Traust til Hæstaréttar eykst meðal lögmanna og ákærenda

29.06.2022

Um 89% lögmanna og ákærenda báru mikið traust til Hæstaréttar samkvæmt könnun Gallup um þjónustu dómstólanna sem unnin var að beiðni dómstólasýslunnar. Það er hækkun um fimm prósentustig frá árinu 2019 þegar sambærileg könnun var unnin. Einnig var spurt um mat á málsmeðferðartíma hjá Hæstarétti en um 82% lögmanna og ákæranda taldi málsmeðferðartímann vera hæfilegan samanborið við 69% aðspurðra árið 2019. Um 89% lögmanna og ákærenda voru sammála þeirri fullyrðingu að dómar Hæstaréttar væru rökstuddir með fullnægjandi hætti samanborið við 81% á árinu 2019. Um 82% lögmanna og ákæranda voru ánægð með þjónustu Hæstaréttar 2022 samanborið við 85% árið 2019 en það er um þriggja prósentustiga lækkun frá fyrri könnun.

Í svörum við opnum spurningum komu meðal annars fram ábendingar um að mikilvægt væri að huga að rafrænum gagnaskilum og huga að sveigjanlegri ,,opnunartíma“ Hæstaréttar með einhvers konar sjálfsafgreiðslu lögmanna við gagnaskil. Allar þessar ábendingar sem komu fram í könnunni verða teknar til nánari athugunar. Nokkrir þátttakendur í könnunni gerðu athugasemdir við að röksemdir fyrir synjun leyfis til málskots væru ófullnægjandi. Í þeim efnum skal á það bent að slík úrlausn lýtur aðeins að tilteknum lögbundnum skilyrðum fyrir málskoti og getur ekki falið í sér að frekari afstaða verði tekin til málsins þannig að með einhverju móti verði leyst úr sakarefni þess. Hér má einnig nefna að um fjórðungur slíkra beiðna er samþykktur en það hlutfall er mun lægra annars staðar á Norðurlöndum eða 10-15%.

Um könnunina: Netkönnun Gallup var gerð dagana 26. apríl til 12. maí 2022 og var úrtakið 1108 lögmenn og ákærendur. Þátttökuhlutfall var 35%. Eins og áður sagði var sambærileg könnun gerð árið 2019.

Hæstiréttur vill þakka þeim sem gáfu sér tíma til þess að svara spurningunum og koma með ábendingar um það sem betur má fara. Ítarlegri niðurstöður má nálgast hér.