Dómur um túlkun viðskiptabréfsreglna

04.05.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem deilt var um hvort A ehf. bæri greiðsluskyldu gagnvart L ehf. vegna ofgreiddra vaxta af skuldabréfi, sem S ehf. hafði upprunalega gefið út til D hf., en A ehf. síðar eignast og L ehf. tekið að sér greiðslu með skuldskeytingu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við framsal viðskiptabréfa væri gerð undantekning frá þeirri meginreglu kröfuréttar við kröfuhafaskipti að framsalshafi öðlist ekki betri rétt á hendur skuldara en framseljandi átti. Skuldari viðskiptabréfs geti þannig glatað mótbáru gegn grandlausum framsalshafa, ef hún kemur ekki fram á bréfinu. Í ljósi þess að reglurnar um viðskiptabréf fela í sér veruleg frávik frá almennum reglum verði að gera þann áskilnað að ótvírætt sé að krafa sé viðskiptabréfskrafa. Taldi Hæstiréttur að til þess að þessu skilyrði væri fullnægt hefði hinn nýi skuldari þurft að lýsa því yfir einhliða og skilyrðislaust að hann lofaði að greiða kröfuna og hefði sú skriflega yfirlýsing þurft að koma fram á bréfinu sjálfu til þess að það gæti talist skuldabréf eftir skuldaraskiptin. Það var því ekki talið nóg að L ehf. hafi undirritað sérstaka yfirlýsingu á öðru skjali þess efnis að hann gengist undir öll ákvæði viðkomandi bréfs og skuldbindingar samkvæmt því. Af þessum sökum var talið að krafan hafi breyst við skuldaraskiptin úr því að vera krafa samkvæmt skuldabréfa í almenna fjárkröfu. Var L ehf. því ekki talinn hafa glatað mótbárum við framsal kröfunnar og gat þar af leiðandi haft uppi frekari kröfur vegna ofgreiðslu vaxta af skuldabréfinu gagnvart A ehf.

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.