Þrír dómar í Hæstarétti

04.10.2023

Í dag voru kveðnir upp þrír dómar í Hæstarétti.

Í fyrsta lagi var kveðinn upp dómur um rétt starfsmanns Reykjavíkurborgar til slysabóta vegna slyss sem hann varð fyrir þegar hann hljóp heim til sín úr vinnu sinni. Meirihluti Hæstaréttar komst að þeirri niðurstöðu að greiða bæri starfsmanninum bætur á grundvelli reglna um slys sem starfsmenn verða fyrir í starfi þar sem talið var að hann hefði verið á eðlilegri leið frá vinnustað til heimilis er hann varð fyrir slysinu enda hafi leiðin sem hann hljóp ekki verið úr hófi löng og ekkert rof orðið á ferð hans. Tveir dómenda skiluðu sératkvæði og töldu að slysið hefði verið réttilega gert upp  á grundvelli reglna um slys sem starfsmenn verða fyrir utan starfs þar sem sú leið sem starfsmaðurinn kaus að fara hefði ekki verið nauðsynlegur liður í ferð hans milli vinnustaðar og heimilis.

Í öðru lagi var kveðinn upp dómur í máli sem hafði verið endurupptekið með úrskurði Endurupptökudóms. Með dómi Hæstaréttar var málinu vísað frá héraðsdómi þar sem talið var að efnismeðferð og sakfelling í málinu myndi brjóta í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um rétt til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis.

Í þriðja lagi var kveðinn upp dómur í öðru máli sem einnig hafði verið endurupptekið með úrskurði Endurupptökudóms. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða en honum var ekki gerð refsing í málinu með vísan til þess að hann hafði þegar afplánað tveggja ára fangelsisrefsingu á grundvelli fyrri dóms Hæstaréttar.