Dómsmálaráðherra heimsækir Hæstarétt

14.11.2019

Dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, heimsótti Hæstarétt í dag ásamt fylgdarliði og kynnti sér starfsemi réttarins. Í heimsókninni var rætt um starfsemi Hæstaréttar allt frá stofnun hans árið 1920 og þá sérstaklega í ljósi þeirra breytinga sem ný dómstólaskipan, sem tók gildi 1. janúar 2018, hefur haft á starfsemi réttarins. Með þeim breytingum tók Landsréttur við hlutverki Hæstaréttar sem áfrýjunardómstóll en Hæstiréttur dæmir einungis í fordæmisgefandi málum. Á árinu 2018 var fjöldi innkominna mála hjá Landsrétti 941 mál og rétturinn kvað upp dóma í 767 málum. Til samanburðar er þess að geta að á árinu 2016 var fjöldi innkominna mála hjá Hæstarétti 869 og rétturinn kvað upp dóma í 770 málum.

Meðal þess sem fram kom í umræðum í heimsókn dómsmálaráðherra var að á árinu 2018 fékk Hæstiréttur til meðferðar 69 beiðnir um áfrýjunar- og kæruleyfi. Skiptingin var þannig að kæruleyfisbeiðnir voru 22, beiðnir um áfrýjunarleyfi í einkamálum voru 33 og 14 beiðnir í sakamálum. Af þessum 69 beiðnum var 61 beiðni afgreidd á árinu. Hæstiréttur veitti 15 áfrýjunar- og kæruleyfi á árinu og var hlutfall samþykktra beiðna því 24,6%.

Árið 2019 er fyrsta árið sem Hæstiréttur starfar eingöngu samkvæmt nýrri dómstólaskipan. Á fyrri hluta ársins, þ.e. frá 1. janúar til 1. júlí, var skiptingin þannig að kæruleyfisbeiðnir voru 16, beiðnir um áfrýjunarleyfi í einkamálum voru 69 og 22 í sakamálum. Af þessum beiðnum og óloknum beiðnum frá árinu 2018, samtals 115 beiðnir, var 109 beiðnum lokið á fyrri helmingi ársins. Á þessu sama tímabili veitti Hæstiréttur 4 kæruleyfi, 24 áfrýjunarleyfi í einkamálum en ekkert í sakamálum. Hlutfall samþykktra beiðna á fyrri hluta ársins er því 25,7%. Til samanburðar má geta þess að hlutfall samþykktra beiðna í Danmörku og Noregi er yfirleitt á bilinu 12 til 15%.

Á tímabilinu frá 1. júlí til 14. nóvember 2019 hafa Hæstarétti borist 45 áfrýjunar- og kæruleyfisbeiðnir. Af þeim hafa 29 verið afgreiddar og voru 8 beiðnir samþykktar en 21 hafnað. Nú sem stendur eru 16 beiðnir í vinnslu.

Á árinu 2018 kvað Hæstiréttur upp 18 dóma samkvæmt nýrri dómstólaskipan og 32 dóma á fyrri hluta ársins 2019. Skiptingin var sem hér segir:

 

2018

2019 (janúar - júní)

Áfrýjuð einkamál

 0

17

Áfrýjuð sakamál

 1

  2

Kærð einkamál

12

11

Kærð sakamál

  5

  2

Samtals

18

32

 

Á tímabilinu frá 1. júlí til 14. nóvember 2019 hefur Hæstiréttur kveðið upp 12 dóma, 6 í einkamálum og 6 í kærumálum. Samtals hefur Hæstiréttur því dæmt í 44 málum á tímabilinu 1. janúar til 14. nóvember 2019. Málsmeðferðartími áfrýjunar- og kæruleyfisbeiðna, þ.e. sá tími sem líður frá því að beiðni berst og þar til hún er afgreidd er sem hér segir:

 

2018

2019 (janúar - júní)

Kæruleyfisbeiðnir, einkamál

26 dagar

19 dagar

Kæruleyfisbeiðnir, sakamál

  7 dagar

  0

Áfrýjunarleyfisbeiðnir, einkamál

25 dagar

21 dagur

Áfrýjunarleyfisbeiðnir, sakamál

12 dagar

13 dagar

Meðaltal

17,5 dagar

17,6 dagar

 

Málsmeðferðartími áfrýjunar- og kærumála, þ.e. sá tími sem líður frá því að fallist er á beiðni og þar til dómur er kveðinn upp í máli:

 

2018

2019 (janúar til júní)

Kærð einkamál

20 vikur

6 vikur

Kærð sakamál

  0

0

Áfrýjuð einkamál

17 vikur

17 vikur

Áfrýjuð sakamál

  5 vikur

  0

Meðaltal

14 vikur

7,6 vikur