Hæstiréttur Íslands á Instagram

01.12.2025

Hæstiréttur starfar fyrir opnum tjöldum og leggur ríka áherslu á að upplýsingar um réttinn og starfsemi hans séu aðgengilegar. Allir dómar réttarins frá árinu 1999 eru á heimasíðu hans (www.haestirettur.is) og þar hafa einnig um árabil verið birtar fréttir um starfsemina. Jafnframt leggur fjöldi gesta árlega leið sína í Hæstarétt til að fræðast um réttinn en meðal þeirra eru nemendur í framhaldsskólum og háskólum.

Til að auka enn frekar aðgengi að Hæstarétti og miðla upplýsingum um hann hefur verið ákveðið að rétturinn opni í eigin nafni síðu á samfélagsmiðlinum Instagram (undir heitinu haestiretturislands). Tilgangurinn er að ná betur til þeirra sem vilja fylgjast með starfseminni og þá einkum yngra fólks. Síðan verður opnuð í dag á fullveldisdaginn 1. desember en sá dagur varð fyrir valinu því að við fullveldið árið 1918 öðlaðist Ísland heimild til að taka æðsta dómsvaldið í eigin hendur. Það var síðan gert með stofnun Hæstaréttar árið 1920. Þannig er tilvist Hæstaréttar nátengd sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Á Instagram-síðu réttarins mun rétturinn miðla fréttum og fræðsluefni um starfsemina, sögulegum fróðleik og öðru efni sem ástæða er til að miðla til þeirra sem hafa áhuga á starfsemi réttarins.