image

Mikill metnaður hefur einkennt starfið í Hæstarétti

04.11.2019

Ég kom í Hæstarétt í ársbyrjun 2009, segir Viðar Már Matthíasson hæstaréttardómari - þá var hrunið skollið á, og hef ég verið í hinu lögfræðilega uppgjöri vegna þeirra mörgu hremminga sem hruninu fylgdu. Það voru miklar annir við dómstólinn allt frá upphafi og þar til haustið 2018, þegar lokið var við að dæma þau mál, sem Hæstarétti var ætlað að dæma, og skotið hafði verið til réttarins fyrir 1. janúar 2018, þegar breyting varð á dómstólaskipuninni með stofnun nýs dómstigs og Landsréttur tók til starfa. 
    Þegar ég varð dómari við Hæstarétt var ég í starfi sem prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Það var veruleg breyting að flytjast úr starfi prófessors og í dómarasæti við Hæstarétt. Ég hef reyndar alltaf unnið mikið, og haft af því ánægju, en málafjöldinn sem þurfti að sinna hér við réttinn var slíkur að það þurfti að halda vel á spöðunum. Vinnutíminn lengdist því enn, þótt mér hafi reyndar fundist mesta breytingin felast í allt öðrum vinnubrögðum en ég hafði vanist í Háskólanum. Það sem var nýtt fyrir mér var hin mikla hópvinna, sem hér fer fram og samstarf við aðra dómara og aðstoðarmenn. Skipulagið hér gerði ráð fyrir málflutningi á ákveðnum tímum, sem þurfti að undirbúa rækilega og síðan málflutningi og samningu og frágangi dóma. Þessi vinna öll var framkvæmd í góðum takti, sem krafðist þess að allir legðu sig fram. Ég tel mig geta fullyrt að okkur hafi allan tímann tekist að vinna vel saman og vera skilvirk og vandvirk í senn. Það skipti líka miklu fyrir vinnuna við réttinn á þessum annasömu tímum að lögmenn, sem reka mál fyrir réttinum, hafa sýnt mikinn metnað við undirbúning og framkvæmd málflutnings, afhent hliðsjónargögn til að auðvelda dómendum vinnu þeirra og flutt mál sín vel. Ég stundaði sjálfur lögmannsstörf áður en ég gerðist prófessor og tel að metnaður og fagmennska lögmanna hafa aukist verulega á síðustu áratugum. Lögmenn brugðist líka almennt vel við því þegar Hæstiréttur leitaðist við að skipuleggja málflutning betur með því að tilkynna, í öllum tilvikum með góðum fyrirvara, um málflutningstíma sem til ráðstöfunar var.  
    Mér hefur fundist Hæstiréttur afar góður vinnustaður. Það er bæði byggingin sem er sérhönnuð fyrir starfsemi réttarins og er mjög þægileg og gott að vinna í henni. Síðan er það samstarfsfólkið sem hér hefur verið einstaklega gott. Allir samstíga um að gera vel. Ég tel mig geta fullyrt að okkur hafi tekist, þrátt fyrir miklar annir, að skila dómaraverkum okkar í háum gæðaflokki.

Hrunmálin voru umfangsmikil
- Eftirmál hrunsins, að því leyti sem þau komu til kasta Hæstaréttar fólust í miklum fjölda dómsmála, sem mörg voru viðamikil. Auk málaflokka, sem segja má að séu hefðbundnir við dómstólana, er unnt að segja að eftirmál hrunsins hafi einkum birst í þremur flokkum mála, sem bættust við þá sem fyrir voru. Í fyrsta lagi urðu mjög mörg dómsmál til, þegar hin föllnu fjármálafyrirtæki, sem voru undir slitum, leituðust við að krefja þá, sem skulduðu þeim, um greiðslu. Margir höfðu stofnað til mikilla skulda fyrir hrun og veðsett eignir sínar. Hækkuðu svonefnd gengislán en einnig venjuleg verðtryggð lán, á meðan verðmæti eigna rýrnaði. Margir áttu því um sárt að binda fjárhagslega þegar sótt var að þeim um að standa við skuldbindingar sínar. Þessi mál voru mörg hver erfið, en ógildingarreglur veita takmarkaðar heimildir til að fella lánssamninga úr gildi eða breyta þeim. Margir fengu leiðréttingu á grundvelli dóma þar sem lán í íslenskum krónum voru gengistryggð á þann veg að það fór í bága við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en alls ekki allir. Í öðru lagi voru mál, sem lutu að uppgjöri hinna föllnu fjármálafyrirtækja og þeirra sem áttu kröfur á þau. Almennt var þessum kröfum lýst við slit fjármálafyrirtækjanna og mat á kröfunum og stöðu þeirra réðist einkum af reglum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. auk laga um verðbréfaviðskipti og laga um fjármálafyrirtæki. Til þessa málaflokks teljast einnig mál til riftunar á ráðstöfunum sem fjármálafyrirtækin höfðu gert í aðdraganda falls þeirra. Þriðji málaflokkurinn hefur svo að geyma þau sakamál, sem ákæruvaldið höfðaði í kjölfar hrunsins vegna einhverra athafna, sem tengdust hinum föllnu fjármálafyrirtækjum. Þessi mál voru ekki mörg, en afar viðamikil og í þau var lögð verulega mikil vinna af hálfu Hæstaréttar.  

Landsréttur hefur breytt miklu
- Nú er Landsréttur kominn til sögunnar og það hefur breytt miklu. Það er ekki gert ráð fyrir því að Hæstiréttur dæmi í fleiri en 40 til 50 málum á ári, en það getur auðvitað verið breytilegt milli ára. Landsréttur hefur tekið við því hlutverki, sem Hæstiréttur gegndi áður, þó með þeirri viðbót að Landsréttur tekur skýrslur af aðilum og vitnum, ef rétturinn metur það nauðsynlegt, og dómarar horfa á upptökur af skýrslutökum fyrir héraðsdómi, þegar þörf krefur. Það veltur á miklu að Landsréttur standi undir væntingum. Þrátt fyrir erfiðleika í byrjun á starfi réttarins er ég bjartsýnn fyrir hans hönd, því við réttinn starfa margir góðir lögfræðingar og þar er mikil reynsla og þekking á fjölmörgum sviðum lögfræðinnar.
    Eftir breytinguna á dómstólaskipuninni er það í langflestum tilvikum Hæstiréttur sjálfur sem ákveður hvaða dómum megi skjóta til réttarins. Þetta gerir Hæstiréttur á grundvelli ákveðinna leiðbeiningarreglna. Dómum réttarins er ætlað í ríkari mæli en áður var að vera fordæmisgefandi. Ég hygg að það megi sjá af því hvernig dómar eru samdir eftir hinum nýja sið að það er leitast við að gefa víðtækari leiðbeiningar, heldur en unnt var að gera í hinu eldra kerfi. Við höfum valið mál þar sem ágreiningsefnið er þannig að það er þörf á að kveða upp dóma sem er ekki bara ætlað að leysa úr því álitaefni, sem ágreiningur er um, heldur, ef kostur er, hafa víðtækara fordæmisgildi en eldri dómar.

Skaðabótaréttur er fyrirferðamikill málaflokkur
- Eru einhverjir málaflokkar sem þú vilt minnast á framar öðrum?
- Ég var prófessor í skaðabótarétti, en annaðist einnig kennslu í vátryggingarétti og fasteignakauparétti. Ég sinnti rannsóknum og skrifum aðallega í þessum greinum lögfræðinnar. Mál á þessum réttarsviðum vöktu vitaskuld sérstakan áhuga minn. Skaðabótamál hvers konar eru mjög fyrirferðamikill málaflokkur og svo hefur löngum verið. Í þeim málum eru oft miklir hagsmunir undir, sérstaklega þegar um er að ræða alvarleg líkamstjón. Þýðing skaðabótaréttar hefur aukist á síðustu áratugum. Það hefur haldist í hendur við mjög vaxandi þýðingu vátryggingaréttar, en stór hluti skaðabóta er greiddur af vátryggingafélögum. Það er yfirleitt á grundvelli ábyrgðartrygginga, en þær eru orðnar mjög útbreiddar. Þýðing annarra vátrygginga hefur einnig aukist verulega. Segja má að næstum hver einasta fjölskylda í landinu vátryggi að einhverju marki eignir sínar og aðra hagsmuni. Flestar fjölskyldur eru með margar vátryggingar, eina eða tvær vegna heimilisbílsins, aðra eða aðrar um húsnæðið, enn aðra um innbúið og jafnvel þá þriðju eða fjórðu um líf og heilsu. Iðgjöld til vátryggingafélaga eru orðin veruleg útgjöld fyrir flestar fjölskyldur í landinu. Þess vegna er óhjákvæmilegt að á það reyni oftar en áður hvort hagsmunir séu vátryggðir eða ekki og hvernig ákveða skuli bætur ef þeir verða fyrir tjóni.
    Það bar nokkuð á því hér á árum áður að vátryggingafélögin voru sökuð um að fela sig á bak við ,,smáa letrið“ í vátryggingaskilmálum. Sú umræða er ekki eins áberandi nú, líklega vegna þess að almenn þekking fólks á vátryggingum og hvaða hagsmuni þær eiga að bæta hefur vaxið. Auk þess sem ég leyfi mér að halda því fram að vátryggingafélögin sjálf sýni almennt sanngirni við mat á því hvort hagsmunir séu vátryggðir eða ekki og við uppgjör vátryggingarbóta. Ekki er þó víst að allir séu um það sammála. Þá má geta þess að 2004 voru sett ný lög um vátryggingasamninga, sem voru að mörgu leyti sveigjanlegri en eldri lög og mun neytendavænni. Ein breyting var gerð á lögunum fyrir fáeinum árum sem fól í sér byltingu að því leyti að vátryggingatökum er almennt núna gert mun auðveldara um vik að skipta um vátryggingafélag. Rökin að baki því voru að efla samkeppni milli félaganna og ég held að þar hafi tekist ágætlega til. Vátryggingafélög hafa nú þá stöðu að það má gera þá kröfu til þeirra að þau sýni ríka samfélagsábyrgð.

- Hvernig tilfinning er það svo að hafa verið í málflutningi að sækja mál eða verja, og vera allt í einu kominn í dómarasæti?
- Já, ég var í lögmennsku frá 1981, þegar ég kom heim frá Noregi eftir tveggja ára framhaldsnám í fjármunarétti, og allt til 1996, þegar ég varð prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Síðasta árið í lögmennskunni var ég reyndar við rannsóknir í fasteignakauparétti við Uppsalaháskóla í Svíþjóð. Þegar ég hóf störf í Hæstarétti fann ég fljótlega að lögmennskan er ekki síður góður undirbúningur fyrir dómarastarf en fræðimennska og kennsla. Að því leyti sem lögmennska felst í rekstri dómsmála er hún nátengd dómarastarfinu. Lögmenn ,,hanna“ mál og reka fyrir dómstólum þar sem markmiðið er að sýna fram á, með framlagningu gagna og málflutningi, að dæma eigi málið umbjóðendum þeirra í vil. Dómarar eru á hinum enda ferilsins og þurfa að vega og meta gögn og röksemdir beggja málsaðila og komast að niðurstöðu um hvað sé rétt og rangt í málatilbúnaði lögmanna. Mér hefur fundist mjög gott að hafa lögmannsreynslu við dómarastörf mín.  
    Þótt það sé mikill kostur hve dómarahópurinn í Hæstarétti hefur fjölbreyttan fræðilegan bakgrunn, þá held ég, hvað sem öðru líður, að það sé líka kostur fyrir réttinn að þar sitji dómarar með bakgrunn í lögmennsku. Þannig hefur það verið undanfarin ár og mikilvægt að svo verði áfram.  
    Eins og ég nefndi áður hefur mér fundist það sérstakt við starfið í Hæstarétti þegar ég lít til baka hin skilvirka hópvinna, sem hér er unnin og sá metnaður sem leitast hefur verið við að leggja í hvert mál. Í Hæstarétti er til dæmis ekki gengið frá dómi nema allir dómarar, sem að honum standa, séu búnir að lesa dóminn saman, það gerist þannig að framsögumaður les dóminn upphátt og aðrir fylgjast með og koma með ábendingar eða gera athugasemdir. Þetta er besta tryggingin fyrir því að ekki verði missmíð í texta, auk þess sem þessi samlestur er stundum tilefni efnislegra breytinga. Það er mikilvægt að texti dóma sé góður og aðgengilegur fyrir almenning og fjölmiðla. Það hefur líka tíðkast allt frá 1999 að aðstoðarmenn semji úrdrætti úr dómum, sem birtir eru um leið og dómurinn. Meðferð mála fyrir dómstólum er opin og gangsæ eins og kostur er. Þinghöld eru almennt opin almenningi, málflutningur er það einnig og það færist mjög í vöxt að fólk mæti og hlýði á málflutning. Ekki bara aðilar máls og vandamenn, heldur líka aðrir sem áhuga hafa á því máli. Dómar eru svo birtir strax eftir uppkvaðningu þeirra og úrdrættir líka eins og áður sagði. Allt er þetta til að auðvelda almenningi og fjölmiðlum að fylgjast með störfum dómenda.
    Héðan mun ég svo fara beinustu leið aftur upp í lagadeild Háskóla Íslands. Þar mun ég taka til við fræðistörf og skrif á sviði skaðabótaréttar og vátryggingaréttar og ef til vill á fleiri réttarsviðum.