Skert starfsemi dómstólanna vegna COVID-19

13.03.2020

Skert starfsemi dómstólanna vegna COVID-19

Í ljósi neyðarstigs almannavarna og takmarkana á samkomuhaldi á grundvelli sóttvarnarlaga hefur verið ákveðið að næstu fjórar vikur verði starfsemi héraðsdómstólanna, Landsréttar og Hæstaréttar takmörkuð sem hér segir í því skyni að tryggja nauðsynlega starfsemi og að hún geti farið fram eftir því sem að fært þykir hjá hverjum dómstól.

 

Héraðsdómstólar

Eftirtalin mál verða tekin fyrir:

 • Krafa lögreglu og héraðssaksóknara um gæsluvarðhald og aðrar rannsóknaraðgerðir
 • Barnaverndarmál
 • Nauðungarvistanir og önnur mál eftir lögræðislögum sem þola ekki bið
 • Aðalmeðferðir í sakamálum þar sem ákærði sætir gæsluvarðhaldi
 • Munnlegur flutningur mála þar sem aðilar og vitni koma ekki til skýrslugjafar nema fram komi ósk um frest
 • Regluleg dómþing í einkamálum
 • Beinar aðfarargerðir
 • Kröfur um gjaldþrotaskipti þar sem fyrirkall hefur þegar verið birt. Jafnframt slíkar kröfur að beiðni skuldara sjálfs og þær kröfur sem ekki þola bið vegna hættu á réttarspjöllum. Enn fremur þau mál sem þegar hafa verið þingfest og eru í fresti
 • Sakamál þar sem fyrirkall hefur verið birt og önnur sakamál sem ekki þola bið

Tekið skal fram að milliþinghöld í sakamálum og málum sem sæta meðferð samkvæmt ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 falla ekki niður. Þó getur dómari að höfðu samráði við lögmenn tekið aðra ákvörðun eftir því sem fært þykir í hverju máli fyrir sig.

 

Landsréttur

Eftirtalin mál verða tekin fyrir:

 • Krafa lögreglu og héraðssaksóknar um gæsluvarðhald og aðrar rannsóknaraðgerðir
 • Barnaverndarmál
 • Nauðungarvistanir og önnur mál eftir lögræðislögum sem þola ekki bið
 • Aðalmeðferðir í sakamálum þar sem ákærði sætir gæsluvarðhaldi
 • Munnlegur flutningur mála þar sem aðilar og vitni koma ekki til skýrslugjafar nema fram komi ósk um frest

Hæstiréttur

 • Málflutningur verður með áður boðuðum hætti nema fram komi ósk um frest.

 

Dómstólasýslan