Dómur um mótbárumissi veðsala við fyrirvaralausa greiðslu á kröfu

05.02.2020

Í dag var kveðinn upp dómur þar sem reyndi á túlkun samkomulags lántaka og bankans L hf. um uppgjör á skuldbindingum samkvæmt tveimur veðskuldabréfum og yfirlýsingu sem veðsalinn G gaf út sama dag. Á grundvelli fyrrgreindra skjala innti G af hendi greiðslur sem hún taldi hafa falið í sér greiðslu á kröfu sem hefði að hluta til verið fyrnd. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að í ljósi þess að lántaki, sem var eiginmaður G, hefði áður borið fyrir sig að vextir af lánunum væru fyrndir yrði uppgjörssamkomulagið skilið á þann veg að hann hefði fallið frá þeim andmælum og samið með bindandi hætti um hvernig uppgjörinu yrði hagað. Tekið var fram að G hefði ekki átt beina aðild að umræddu uppgjörssamkomulagi og hefði hvorki gengist undir skyldur samkvæmt því gagnvart L hf. með yfirlýsingu þeirri sem hún hefði gefið út né með öðru móti. Af því leiddi að hún gæti haft uppi allar mótbárur sem fyrir hendi voru gegn kröfum L hf., enda væri sá réttur hennar sem veðþola sjálfstæður eftir meginreglum fjármunaréttar. Hins vegar hefði G, í stað þess að hafa uppi mótbárur gegn kröfum L hf., ráðstafað greiðslum til hans án fyrirvara. Var L hf. sýknaður af kröfum G.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.