Fundur forseta æðstu dómstóla á Norðurlöndum haldinn á Íslandi

01.09.2025

Hinn 27. og 28. ágúst var haldinn í Vestmannaeyjum árlegur fundur forseta æðstu dómstóla á Norðurlöndum. Af hálfu Íslands sóttu fundinn Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar, Sigurður Tómas Magnússon, varaforseti réttarins og Ólöf Finnsdóttir skrifstofustjóri. Venju samkvæmt gerði hvert landanna grein fyrir starfsemi síns dómstóls á liðnu ári. Einnig voru tekin til umfjöllunar málefni sem eru efst á baugi og hafa sameiginlega þýðingu fyrir dómstóla landanna. Af hálfu Íslands fjallaði Benedikt um miðlun upplýsinga um réttinn til almennings en því efni hefur aðallega verið komið á framfæri á heimasíðu réttarins. Jafnframt gerði hann grein fyrir undirbúningi að því að miðla í auknum mæli slíkum upplýsingum um réttinn. Meðal umræðuefna á fundinum var starfsfyrirkomulag dómstólanna og stjórnun auk þess sem rætt var um reglur landanna um unga brotamenn.