Dómur kveðinn upp í hæstaréttarmáli nr. 55/2024
14.10.2025
Í dag var kveðinn upp dómur í máli nr. 55/2024. Í því var deilt um gildi skilmála um breytilega vexti óverðtryggðs húsnæðisláns í veðskuldabréfi sem lántakendur gáfu út 21. janúar 2021 til viðurkenningar á skuld við Íslandsbanka hf. Samkvæmt skilmálanum skyldu breytingar á vöxtum „meðal annars taka mið af breytingum á fjármögnunarkostnaði (lánskjörum) bankans, rekstrarkostnaði, opinberum álögum og/eða öðrum ófyrirséðum kostnaði, stýrivöxtum Seðlabanka Íslands, breytingum á vísitölu neysluverðs o.s.frv.“ Lántakendur töldu að skilmálinn uppfyllti ekki kröfur um gagnsæi samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda og væri ósanngjarn í skilningi 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eins og skýra bæri þessi lög í ljósi Evróputilskipana um neytendavernd á sviði lánasamninga. Undir rekstri málsins í héraði var leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu ákvæða umræddra tilskipana. Hæstiréttur tók fram að lög nr. 118/2016 hefðu verið sett til að innleiða í íslensk lög tilskipun um lánasamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði. Yrðu lögin því skýrð með hliðsjón af tilskipunum á sviði neytendaverndar. Hæstiréttur taldi að tilvísun skilmála bankans til stýrivaxta Seðlabankans stæðist áskilnað 34. gr. laga nr. 118/2016 um gagnsæi. Um tilvísun skilmálans til vísitölu neysluverðs sagði Hæstiréttur að þótt vísitalan væri opinber vísitala væri vægi hennar í skilmálanum óvissu háð og fullnægði því ekki kröfum 34. gr. Jafnframt taldi Hæstiréttur að aðrir þættir skilmálans uppfylltu ekki skilyrði 34. gr. enda vísuðu þeir til þátta sem neytandi gæti ekki sannreynt og veittu Íslandsbanka hf. opna og ófyrirsjáanlega heimild til vaxtabreytinga. Skilmálinn raskaði því til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna aðila samningsins lántakendum í óhag og teldist ósanngjarn. Til að koma á jafnvægi milli samningsaðila ógilti Hæstiréttur aðra þætti skilmálans en tilvísun til stýrivaxta Seðlabankans. Bankinn var sýknaður af fjárkröfu lántakenda með vísan til þess að vextir á láni þeirra hækkuðu minna en stýrivextir Seðlabankans á því tímabili sem ágreiningur málsins tók til.
Dóminn í heild sinni má finna hér