr. sml.)
    Aðilar kærumáls geta sent Hæstarétti greinargerðir sínar innan sólarhrings frá því að málið barst réttinum. Aðili skal samhliða því senda gagnaðila sínum afrit af greinargerðinni, enda hafi ekki verið farið með málið fyrir héraðsdómi án þess að honum væri kunngert um það. (3. mgr. 213. gr. sml.)
    Að liðnum fresti samkvæmt 3. mgr. 213. gr. eða þegar greinargerðir hafa borist Hæstarétti getur rétturinn lagt dóm á kærumál. Tekið skal tillit til greinargerða eða gagna sem berast eftir að fresturinn er liðinn svo framarlega sem málinu er þá ekki lokið. (1. mgr. 214. gr.)
    Kæra frestar frekari framkvæmdum á grundvelli dómsathafnar þar til leyst er úr máli fyrir Hæstarétti. (4. mgr. 212. gr. sml.)