Dómur um miskabætur vegna umsóknar um notendastýrða persónulega aðstoð

05.05.2022

Í gær kvað Hæstiréttur upp dóm í máli A gegn Mosfellsbæ þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að sveitarfélaginu bæri að greiða miskabætur vegna meðferðar og afgreiðslu á umsókn hans 4. október 2018 um notendastýrða persónulega aðstoð á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Hæstiréttur taldi að Mosfellsbær hefði veitt takmarkaðar skýringar á töfum sem urðu við meðferð og vinnslu umsóknarinnar. Við mat á þýðingu tafanna yrði að hafa í huga að allt frá því að umsókn A barst Mosfellsbæ hefði hann verið í brýnni þörf fyrir skjóta afgreiðslu og sveitarfélaginu mátt vera það ljóst. Hæstiréttiréttur taldi því að meðferð umsóknarinnar hefði farið verulega úr skorðum og var sveitarfélaginu gert að greiða A 700.000 krónur í miskabætur. 

Dóminn í heild sinni má lesa [hér].