Dómur kveðinn upp í hæstaréttarmáli nr. 24/2025

10.12.2025

Í dag var kveðinn upp dómur í máli nr. 24/2025. Í því var deilt um gildi skilmála um breytilega vexti verðtryggðs húsnæðisláns í veðskuldabréfi sem lántakendur gáfu út 3. janúar 2017 til viðurkenningar á skuld við Arion banka hf. og greiddu upp 29. mars 2021.

Samkvæmt skilmálanum skyldi við breytingar á vöxtum horfa til „breytinga á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa útgefinna m.a. af Íbúðalánasjóði, bönkum og fjármálastofnunum á Íslandi, ríkissjóði Íslands eða sveitarfélögum, breytinga á fjármögnunarkostnaði, rekstrarkostnaði, smásöluálagningu bankans og álagningu bankans vegna útlánaáhættu.“ Lántakendur töldu skilmálann ekki uppfylla kröfur um gagnsæi samkvæmt lögum nr. 33/2013 um neytendalán og að hann væri ósanngjarn í skilningi 36. gr. c samningalaga nr. 7/1936, eins og skýra bæri þessi lög í ljósi Evróputilskipana um neytendavernd á sviði lánasamninga.

Í niðurstöðu Hæstaréttar var skilmálinn í mikilvægum atriðum talinn skýrari að efni og framsetningu en sá skilmáli sem var til umfjöllunar í nýgengnum dómi Hæstaréttar 14. október 2025 í máli nr. 55/2024 auk þess sem leyst var úr því máli á grundvelli laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Hæstiréttur leit til þess að í skilmála Arion banka hf. voru skilyrði vaxtabreytinga talin upp með tæmandi hætti og lög nr. 33/2013 gerðu ekki ríkari kröfur til lýsingar á málsmeðferð við vaxtaákvörðun en kæmi fram í skilmálanum. Jafnframt var litið til þess að skilmálinn hefði verið á skýru og skiljanlegu máli með útskýringum á hvað fólgið væri í hverju og einu skilyrða vaxtabreytinga. Að framangreindu virtu taldi Hæstiréttur skilmálann uppfylla gagnsæiskröfur laga um neytendalán. Loks var ekki séð að bankinn hefði nýtt sér aðstöðumun við samningsgerðina eða að jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila hefði verið raskað til muna. Því var ekki fallist á með lántakendum að skilmálinn væri ósanngjarn í skilningi 36. gr. c samningalaga. Var því staðfest niðurstaða Landsréttar um sýknu bankans af kröfum lántakenda.

Dóminn í heild sinni má finna hér: