Dómur í máli um Hvammsvirkjun
09.07.2025
Í dag var kveðinn upp dómur í máli nr. 11/2025 sem höfðað var til að fá hnekkt þremur ákvöðunum stjórnvalda sem lutu að Hvammsvirkjun sem Landsvirkjun hyggst reisa í neðri hluta Þjórsár. Um var að ræða ákvörðun Umhverfisstofnunar um heimild til að breyta vatnshlotinu Þjórsá 1, virkjunarleyfi Orkustofnunar og leyfi Fiskistofu vegna framkvæmdanna.
Um heimild Umhverfisstofnunar til að breyta vatnslotinu Þjórsá 1 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að þágildandi ákvæði laga um stjórn vatnamála yrðu skýrð þannig, í ljósi lögskýringargagna og meðferðar frumvarps til laganna á Alþingi, að girt hefði verið fyrir að vatnshloti yrði breytt vegna áhrifa af framkvæmdum við að reisa vatnsaflsvirkjanir. Í því sambandi var engu talið breyta þótt mistök hefðu orðið við lagasetninguna sem gætu með engu móti endurspeglað raunverulegan vilja löggjafans, eins og hreyft var af hálfu íslenska ríkisins og Landsvirkjunar. Borgararnir mættu treysta því að vilji löggjafans kæmi fram í skýru orðalagi lagatexta og yrði því ekki borið við að vilji löggafans hefði í raun staðið til allt annarrar niðurstöðu. Jafnframt kæmi ekki í hlut dómstóla að leiðrétta slík mistök heldur yrði löggjafinn sjálfur að bregðast við, teldi hann efni til, enda setti hann lög en dómstólar dæmdu um efni þeirra. Í því sambandi var bent á að Alþingi hefði skömmu áður en dómurinn gekk breytt lögum af þessu tilefni. Þær breytingar gætu hins vegar engu breytt um það mál sem var til úrlausnar fyrir Hæstarétti. Það mál yrði dæmt eftir lögunum eins og þau voru á þeim tíma þegar Umhverfisstofnun tók ákvörðun sína. Samkvæmt þessu var ákvörðun Umhverfisstofnunar um að breyta vatnshlotinu ógilt.
Af þeirri ástæðu að ákvörðun Umhverfisstofnunar var ógilt var talið að grundvöllur virkjunarleyfis Orkustofnunar hefði brostið. Var sú ákvörðun því einnig ógilt. Aftur á móti voru ekki taldir slíkir annmarkar á leyfi Fiskistofu að ástæða væri til að ógilda það.
Málið var dæmt af sjö dómurum.
Dóminn í heild sinni má finna hér.