image

Lögmannafélagið færir Hæstarétti gjöf á 100 ára afmæli réttarins

06.03.2020

Því var fagnað 16. febrúar sl. að 100 ár eru liðin frá því Hæstiréttur Íslands tók til starfa. Af því tilefni færði Lögmannafélag Íslands (LMFÍ) réttinum nýlega að gjöf höggmynd eftir Helga Gíslason myndhöggvara. Verkið sem er afsteypa úr bronsi nefnist „Hugur“. Í ávarpi sem Berglind Svavarsdóttir formaður LMFÍ flutti, þegar hún ásamt öðrum stjórnarmönnum í félaginu afhenti Hæstarétti listaverkið að gjöf, kom fram að Helgi Gíslason, sem væri einn okkar fremsti núlifandi myndhöggvari, hefði haldið margar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga, bæði hérlendis og erlendis. Í verkum sínum hefði Helgi einkum fengist við manneskjuna og tilvist hennar og hann legði að eigin sögn í verkum sínum áherslu á að gefa skúlptúrnum hreyfingu og sitt sjálfstæða líf, sem byggði á hinum formrænu og tilfinningalegu tengslum við manninn og verk hans, en skildi sig frá hinum ytri raunveruleika, því þekkjanlega og tilfinningalega. Berglind gat þess einnig að verkið „Hugur“, sem væri tvískipt höfuð, væri táknmynd í sínum margbreytilega skilningi. Það beindi sjónum okkar að ýmsum þeim hughrifum sem við yrðum fyrir og gæti í reynd túlkað allan tilfinningaskalann. Það þurfi að vega og meta ýmis sjónarmið sem oft séu andstæð og yfirleitt séu tvær hliðar á hverju máli eins og dómstólar þekki vel. Verkið geti í senn táknað baráttu milli góðs og ills, ímyndun eða raunveruleika, sekt eða sýknu. Því teldi LMFÍ að verkið „Hugur“ myndi sóma sér vel hjá æðsta dómstól þjóðarinnar.

Hæstiréttur færir LMFÍ þakkir fyrir þessa rausnarlegu gjöf og þann hlýhug í garð réttarins sem gjöfin endurspeglar. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar LMFÍ afhenti Hæstarétti listaverkið að gjöf.