Dómur um kynferðisbrot og áhrif samskiptamiðla

16.12.2021

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli þar sem X var sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr. 194. gr. sömu laga samkvæmt tveimur ákæruliðum. Hins vegar var talið að talsvert skorti á að 2. liður ákæru málsins væri svo greinargóður og skýr að X hefði væri fært að taka afstöðu til sakargiftanna og halda uppi vörnum gegn þeim. Væri því óhjákvæmilegt að vísa þeim ákærulið frá héraðsdómi. Var refsing hans ákveðin þrjú ár og sex mánuðir og honum gert að greiða brotaþola 2.000.000 króna í miskabætur.
Í dómi Hæstaréttar var meðal annars fjallað um áhrif samskiptamiðla og möguleika á ýmiss konar áður óþekktum leiðum til að villa á sér heimildir og beita blekkingum og hótunum, þar á meðal í kynferðislegum tilgangi. Löggjafinn hafi átt fullt í fangi með að mæta kröfum um aukna refsivernd kynfrelsis einstaklinga og bregðast við þeim nýju tæknilegu möguleikum sem samfélagsmiðlar hafa skapað til brota í kynferðislegum tilgangi. Þá hafi lögregla, ákæruvald og dómstólar jafnframt þurft að aðlaga rannsóknaraðferðir, ákærusmíð og beitingu refsiákvæða að nýrri tækni og nýjum samskiptamöguleikum. 

Dóminn má í heild sinni lesa hér.