Dómur um lögmæti innviðagjalds

01.06.2022

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli sem S ehf. höfðaði gegn Reykjavíkurborg vegna innheimtu sveitarfélagsins á innviðagjaldi. Ágreiningur aðila laut einkum að því hvort innheimta sveitarfélagsins á kostnaði við uppbyggingu innviða á nánar tilgreindu svæði í Reykjavík á grundvelli samkomulags frá 2016 við þáverandi lóðarleiguhafa hefði verið lögmæt. 

Í dómi Hæstaréttar kom fram að um væri að ræða samning af einkaréttarlegum toga þar sem lóðarhafar skuldbundu sig til að greiða tiltekið endurgjald fyrir þá hagsmuni sem samkomulagið færði þeim. Var talið að málsástæður S ehf. um aðstöðumun samningsaðila, þvingaða stöðu viðsemjenda Reykjavíkurborgar og einhliða ákvörðun um fjárhæð kostnaðarþátttöku þeirra ættu ekki við rök að styðjast og var þeim hafnað. Þá taldi Hæstiréttur að með 78. gr. stjórnarskrárinnar hefðu sveitarfélög sjálfstætt vald, innan ramma laga, til að taka ákvarðanir um nýtingu og ráðstöfun tekna og yrði að játa þeim svigrúm til að ákveða forgangsröðun innan þess ramma, þar á meðal hvort tekjur af einkaréttarlegum samningum rynnu að einhverju marki til lögbundinna verkefna. Var staðfest niðurstaða Landsréttar um sýknu Reykjavíkurborgar af öllum kröfum S ehf.

Dóminn má í heild sinni lesa [hér].