Ágreiningur um mörk tjáningarfrelsis gagnvart friðhelgi einkalífs

05.02.2021

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli sem B höfðaði gegn J og krafðist ómerkingar fimm nánar tiltekinna ummæla sem birst höfðu í bók J. Þá gerði B kröfu um að J yrði gert að greiða sér miskabætur vegna þeirra. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að þótt ummælin hefðu bæði verið beinskeytt og afar hvöss yrði ekki talið að þau hefðu verið svo úr hófi fram að þörf væri á því í lýðræðislegu samfélagi, í þágu orðspors annarra eða trausts á dómstólum, að takmarka tjáningarfrelsi J með því að ómerkja þau. Þá kom fram í dómi réttarins að þótt ljóst væri að ummælin hefðu meðal annars átt við um B og kynnu að hafa vegið að starfsheiðri hans yrði hvorki talið að í þeim hefði falist hrein móðgun né sérstaklega gróf eða persónuleg aðdróttun. Að því gættu að rétturinn til að tjá ósanngjörn, móðgandi og stuðandi ummæli nyti verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar yrði að líta svo á að J hefði með ummælum sínum ekki vegið svo að æru B að það hefði farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins. Var J því sýknaður af kröfum B. Tveir dómenda skiluðu sératkvæði. Þær töldu að ómerkja ætti umstefnd ummæli og dæma J til að greiða B miskabætur og málskostnað.

 

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.