image

Miklar breytingar á dómskerfinu á þessum fjörutíu árum

09.06.2020

Helgi Ingólfur Jónsson hæstaréttardómari lét af störfum við Hæstarétt Íslands 1. maí 2020 eftir um átta og hálfs árs setu í dómnum. Hann var varaforseti réttarins frá 2016.

 

-„Ætli það hafi ekki fyrst og fremst verið af praktískum ástæðum sem ég hóf nám í lögfræði strax að loknu stúdentsprófi frá MR vorið 1975„ segir Helgi Ingólfur í viðtali í tilefni af því að hann lét af störfum í Hæstarétti. „Ég tók þessa ákvörðun algjörlega á eigin spýtur og útskrifaðist svo frá HÍ 1980.

Í náminu hafði ég mestan áhuga á refsirétti og skaðabótarétti. Eftir nám vann ég á lögmannstofu hér í borg í sumarafleysingum, en í október sama ár varð ég fulltrúi hjá bæjarfógetanum á Sauðárkróki og sýslumanninum í Skagafjarðarsýslu og var þar í tvö og hálft ár.

Þegar maður rifjar það upp og ber saman við nútímann þá er svolítið gaman að segja frá því að þegar ég hóf störf þarna tíðkaðist að nýútskrifuðum lögfræðingum var varpað beint í djúpu laugina og annaðhvort syntu þeir eða sukku. Fljótlega eftir að ég kom norður þurfti ég t.d. að dæma í nokkuð vandasömu máli sem varðaði skaðabótaábyrgð barna og skömmu síðar í nauðgunarmáli. Þannig að það var ekkert annað gera en að standa sína plikt“ segir Helgi Ingólfur.

 

Þetta var fyrir „Jónsmálið“ svokallaða 1989 og

„aðskilnaðardóminn“ 1990

 

-Á þessum tíma voru bæjarfógetar og sýslumenn með dómsvald. Málin voru tekin fyrir á lítilli skrifstofu og boðið upp á að afgreiða lögreglusektir og önnur mál inni í henni þar sem ég sem fulltrúi bæjarfógeta og sýslumanns og viðkomandi einstaklingur vorum einir. Þarna var enginn dómsalur eða neitt slíkt. Menn komu t.d. úr sveitinni, stundum langa leið, og þurftu kannski að fá veðbókarvottorð eða ökuskírteini, og þá var ekki um annað að ræða en að ganga frá því á staðnum, svo menn færu nú ekki fýluferð í kaupstaðinn. Stundum var mikil pressa frá stærri fyrirtækjum í bænum, þar sem mikið lá við að fá veðbókarvottorð sem allra fyrst með skömmum fyrirvara til að geta framvísað vegna umsóknar um lán. Þetta gátu verið margar blaðsíður, handskrifaðar, en varð að gera „strax og helst fyrr“, eins og sagt var á Króknum. Þannig var þetta á þeim tíma og kemur eflaust mörgum spánskt fyrir sjónir í dag.

 

Þetta var fyrir svonefnt „Jónsmál“ árið 1989 og „aðskilnaðardóm“ í janúar 1990, en á þessum tíma þótti ekkert athugavert við það þótt sýslumenn og bæjarfógetar færu bæði með stjórn lögreglu og dómsvald. Þeir gátu sent mönnum sektarboð, en ef menn vildu ekki ganga að því var málið sent til ríkissaksóknara. Og síðan kom kannski ákæra til baka og þá gat sami maður og hafði sent sektarboðið dæmt í málinu. Á þessum tíma fékkst maður nánast við allt, bæði á sviði einkamála og sakamála. Þarna komu lögmenn og fóru fram á fjárnám í eignum skuldara, stundum með skömmum fyrirvara, og þá þurfti að sinna þeim erindagerðum þegar í stað. Þannig að þetta var mjög fjölbreytilegt og má því segja að þetta hafi verið góður byrjunarreitur fyrir ungan og áhugasaman lögfræðing.

 

Síðan lá leiðin í Sakadóm

 

Vorið 1983 fór ég svo í Sakadóm Reykjavíkur og varð þar dómarafulltrúi. Yfirsakadómari var þá Halldór Þorbjörnsson, sem skömmu síðar fór í Hæstarétt og við tók Gunnlaugur Briem. Í Sakadómi fékkst maður sem fulltrúi við ýmis minniháttar sakamál, það var mikið verið að afgreiða dómsáttir, þar sem herbergisfyrirkomulagið, eins og ég kalla það, var enn við lýði. Þá voru menn í mjög miklu návígi við fólk og sumir fóru að trúa manni fyrir hinum ýmsu málum sínum. Þarna mynduðust stundum svolítil persónuleg tengsl, en allt gekk þetta nú vel fyrir sig. Síðan fór maður að dæma í minni háttar sakamálum og var fljótlega settur á svokallaða gæsluvakt, sem fólst í því að afgreiða beiðnir lögreglu um um rannsóknarúrskurði, eins og t.d. gæsluvarðhaldsbeiðnir og beiðnir um húsleit. Á þessum tíma þótti ekkert tiltökumál að lögum samkvæmt þurfti ákæruvaldið sjaldnast að mæta fyrir dómi og standa fyrir ákæru sinni. Það gerðist bara í allra alvaralegustu málunum. Það mundi teljast harla sérkennilegt í dag ef ákæruvaldið mætti ekki í réttarsal í málum sem það hefur höfðað. Þetta þótti hinsvegar alveg eðlilegt á sínum tíma. Þá má nú geta þess til gamans að þarna var farið með barnsfaðernismál. Menn sem voru taldir feður óskilgetinna barna voru boðaðir eins og sakamenn vegna þess að þeir höfðu verið lýstir feður að börnum. Stundum þurfti að láta taka úr þeim blóðsýni í sönnunartilgangi og þá gat stundum orðið dálítill eltingarleikur við að ná mönnum. En þetta var mjög skrýtið, fannst mér, að mál af þessu tagi skyldu vera í sakadómi.

 

 

-Þetta hefur verið fjölbreytt málaflóra sem þú hefur fengist við í upphafi ferils

þíns, fyrst á Króknum og hér syðra?

-Já þetta var mjög fjölbreytt málaflóra. Þarna í Sakadómi var raunverulega allt litrófið í sakamálum, nema fíkniefnamál, því þá var sérstakur dómstóll í fíkniefnamálum í Reykjavík með aðsetur í lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Á þessum tíma voru dómstólarnir í Reykjavík fjórir; borgarfógetaembættið, borgardómaraembættið, sakadómaraembættið, svo og sakadómur í ávana- og

fíkniefnamálum.

 

Árið 1985 var ég settur sakadómari, en var síðan deildarstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu lungað úr árinu 1986. Þar ég hafði m.a. með að gera málefni dómstóla og sýslumannsembætta, svo og gjafsóknarmál.

Nú svo var ég skipaður sakadómari 1. desember 1986 og fór þar með að fást við hin stærri mál. Fékkst ég við þau í sex ár sem skipaður dómari eða til 1. júlí 1992, en það var þá sem hinn merki aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði öðlaðist lagagildi og þá sameinuðust dómstólarnir í Reykjavík í einn dómstól, Héraðsdóm Reykjavíkur. Þar bauðst mér að skipta um málaflokk og fara yfir í einkamál. Tók ég því fegins hendi því ég hafði meira og minna í þessi 12 ár verið að fást við sakamál. Slík mál geta tekið ansi mikið í því þar er oft verið að fjalla um dapurleg örlög manna, bæði brotaþola og hinna ákærðu, sem ég upplifði ansi oft að sjálfir höfðu verið fórnarlömb aðstæðna. Sérstaklega fundust mér taka á kynferðisbrotamál, ekki síst gegn börnum, og manndrápsmál. Þótt maður skynjaði það kannski ekki á sínum tíma þegar þetta stóð yfir þá einhvern veginn læddist þetta aftan að manni og hafði áhrif á mann, þótt síðar yrði.

 

Valdi einkamálin

 

Ég tók þarna þá ákvörðun að fara í einkamál og sé síður en svo eftir því. Þarna í Héraðsdómi Reykjavíkur varð eiginlega nýtt upphaf og ákaflega gaman að fást við nánast nýtt svið mála. Þarna opnaðist eiginlega að mörgu leyti nýr heimur fyrir manni. Ég var fyrst í almennum einkamálum, en síðan fór ég að fást við svonefnd ágreiningsmál, eða mál sem varða t.d. aðfarargerðir, gjaldþrotaskipti, dánarbússkipti, þinglýsingar og svo framvegis. Í þeim málum var ég í tvö ár, en fór svo aftur að fást við almenn einkamál. Árið 2003 hætti fyrsti dómstjóri dómstólsins, Friðgeir Björnsson, og þar með losnaði sú staða. Mér hefur alltaf fundist spennandi að takast á við nýjar áskoranir og gaf kost á mér í þetta starf. Það endaði með því að ég hlaut kosningu dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur og var skipaður dómstjóri frá 1. júlí 2003. Ég varð þannig annar dómstjórinn við dómstólinn. Mér fannst ákaflega lifandi og skemmtilegt starf að vera dómstjóri þarna, en jafnframt krefjandi og í mörg horn að líta. Þegar ég byrjaði voru þarna 20 dómarar, auk dómstjóra, en 24 er ég hætti og starfsfólk alls um 55 talsins. Það er gríðarlega mikið starf sem fer fram þarna. Það má kannski líkja þessum dómstól við aðaljárnbrautarstöð, því þarna eru allir málaflokkar og langflest málin. Þetta er langstærsti héraðsdómstóll landsins. Þarna þurfti bæði að huga að dómurum og öðru starfsfólki. Það var með mér þarna lengst af prýðilegur skrifstofustjóri, Ólöf Finnsdóttir, sem er núna framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar. Við fórum í það að taka alla stjórnsýslu þarna í gegn. Þetta var töluvert mikil vinna, en skemmtileg og árangursrík. Ég hafði þá stefnu að vera ekki mikið að bera mínar hugsanir og tilfinningar á torg, heldur vann þetta mikið í einrúmi, í góðu samstarfi við skrifstofustjóra. Ég lít svo á að ef yfirmaður lætur lítið fyrir sér fara, en sé samt ávallt aðgengilegur, þá sé það til þess fallið að starfsfólki líði vel og beri traust til hans. Dómstjórastarfið var  mjög bindandi. Maður var nánast á vaktinni allan ársins hring, þótt maður hafi kannski farið í sumarfrí í mánuð í mesta lagi. Þetta er mjög krefjandi starf og líklegast enginn sem gerir sér grein fyrir því heldur en sá sem reynt hefur.

 

Hrunið á vakt hans sem dómstjóri

 

Síðan æxluðust mál þannig að á minni vakt varð þetta mikla efnahagshrun haustið 2008. Það var mikið högg og maður sá fyrir sér að þarna þyrfti nú heldur betur að taka til hendinni og skipuleggja allt upp á nýtt. Árið 2009 fer þetta nú að síga í gang allt saman, öll þessi mál á hendur hinum föllnu fjármálafyrirtækjum og mál þeirra á hendur öðrum. Þarna voru skipaðar slitastjórnir og maður hélt marga fundi með þeim til að skipuleggja hvernig væri best að taka á málum. Í fyrstu voru þetta kröfur á hendur hinum föllnu fjármálafyrirtækjum eða bönkunum í hundruða og síðan þúsundatali. Þarna voru alveg gríðarlegir hagsmunir undir, milljarðamál mörg hver. Síðan má nefna svokölluð gengismál, sem streymdu til dómstólanna árum saman. Ég sá reyndar um daginn að það er enn þann dag í dag eitt slíkt mál eftir sem veitt hefur verið áfrýjunarleyfi í fyrir Hæstarétti. Að síðustu fóru svo að koma þessi stóru sakamál sem reyndar fóru nú ekki af stað fyrr en ég hvarf frá störfum í héraðsdómi í nóvember 2011. Þá var þarna í gangi svonefnt „níumenningamál“, en þar höfðu níu manns verið ákærðir fyrir árás á Alþingi í kjölfar hrunsins. Þá fylltist dómstóllinn af æstu fólki í hverju þinghaldi.  Voru fjölmargir lögreglumenn hvert sinn í viðbragðsstöðu í dómstólnum og þurftu stundum að láta til sín taka. Munaði stundum litlu að allt færi úr böndunum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði sérstöðu hvað hrunmálin varðaði því þessi mál lentu meira og minna á honum. Á þessum tíma urðu vinnudagarnir langir, dómurum fjölgaði aðeins, en ríkið var þá illa statt fjárhagslega og erfitt að reka dómstólinn með þeim fjárframlögum sem fengust. Það má segja að hver króna hafi verið spöruð til hins ýtrasta, sem hefur reyndar verið regla hjá dómstólunum, en þetta hafa ávallt verið mjög aðhaldssamar stofnanir.

 

Ég tók sæti í dómstólaráði árið 2003 og átti þar sæti í ein átta ár. Þar hafði maður yfirsýn yfir alla dómstóla landsins. Þetta var frekar vanmáttug stofnun, með einn starfsmann, þótt menn reyndu að gera sitt besta. Eftir að ráðið tók til starfa fór í hönd stanslaus barátta um að fá fullnægjandi fjármagn til reksturs dómstólanna. Sú barátta stóð lengi og alla mína tíð í Héraðsdómi Reykjavíkur. Með nýrri stofnun, dómstólasýslunni, hefur að mínu mati átt sér stað algjör bylting. Þarna er komin alvöru stjórnsýslustofnun og eiginlega í fyrsta skipti sem stjórnsýslu dómstólanna er sinnt eins og vera ber. Allir dómstólar landsins heyra undir stofnunina. Stofnun dómstólasýslunnar var því, að mínu áliti, gríðarlegt framfaraskref.

 

-En þú ert þarna i Héraðsdómi Reykjavíkur í ein átta ár?

 

-Já frá 1. júlí 1992 og verð dómstjóri 2003, en í nóvember 2011 fer ég í Hæstarétt sem settur hæstaréttardómari og er þar til loka ágúst 2012. Þá voru laus til umsóknar tvö embætti hæstaréttardómara. Ég sótti um og var svo skipaður hæstaréttardómari frá 1. október 2012.

- Þú ert sem sé í héraðsdómi þegar allt fer þar á fullt vegna hrunsins?

Þetta voru hálfgerðar hamfarir má segja þarna eftir hrunið og tók mikið á dómara og annað starfsfólk dómsins. Síðustu þrjú árin sem dómstjóri var það þannig að ég fór að vakna klukkan fjögur á nóttunni og var komin í vinnuna klukkan fimm á morgnana til þess að anna þeim verkefnum sem fyrir lágu. Ég var að reyna að gera þetta eins vel og ég gat, var alltaf á staðnum, frá morgni til kvölds, og vildi þannig leggja mitt af mörkum til þess að hlutirnir gengju upp.

 

- Þegar þú horfir til baka á þennan hamfaratíma ?

 

-Jú þetta var mjög erfiður tími satt best að segja og mönnum féllust nú bara stundum hendur. Ég taldi það vera hluta af mínum starfsskyldum að stappa stálinu í fólk, hvetja það til dáða og leitast við taka æðruleysið á þetta allt saman.

 

Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins höfðu efasemdir

 

- En hvernig finnst þér þá til hafa tekist í þessum ósköpum?

 

-Það er áhugavert að velta því fyrir sér. Ég minnist þess, fyrst þú spyrð að þessu, að það komu hingað fulltrúar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þessir fulltrúar höfðu mjög miklar efasemdir um að íslenskir dómstólar og lögmenn myndu standa undir þessu mjög svo erfiða verkefni, þ.e. að kljást við þennan gríðarlega málafjölda og flóknu mál. Ég sagði þeim hinsvegar að ég væri þess fullviss að okkur myndi takast þetta.

 

Ekki minnst á hlut dómstólanna tíu árum eftir hrunið

 

Þegar ég lít til baka þá er ég að yfirgefa héraðsdóm þegar allt er þar á fullu og kem svo hingað í Hæstarétt þegar allt er þar á yfirsnúningi vegna þessara mála. Það álag stóð yfir í nokkur ár. Ég tel alveg með ólíkindum hvað dómstólarnir í raun og veru stóðu sig vel í þessu gríðarlega erfiða verkefni sem þeir þurftu að takast á hendur. Ég varð því svolítið undrandi á því þegar hrunið var gert upp, eftir að tíu ár voru liðin frá því það reið yfir, að það var ekki minnst orði á hlut dómstólanna í uppgjöri á því. Á íslenska dómstóla hefur aldrei reynt í neinni líkingu við það sem raunin varð eftir hrunið. Er vonandi að svo verði aldrei aftur.

 

-Það má eiginlega segja að hrunmálin hafi fylgt þér neðan af Lækjartorgi og

yfir Arnarhól ?

 

-Já það má eiginlega segja það því hér gekk maður inn í hringiðuna og hér rigndi inn þessum hrunmálum og herbergið hjá manni var fullt af málum af ýmsu tagi. Það var mjög mikið af þessum svokölluðu x-málum, ágreiningsmálum vegna gjaldþrotaskipta, kröfum í bú föllnu bankanna og annarra fjármálafyrirtækja, sem voru í gangi í nokkur ár. Síðan komu þessi gengismál náttúrulega hingað, afleiðumál af ýmsu tagi og svo þessi risastóru sakamál. Maður var í dómsal hér þrisvar í viku í munnlega fluttum málum, yfirleitt með atkvæði einu sinni í viku. Síðan komu kærumálin, bæði í einkamálum og sakamálum. Fjórir dómarar voru með kærumál í sakamálum, ásamt því að fást við kærumál í einkamálum. Það komu kannski allt upp í 10 kærumál í sakamálum á viku, sem þurfti að afgreiða með hraði, þannig að menn geta ímyndað sér hverskonar álag það hefur verið hér á þessum tíma þegar allt er talið. Það sem stóð upp úr var þessi gríðarlega samstaða innan dómarahópsins og þeirra hæfu aðstoðarmanna sem hafa verið við Hæstarétt allan þann tíma sem ég hef verið hérna. Hið sama á við um annað starfsfólk dómstólsins. Allt þetta fólk var einhuga um að láta hlutina ganga upp.

 

- En hvað með önnur mál hér í Hæstarétti sem þú hefur einkum fengist

við?

 

-Ég hef alltaf haft áhuga á refsirétti og sakamálum. En af því að ég skipti yfir í einkamálin 1992 hafði ég líka öðlast töluverða reynslu í þeim málaflokki þegar ég kom í Hæstarétt. Dómarar þurfa að sinna öllum málum og setja sig inn í þau. Getur það stundum kostað mikla vinnu, en dómarinn á ekkert val, honum ber skylda til þessa. Dómarar eru það sem kallað er „generalistar“, þeir þurfa því að afla sér hverju sinni þekkingar á viðkomandi sviði, hafi þeir hana ekki fyrir, sem gerir þeim kleift að sinna hinu ábyrgðarmikla starfi sínu á fullnægjandi hátt. Má hér minna á orð hins fróma manns, Ármanns heitins Snævarr: „Lögfræðinni er ekkert mannlegt óviðkomandi.“ Í raun og veru reynir á allt mannlífið í lögfræðinni. Málin sem maður er búinn að fást við í áranna rás eru ótrúlega fjölbreytileg og það sem er svo spennandi við dómarastarfið er að þú ert í raun og veru stöðugt að fást við nýjar áskoranir. Starfið er því í senn gefandi og krefjandi. Þá hafa málin sífellt orðið flóknari eftir því sem lengra hefur liðið á tíma minn sem dómari. Sem dæmi má nefna að þá kom alveg nýr vinkill upp í þessum hrunmálum. Dómarar höfðu, þori ég að fullyrða, ekki verið að spá mikið í svokallaðar afleiður. Það var töluvert verkefni að átta sig á út á hvað þær ganga, sem og á þeim fjölbreytilegu alþjóðlegu viðskiptum sem áttu sér stað fyrir hrun, en slík mál höfðu ekki að neinu marki áður komið til kasta íslenskra dómstóla.

 

Varaforseti frá 2016

 

Ég var kjörinn varaforseti réttarins árið 2016 og gegndi þeirri stöðu þar til ég hætti 1. maí. Hlutverk varaforseta er að sinna störfum forseta þegar hann er ekki viðlátinn. Síðan hafa forseti og varaforseti sótt fund hæstaréttardómara á Norðurlöndum, svonefndan forsetafund, sem haldinn er árlega. Það hefur verið bæði mjög fróðlegt og skemmtilegt að hitta kollega annars staðar á Norðurlöndum og fylgjast með því hvað þeir eru að fást við hverju sinni og hvað þar er efst á baugi. Þetta hefur verið mjög góður vettvangur til að ræða gang dómsmála á Norðurlöndum. Þessi lönd eiga margt sameiginlegt, sérstaklega eigum við mjög margt sameiginlegt með Dönum og Norðmönnum. Fyrirkomulagið er aðeins öðru vísi hjá Finnum og Svíum að því leyti að þar eru sérstakir stjórnsýsludómstólar, þar með taldir hæstaréttir á því sviði, en slíkir dómstólar eru ekki á hinum Norðurlöndunum.

 

Undruðust málafjöldann í Hæstarétti

 

- Hafa hrunmálin hér kom mikið til umræðu á þessum sameiginlegu

fundum?

 

-Já þau hafa gert það og dómarar annars staðar á Norðurlöndunum hafa undrast þá skilvirkni sem hér hefur viðgengist. Áður en Landsréttur tók tók til starfa 1. janúar 2018 undruðust hæstaréttardómarar á Norðurlöndum, sem við hittum á áðurnefndum forsetafundum, þennan gríðarlega málafjölda sem Hæstiréttur Íslands fékkst við hin síðari ár, eða 860 – 70 innkomin mál á hverju ári, en skýringin á því er að sjálfsögðu sú að áður en Landsréttur tók til starfa var Hæstiréttur bæði áfrýjunardómstóll og fordæmisgefandi dómstóll. Það er í rauninni aðeins eftir tilkomu Landsréttar að við getum farið að bera Hæstarétt Íslands saman við æðstu dómstólana annars staðar á Norðurlöndum, bæði hvað varðar hlutverk og málafjölda. Þetta er mikil breyting og það er búið að berjast fyrir þessari réttarbót áratugum saman. Þetta nýja skipulag er að þróast smám saman og tekur væntanlega ekki á sig endanlega mynd fyrr en eftir eitt eða tvö ár eða svo. Í upphafi var gert ráð fyrir að Hæstiréttur myndi dæma í 40 – 50 málum á ári hverju eftir breytinguna og mér sýnist nú þegar að það ætli að ganga eftir.

Mér finnst mjög skemmtilegt að hafa upplifað allar þessar breytingar á dómskerfinu í þessi tæpu 40 ár sem ég hef að mestu leyti sinnt dómstörfum, eða allt frá því ég byrjaði sem ungur fulltrúi á Sauðárkróki og endaði svo hér í Hæstarétti. Fyrst „herbergjafyrirkomulagið“ þegar mál voru afgreidd inn á skrifstofu, þær miklu réttarfarsbreytingar sem áttu sér stað 1992 við aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði og loks breytt hlutverk Hæstaréttar á árinu 2018. Þá fannst mér ákaflega gaman að eiga þátt í því að undirbúa 100 ára afmæli Hæstaréttar sem haldið var upp á 16. febrúar síðastliðinn.

 

Mér þykir þetta hús, sem rétturinn hefur haft aðsetur í frá árinu 1996, alveg sérstaklega vel hannað til þeirrar starfsemi sem hér fer fram. Það hefur verið mjög gott að að vinna hér. Vil ég taka sérstaklega fram að ég hef notið þeirra forréttinda að vinna hér með ákaflega hæfu og skemmtilegu fólki, átt hér góðar stundir og hlakkað dag hvern til að mæta í vinnuna þótt oft og tíðum hafi dagarnir verið langir og strembnir. Ég kveð því þessa stofnun með hlýhug og virðingu, segir Helgi Ingólfur Jónsson að lokum.

 

Auk dómarastarfa hefur Helgi Ingólfur Jónsson sinnt ýmsum trúnaðarstörfum á sviði laga og réttar. Var varaforseti Félagsdóms í 10 ár, átti sæti í áfrýjunarnefnd samkeppnismála í allmörgum málum, var í nefnd um dómarastörf í sex ár, gjafsóknarnefnd í 12 ár, stjórn Dómarafélags Íslands í 11 ár, þar af formaður í fjögur ár, og Lögfræðingafélags Íslands í 15 ár, þar af formaður í tvö ár, settur umboðsmaður Alþingis í þremur málum og formaður gerðardóms í nokkrum málum, auk fleiri starfa. Þá gegndi hann um langt skeið trúnaðarstörfum hjá dómstólum íþróttahreyfingarinnar hér á landi.