Sakfelling og refsiþynging í kynferðisbrotamáli

17.09.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm þar sem X var meðal annars sakfelldur fyrir tvö kynferðisbrot gegn þáverandi eiginkonu sinni, blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrot gagnvart syni sínum og fyrir rúmlega 950 brot gegn nálgunarbanni. Fyrir Hæstarétti krafðist X aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms á þeim grunni að Landsrétti hafi borið að leggja framburð sonar hans til grundvallar við sönnunarmatið. Í hinum áfrýjaða dómi var vísað til þess að ekki hefði komið fram í þingbók að gætt hefði verið ákvæðis b. liðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um rétt vitnis til að skorast undan að gefa skýrslu vegna skyldleika við ákærða og af þeim sökum var ekki byggt á skýrslu hans. Engu að síður var X sakfelldur fyrir þann ákærulið á grundvelli framburðar annarra vitna og gagna frá Barnahúsi. Í dómi Hæstaréttar var talið að Landsréttur hefði réttilega komist að þeirri niðurstöðu að annmarki hefði verið á skýrslutökunni af fyrrnefndum sökum. Þá var meðal annars tekið fram að þegar vitni hefði ekki gefist kostur á að skorast undan því að gefa skýrslu og það hefði tjáð sig um málsatvik ákærða í hag yrði sú skýrsla lögð til grundvallar við sönnunarmatið. Af framburði sonar hans var talið fráleitt að hann væri ákærða í hag heldur þvert á móti. Var því vísað til þess að það hefði síður en svo komið að sök fyrir X að Landsréttur hefði ekki byggt á skýrslu hans og ómerkingarkröfu X því hafnað. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ásetningur X til þeirra fjöldamörgu brota sem hann var sakfelldur fyrir var styrkur og einbeittur og að annað nauðgunarbrotið hefði verið framið á sérstaklega meiðandi hátt. Aftur á móti var talið að lagaheimild skorti til að taka upp pólska skilorðsdóma sem X hafði hlotið. Þá var það einnig til refsiþyngingar að brotin beindust gegn eiginkonu hans og syni þeirra. Var X gert að sæta fangelsi í 6 ár. Þá var honum gert að greiða fyrrverandi eiginkonu sinni miskabætur.

 

 

Dóminn í heild sinni mál lesa hér.