Sakfelling í manndrápsmáli

13.05.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í sakamáli þar sem V var sakfelldur fyrir brennu og manndráp með því að hafa valdið eldsvoða í íbúðarhúsnæði með þeim afleiðingum að tvær manneskjur létust. Í dómi Hæstaréttar kom fram að V hafi ekki getað dulist hverjar afleiðingar þess að kveikja eld í stofu íbúðarhúsnæðisins gætu orðið. V hafi haft raunverulega vitund um refsinæmar afleiðingar háttsemi sinnar en engu að síður látið það sér í léttu rúmi liggja hvort eldurinn breiddist út með þeim afleiðingum að mönnum yrði lífsháski búinn, stórfellt eignatjón yrði og líklegt væri að þeir sem væru á efri hæð hússins kæmust ekki undan og biðu bana. Var V gert að sæta fangelsi í 14 ár. Þá var honum gert að greiða börnum og foreldrum hinna látnu bætur.

 

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.