Dómur um kröfu samkvæmt samningi til hagsbóta fyrir þriðja aðila

08.06.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem deilt var um kröfu á grundvelli samnings milli M og 66N. S og E höfðu upprunalega gert samninginn árið 2011 um kaup þess fyrrnefnda á 51% hlutafjár í S hf. Tóku M og 66N síðar hvort um sig yfir réttindi og skyldur kaupanda og seljanda samkvæmt samningnum. Í honum var meðal annars kveðið á um að seljandi ábyrgðist gagnvart kaupanda að kaupréttur fyrrum forstjóra S hf. væri fallinn úr gildi og að forstjórinn ætti ekki kröfur á hendur félaginu. Með dómi Hæstaréttar 25. september 2014 í máli nr. 84/2014 var staðfest að kaupréttur fyrrum forstjóra S hf. hefði ekki verið fallinn úr gildi og félaginu gert að greiða honum tiltekna fjárhæð. S hf. greiddi kröfuna og höfðaði í kjölfarið dómsmál gegn M til endurgreiðslu á fjárhæðinni. Með dómi Hæstaréttar 23. mars 2017 í máli nr. 464/2016 var málinu vísað frá dómi þar sem S hf. hefði ekki verið aðili að fyrrnefndum samningi þótt hann hafi varðað hagsmuni félagsins. Í kjölfar dómsins höfðaði 66N mál þetta til heimtu þess kostnaðar sem féll á S hf. vegna framangreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 84/2014. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skuldbindingin samkvæmt samningnum hefði falið í sér eiginlegan þriðjamannslöggerning sem stofnað var til í lögskiptum aðilanna og til hagsbóta fyrir S hf. 66N hefði því verið bær til þess að sækja þá ætluðu hagsmuni sem fælust í samningnum á hendur M en til hagsbóta fyrir S hf. Auk þess hefði málatilbúnaður 66N verið nægilega skýr um þennan grundvöll. Þá taldi Hæstiréttur að 66N hefði átt lögvarða hagmuni af niðurstöðunni enda væri óumdeilt að hann hefði með umræddum samningi keypt 51% hlut í S hf. Í ljósi þess að samningurinn hefði falið í sér eiginlega þriðjamannslöggerning og að fyrir hendi væru lögvarðir hagsmunir 66N var hann með réttu talinn eiga aðild að málinu. Þá var kröfum M um að málið hefði verið höfðað á röngu varnarþingi og að nauðsyn hefði verið til samaðildar 66N og S hf. til sóknar í málinu hafnað. Taldi Hæstiréttur að krafa á grundvelli samningsins hefði stofnast sem M bæri að greiða S hf. með nánar tilgreindum dráttarvöxtum.

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.