Dómur um úthlutun tollkvóta

18.11.2021

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli sem Á ehf. höfðaði gegn íslenska ríkinu til endurgreiðslu á fjárhæðum sem hann hafði innt af hendi vegna greiðslna fyrir tollkvóta. Fyrir Hæstarétti laut ágreiningur málsins að því hvort ákvæði 3. mgr. 65. gr., sbr. 65. gr. B búvörulaga, eins og þau hljóðuðu á þeim tíma sem atvik málsins gerðust, teldist fullgild skattlagningarheimild og þá hvort heimild ráðherra til að setja reglugerð um úthlutun tollkvóta hefði falið í sér framsal skattlagningarvalds og þar með hvort álagning gjaldsins hefði samrýmst 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. 
Í dómi Hæstaréttar kom fram að við útboð á tollkvótum á árinu 2018 hefðu ráðherra og önnur stjórnvöld ekki haft neitt það svigrúm sem máli skipti til að ákveða hversu hátt gjald Á ehf. greiddi fyrir tollkvótann, breyta því eða um önnur meginatriði skattheimtunnar. Þá taldi Hæstiréttur að ekki yrði ráðið af 3. mgr. 65. búvörulaga að ráðherra hefði í raun haft val um aðra útfærslu gjaldtökunnar en að kalla eftir tilboðum á jafnræðisgrundvelli og taka því boði sem hæst væri. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að gild skattlagningarheimild hefði legið til grundvallar þeirri gjaldtöku sem fólst í greiðslu Á ehf. fyrir þá tollkvóta sem málið laut að. Ríkið var því sýknað af kröfu Á ehf.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.