Dómur um sýknu í kynferðisbrotamáli ómerktur

01.10.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar X var ákærð fyrir hlutdeild í nauðgun meðákærða Y samkvæmt 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna. Y lést áður en aðalmeðferð málsins fór fram í héraði og var það því fellt niður á hendur honum. Með héraðsdómi var X sakfelld fyrir hlutdeild í nauðgunarbroti og dæmd í 2 ára fangelsi en dómurinn taldi að hlutdeild X hefði verið af ásetningi og falist bæði í athöfn og afhafnaleysi. Með dómi Landsréttar var X sýknuð af ákærunni þar sem talið var að X yrði ekki dæmd sek um hlutdeild í nauðgunarbroti á grundvelli þess athafnaleysis að hafa einungis horft á samskipti Y og A. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að Landsréttur hefði látið hjá líða að taka rökstudda afstöðu til þess ákæruatriðis er laut að því hvort telja hefði að X hefði veitt atbeina sinn að ætluðu nauðgunarbroti Y með því að liggja við hlið hans og A meðan á kynferðismökum stóð þannig að félli undir verknaðarlýsingu 194. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940. Þá kom fram að í röksemdum hins áfrýjaða dóms hefði hvorki farið fram mat á fyrirliggjandi upplýsingum um þroskahömlun A og þýðingu hennar við úrlausn málsins né að tekin hefði verið afstaða til þess hvort máli skipti í því samhengi að atvik hefðu gerst í lokuðu herbergi á heimili Y og X. Einnig yrði ekki séð að við mat á sakargiftum í dóminum hefði verið tekin afstaða til þýðingar þess liðsmunar sem Y hefði skapað gagnvart A með nærveru sinni. Var því talið af röksemdum í dóminum yrði ekki ráðið að fram hefði farið heildarmat á þeim atvikum sem sönnuð þótti og aðstæðum eins og þeim hefði verið lýst í ákæru við úrlausn um hvort háttsemi X uppfyllti við þær aðstæður lágmarksskilyrði hlutdeildar í nauðgunarbroti. Hefðu því með hinum áfrýjaða dómi ekki verið uppfyllt skilyrði f. liðar 2. mgr. 183. gr., sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var af þessum sökum talið óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Tveir dómenda skiluðu sératkvæði og vildu staðfesta hinn áfrýjaða dóm og sýkna X.

 

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.