Dómur kveðinn upp í hæstaréttarmáli nr. 32/2025

22.12.2025

Í dag var kveðinn upp dómur í máli nr. 32/2025. Í því var deilt um gildi skilmála um breytilega vexti óverðtryggðs viðbótarláns í veðskuldabréfi sem lántakendur gáfu út 4. júlí 2019 til viðurkenningar á skuld við Landsbankann hf. og greiddu upp 2. febrúar 2021. Samkvæmt skilmálunum var bankanum heimilt hvenær sem er á lánstímanum að hækka eða lækka vexti í samræmi við vaxtaákvarðanir hans á hverjum tíma. Samkvæmt skilmálanum tóku vaxtaákvarðanir „meðal annars mið af vöxtum Seðlabanka Íslands, vöxtum á markaði og öðrum fjármögnunarkjörum“.

Hæstiréttur taldi að tilvísun skilmálans til vaxta Seðlabanka Íslands vísaði til stýrivaxta og fullnægði kröfum um gagnsæi samkvæmt 34. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Hins vegar þótti tilvísun til vaxta á markaði vera óskýr og ekki standast áskilnað 34. gr. laganna. Þá taldi Hæstiréttur að aðrir þættir skilmálans uppfylltu ekki skilyrði ákvæðisins enda kæmu þar ekki fram á skýran og hnitmiðaðan hátt skilyrði og málsmeðferð við breytingu útlánsvaxta. Skilmálinn raskaði því til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna aðila samningsins lántökum í óhag og taldist ósanngjarn í skilningi 36. gr. c samningalaga. Til að koma á jafnvægi milli samningsaðila ógilti Hæstiréttur aðra þætti skilmálans en tilvísun til vaxta Seðlabankans.

Þar sem skilmálinn var ekki ógiltur í heild sinni voru ekki talin efni til að endurreikna lánið eins og það hefði borið vexti eftir 4. gr. vaxtalaga allan lánstímann. Á lánstímanum höfðu vextir lánsins lækkað tíu sinnum. Lántakendur vísuðu til útreiknings sem tók mið af mismun á þeim vöxtum sem þau greiddu á samningstímanum og vöxtum sem þeim hefði borið að greiða ef vextir lánsins hefðu að öllu leyti fylgt lækkun stýrivaxta. Hæstiréttur taldi að lántakar hefðu mátt hafa raunhæfar væntingar um að bankinn myndi lækka vexti vegna tilvísunar til vaxta Seðlabanka Íslands en ekki, vegna orðalags skilmálans, að breytingarnar myndu tafarlaust og nákvæmlega fylgja breytingum á stýrivöxtum. Þá væri ekki væri annað fram komið en að gildar ástæður hefðu legið að baki því að munur breytilegra vaxta og stýrivaxta hefði aukist tímabundið á samningstímanum. Jafnframt lægi ekki annað fyrir en að munurinn hefði verið innan svigrúms bankans samkvæmt skilmálanum. Var bankinn því sýknaður af fjárkröfu lántakenda.

Dóminn í heild sinni má finna hér: