Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir kveðja Hæstarétt

31.08.2020

Þorgeir Örlygsson forseti Hæstaréttar og Greta Baldursdóttir hæstaréttardómari láta af störfum við Hæstarétt í dag. Þorgeir og Greta voru skipuð dómarar við Hæstarétt 1. september 2011. Þorgeir og Greta eiga að baki langt og farsælt starf. Þorgeir var borgardómari í Reykjavík 1986 til 1987, prófessor í kröfurétti og eignarétti við lagadeild Háskóla Íslands 1987 til 1999, ráðuneytisstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum 1999 til 2003 og dómari við EFTA-dómstólinn í Lúxemborg 2003 til 2011. Þorgeir var kjörinn forseti Hæstaréttar til fimm ára frá 1. janúar 2017. Greta var dómarafulltrúi við embætti yfirborgarfógetans í Reykjavík 1980 til 1988, settur borgarfógeti 1988 til 1992, deildarstjóri við embætti sýslumannsins í Reykjavík 1992 til 1993, skrifstofustjóri Héraðsdóms Reykjavíkur 1994 til 1999 og dómari hjá þeim dómstóli 1999 til 2011. Starfsfólk Hæstaréttar þakkar Þorgeiri og Gretu samfylgdina og óskar þeim velfarnaðar á nýjum slóðum.