Dómur um innherjaupplýsingar og upplýsingaskyldu útgefanda fjármálagerninga

16.12.2019

Í dag var kveðinn upp dómur í máli sem E hf. höfðaði gegn Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu. Krafðist E hf. aðallega ógildingar á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 8. mars 2017 um að félagið hefði brotið gegn 1. mgr. 122. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, með því að hafa látið hjá líða að birta innherjaupplýsingar á tilsettum tíma, og félaginu gerð sekt að fjárhæð 50.000.000 krónur. Þá krafðist félagið endurgreiðslu sektarinnar en til vara að hún yrði felld niður eða lækkuð. Nánar tiltekið var um að ræða upplýsingar sem lágu fyrir í fyrstu drögum að ársfjórðungsreikningi 20. maí 2016 um mikið bætta rekstrarafkomu fyrsta ársfjórðungs 2016. Bæði héraðsdómur og Landsréttur höfnuðu kröfum E hf. Í dómi Hæstaréttar var, líkt og í héraðsdómi, vísað til þess að í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins hefði því verið slegið föstu að einstaka atburður eða aðstæður í þrepaskiptu ferli gæti eitt og sér falið í sér nægjanlega tilgreindar upplýsingar við skilgreiningu innherjaupplýsinga samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði. Drög að árshlutareikningi gætu ótvírætt talist atburður í slíku þrepaskiptu ferli sem miði að samþykkt og birtingu hans. Var jafnframt tekið fram að upplýsingar í afkomuspá E hf. hefðu ekki haft sömu þýðingu við mat á tilvist innherjaupplýsinga og rauntölur úr rekstri. Umræddar upplýsingar hafi því 20. maí 2016 verið nægilega tilgreindar og líklegar einar og sér til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa í E hf. Var einnig vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 122. gr. laganna skuli birta innherjaupplýsingar eins fljótt og auðið er. Tekið var fram að sú þrenging á gildissviði þeirrar reglu, sem ráða mætti af 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik, ætti sér ekki lagastoð í fyrrnefndu lagaákvæði. Tilkynningarskyldan yrði því sem meginregla virk um leið og innherjaupplýsingar myndast. Voru F og Í sýknuð af kröfum E hf. og umrædd ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hélt gildi sínu.


Dóminn í heild sinni má lesa hér.