Dómur kveðinn upp í hæstaréttarmáli nr. 35/2025
22.12.2025
Í dag var kveðinn upp dómur í máli nr. 35/2025. Í því var deilt um gildi skilmála um breytilega vexti verðtryggðs láns samkvæmt tveimur skuldabréfum sem lántakendur gáfu út í júní 2006 og greiddu upp í júní 2021. Í skuldabréfunum var samhljóða skilmáli þar sem fram kom að af láninu greiddust breytilegir ársvextir eins og væru ákveðnir á hverjum tíma af bankanum og tæki það jafnt til kjörvaxta og vaxtaálags. Jafnframt kom þar fram að bankanum væri hvenær sem er á lánstímanum heimilt að hækka eða lækka framangreinda vexti, þar með talið vaxtaálag, í samræmi við vaxtaákvarðanir hans á hverjum tíma og/eða færa lánið á milli vaxtaflokka, svo sem ef breytingar yrðu á fjárhagsstöðu og endurgreiðslumöguleikum útgefanda, ef breytingar yrðu á kjörvaxtakerfi bankans eða aðrar aðstæður gæfu tilefni til.
Lántakar höfðuðu mál á hendur Landsbankanum hf. og kröfðust endurgreiðslu ofgreiddra vaxta sem þau töldu sig hafa greitt. Þau byggðu einkum á því að umræddur skilmáli hefði farið gegn kröfum um upplýsingagjöf samkvæmt þágildandi lögum nr. 121/1994 um neytendalán og hann hefði verið ósanngjarn í skilningi 36. gr. c samningalaga nr. 7/1936.
Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að hugsanlegar kröfur lántakanna sem höfðu stofnast fyrir 8. desember 2017, það er fjórum árum fyrir höfðun málsins, væru fallnar niður fyrir fyrningu. Talið var að skilmálinn hefði ekki fullnægt ákvæðum þágildandi neytendalaga enda yrði ekki séð hvernig sæmilega upplýstur og athugull neytandi hefði með fullnægjandi hætti getað ráðið af honum af hvaða tilefni bankinn hygðist breyta vöxtum. Hann var jafnframt talinn hafa verið til þess fallinn að raska til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila lántökum í óhag.
Vísað var til þess að vegna ógildis skilmálans hefði bankanum ótvírætt verið óheimilt að byggja ákvarðanir um hækkun samningsvaxta af lánunum á honum. Á því tímabili sem kröfur lántakendanna töldust ófyrndar höfðu vextir af lánunum hins vegar í öllum tilvikum verið lægri en þeir sem upphaflega hafði verið samið um. Hæstiréttur leit til þess að eitt meginefni lánasamninganna hefði verið að vextir skyldu vera breytilegir. Var talið að lántakarnir hefðu því mátt hafa ákveðnar væntingar um að bankinn lækkaði samningsvexti samhliða almennri vaxtaþróun, þó þannig að þau hefðu ekki mátt vænta þess að breytingar á samningsvöxtum fylgdu tafarlaust eða nákvæmlega slíkri þróun. Í málinu væri ekki annað komið fram en að gildar ástæður hefðu legið því að baki að munur á samningsvöxtum og öðrum vöxtum, svo sem stýrivöxtum Seðlabankans, jókst tímabundið. Því lægi ekki fyrir að vegna hins ólögmæta og ógilda skilmála hefðu lántakar greitt hærri vexti á umræddu tímabili eða þau með öðrum hætti orðið fyrir tjóni af þessum sökum. Bankinn var því sýknaður af kröfum lántakenda.
Dóminn í heild sinni má finna hér: