Dómur um bótaábyrgð vegna kaupa á lögbýli

02.12.2021


Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli þar sem kaupendur lögbýlis kröfðu seljendur um greiðslu skaðabóta eða afsláttar en þau töldu hið keypta hafa verið haldið margvíslegum göllum og þá einkum íbúðarhús á jörðinni. Í dómi Hæstaréttar kom fram að annar seljenda hefði vitað um ágalla á gólfefnum en vanrækt að upplýsa kaupendur um þá. Umræddir ágallar væru því gallar á íbúðarhúsinu í skilningi 26. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup og voru seljendur dæmd til greiðslu skaðabóta vegna þeirra. Einnig taldi Hæstiréttur að seljendum hefði borið skylda með vísan til 10. gr. laganna að fjarlægja úr útihúsum og af jörðinni þá hluti og rusl sem ekki voru not fyrir við áframhaldandi búrekstur. Var þeim því gert með vísan til matsgerðar að greiða kaupendum skaðabætur vegna hreinsunar fasteignarinnar.
Seljendur voru sýknuð af öðrum kröfum kaupenda. Meðal annars um greiðslu skaðabóta eða afsláttar á grundvelli 18. gr. laga um fasteignakaup en Hæstiréttur taldi ekki efni til að telja að ágallar á hinni seldu fasteign hefðu rýrt verðmæti hennar svo nokkru varðaði í skilningi greinarinnar.

Dóminn má í heild sinni lesa hér.