Dómur um heimild til uppgreiðsluþóknunar

15.02.2023

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem deilt var um heimild ÍL-sjóðs til að krefja Ó og M um þóknun við uppgreiðslu á húsnæðisláni sem þau höfðu tekið í júlí 2008 hjá sjóðnum. Ágreiningur málsins laut einkum að afleiðingum þess að í skilmálum lánssamnings aðila skorti ákvæði um útreikning þóknunarinnar þrátt fyrir lagaskyldu þar um og hvort Ó og M ættu af þeirri ástæðu rétt á endurgreiðslu hennar.

Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að við heildarmat á efni veðbréfsins, stöðu aðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til yrði ekki fallist á með Ó og M að það teldist ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að Í bæri fyrir sig skilmála veðbréfsins um uppgreiðsluþóknun. Því væru ekki efni til að víkja skilmála veðbréfsins og samkomulagi aðila um greiðslu uppgreiðsluþóknunar til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu Í af kröfu Ó og M um endurgreiðslu uppgreiðsluþóknunar að öllu leyti eða að hluta og um málskostnað.

Dóminn í heild sinni má lesa [hér].