image

Dæmdi í 4885 málum á 25 árum

04.11.2019

Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari lét af störfum 1. október eftir 25 ára viðdvöl í réttinum eða frá 1. júlí 1994. Þetta er þriðja lengsta setan í þessu starfi frá upphafi. Gizur Bergsteinsson var frá 1935 til 1972 og Þórður Eyjólfsson frá 1935 til 1965.

- Ég er fæddur í Reykjavík 1954 og uppalinn þar, tók stúdentspróf frá Menntaskólanum við Tjörnina 1974, segir Markús Sigurbjörnsson fyrrverandi hæstaréttardómari í viðtali. Síðan hóf ég nám í lagadeild Háskóla Íslands þá um haustið. Eftir tveggja vetra nám byrjaði ég að fást við störf á sviði lögfræði vorið 1976 hjá bæjarfógetanum í Keflavík. Upphaflega átti það starf að vara í tvo mánuði, en einhvern veginn dróst það á langinn og að endingu fór svo að ég vann þar með námi í tvö og hálft ár. Laganáminu lauk ég í ársbyrjun 1979 og vann svo áfram á sama stað í hálft ár til viðbótar sem dómarafulltrúi. Þá tók við framhaldsnám í réttarfari við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla fram í byrjun árs 1981 þegar ég tók við starfi sem dómarafulltrúi við borgarfógetaembættið í Reykjavík. Sumarið 1985 varð ég síðan borgarfógeti í Reykjavík og gegndi því starfi fram á árið 1988. Þá tóku við rúm sex ár í starfi prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, en þar hafði ég áður verið stundakennari meðfram aðalstarfi frá 1984. Á þessum háskólaárum vann ég líka að smíð allmargra frumvarpa til nýrra laga á sviði réttarfars sem tengdust aðskilnaði dómsvalds og framkvæmdarvalds og leiddu af sér nýja dómstólaskipan í héraði sem komst á um mitt ár 1992. Þessari frumvarpavinnu fylgdu líka margvísleg verk í tengslum við undirbúning á nýja dómstólakerfinu. Loks lá svo leiðin í Hæstarétt, þar sem ég tók við starfi dómara 1. júlí 1994 og lét af störfum 1. október á þessu ári eftir. Eftir því sem ég fæ best séð sat ég í dómi í 4885 málum á þessum 25 árum. 

- Þú ert ef segja má hokinn af reynslu eftir um 25 ára dómarastörf við Hæstarétt. Í stuttu máli ef þú ferð yfir þetta tímabili hvað varðar helstu breytingar. 

- Breytingar á starfsemi Hæstaréttar hafa auðvitað orðið margvíslegar og umfangsmiklar á aldarfjórðungi, meðal annars í öllum aðbúnaði með glæsilegu dómhúsi, sem var tekið í notkun 1996 og aðstöðu starfsmanna réttarins. Vinnubrögð hafa líka breyst mikið á þessu tímabili og lagaumgjörðin um starfsemina. Fyrir um 25 árum var málafjöldinn hér um 450 á ári, en svo jókst hann í áranna rás , að vísu ekki í samfelldri línu, heldur í stökkum. Fyrir breytingarnar með tilkomu Landsréttar á árinu 2018 var árlegur málafjöldi orðinn á bilinu 850 – 890, en dómarafjöldinn nánast sá sami, svo þetta tvöfaldaðist eiginlega á tímabilinu. Það voru átta dómarar þegar ég byrjaði og ég var í þeirri stöðu að ég var fyrsti dómarinn þegar var fjölgað í níu. Þessi tala hélst, þó með þeim blæbrigðum að 2011 fór talan til bráðabirgða upp í tólf á tímabili, en datt svo niður eftir því sem menn hættu. Á árinu 2014 var á ný fjölgað í tíu vegna anna í bankahruninu, en svo datt hún aftur í níu. 

- Það hefur verið mikið álag á dóminn og dómarana? 
-Já óneitanlega voru miklir staflar sem þurfti að lesa, og þeir hafa þykknað með árunum. Það má líka segja að fyrir 25 árum voru málin að meðaltali einfaldari, en í seinni tíð hafa komið miklu meiri flækjur, flóran er orðin miklu umfangsmeiri og miklu sérhæfðari og málin yfirleitt þyngri. Við bætist síðan að málatilbúnaðurinn er orðinn miklu langorðari en hann var. Fyrir aldarfjórðungi voru greinargerðir lögmanna kannski 3 - 5 síður en eru núna oft 20 - 25 síður auk þess sem lagt er fram mun meira af gögnum tengd málunum. Þá hafa tegundir mála orðið miklu fjölbreyttari. Í gegnum tíðina hafa málategundir farið svolítið í bylgjum og oft hefur fjöldi mála af ákveðinni tegund aukist eftir breytingar á lagaákvæðum, sem snúa að málaflokknum, þar sem verið er að deila um óvissuatriði í lögunum. Sem dæmi má nefna að þegar gerðar hafa verið umfangsmiklar breytingar á skattalögum, hefur í kjölfarið komið inn alda af skattamálum og sama má segja um breytingar á reglum um skaðabætur. Í kjölfar nýrra laga um þær 1993 kom mikil og frekar langvinn lota mála sem tengdust líkamstjónum og þannig mætti lengi telja. Þetta hefur gengið dálítið í sveiflum. 

- En svona mál tengd tíðarandanum, ef svo mætti segja? 
- Já það má kannski segja að meiðyrðamál hafi verið áberandi á vissum tímum, þar sem um er að ræða alvarlegar deilur um mörk tjáningarfrelsis. Þessi mál hafa verið nokkuð áberandi og komið til kasta réttarins í verulegum mæli. Þá eru það bankahrunsmálin svonefndu sem kölluðu á mikla vinnu í réttinum og voru umfangsmikil og málskjöl stundum upp á 10 þúsund síður. Sakamálin voru kannski mest áberandi í fjölmiðlum en almenningur gerir sér líklega ekki grein fyrir þeim fjölda einkamála á hendur föllnu bönkunum, sem varð að leysa og svo mál bankanna á hendur öðrum, þar sem reyndi til dæmis á ágreining um gengistryggingu lána. Meginþungi svokallaðra hrunmála voru í raun einkamál. 

- Hvað með lagasetningu hér á landi? 
- Almennt hefur hún verið í mjög góðu horfi og vel að verki staðið. Það má segja að áður fyrr hafi lagasetning hér verið undir mun meiri áhrifum frá Norðurlöndunum en nú hinsvegar hafa áhrifin færst suður í Evrópu. 

- Tilkoma Landsréttar hefur væntanlega breytt starfsháttum ykkar hér í Hæstarétti?
 - Já gríðarlega má segja, en það er í raun ekki komin löng reynsla á þetta nýja kerfi. Mál sem koma inn eftir breytinguna eru fyrst og fremst mál sem eru fordæmisgefandi og geta ekki borist nema með leyfi réttarins. Fram til þessa hefur um fjórðungur eða fimmtungur leyfisbeiðna verið tekinn til greina, sem er öllu hærra hlutfall en annars staðar á Norðurlöndunum þar sem búið er við svipað kerfi. Þrátt fyrir þetta hlutfall hefur málum fækkað stórlega og líklega er árlegur fjöldi þeirra kominn niður fyrir 50. Þetta hefur í för með sér miklar breytingar í réttinum. Sem dæmi má nefna að á árum áður var málflutningur 8 til 10 sinnum í viku, en er nú yfirleitt aðeins einu sinni. Þá ber þess að geta að nú skipa alltaf 5 dómarar dóminn, og 7 í mikilvægum málum.

- Það er ekki aðeins að þú hafir setið í réttinum í 25 ár heldur líka verið forseti og varaforseti réttarins?
- Þegar ég hóf störf í Hæstarétti gilti sú regla að dómarar kusu forseta réttarins og varaforseta úr sínum röðum til tveggja ára í senn og hafði það aldrei gerst að sami dómari væri kjörinn í annað hvort þessara starfa lengur samfellt en í eitt kjörtímabil. Sú hefð hafði líka myndast að yfirleitt yrði sá kjörinn forseti sem lengst hafði setið í réttinum án þess að gegna því starfi og að öðru jöfnu hafði nýr forseti þá að auki setið undangengið kjörtímabil sem varaforseti. Röðin kom að mér þegar ég varð varaforseti árin 2002 og 2003, en síðan forseti næstu tvö árin þar á eftir. Lögum var síðar breytt þannig 2011 að kjörtímabil forseta og varaforseta var lengt í fimm ár og við það rofnaði hefðin um hvernig menn veldust til þessara starfa. Ég var fyrstur til að verða kosinn forseti eftir þessu nýja kerfi og gegndi því starfi í eitt kjörtímabil, frá ársbyrjun 2012 til loka 2016. Samanlagt var ég þannig forseti réttarins í sjö ár auk þess að vera varaforseti önnur tvö.
    Frá gamalli tíð hefur verið gengið út frá því að forseti Hæstaréttar fái engan afslátt frá almennum störfum sem dómari og hefur því staða forseta í raun verið hrein viðbót við skyldur dómara. Verksvið forseta felst í því að stýra starfsemi stofnunarinnar, en dagleg stjórn á öðru en úrlausn dómsmála mæðir þó fremur takmarkað á forsetanum og þeim mun frekar á skrifstofustjóra réttarins. Drjúg getur þessi viðbót við dómarastörfin þó orðið samt og kennir þar ýmissa grasa, sem snerta ekki endilega venjubundin verkefni réttarins. Forseti Hæstaréttar er þannig einn af þremur handhöfum forsetavalds ásamt forsætisráðherra og forseta Alþings og taka þessir þrír til samans við hlutverki Forseta Íslands sé hann fjarverandi eða hafi hann forföll. Þá gegnir Hæstiréttur eins konar hlutverki landskjörstjórnar við forsetakosningar og kemur líka í hlut forseta réttarins að setja Forseta Íslands inn í embætti í kjölfar kosninga. Svo hittist á að því verki þurfti ég að sinna þrívegis, 2004, 2012 og 2016. Þá stóð yfir í síðari forsetatíð minni nokkuð einstætt verkefni sem var að stýra Landsdómi þegar hann fékkst í fyrsta og eina skiptið hingað til við dómsmál á árunum 2011 og 2012, en forseti Hæstaréttar er sjálfkrafa forseti Landsdóms. Það voru þannig ýmis eftirminnileg verk sem ég þurfti að fást við sem forseti réttarins.

- Þegar þú lítur til baka þessi 25 ár? 

- Það eru að sjálfsögðu þessir miklu annatímar sem komið hafa hjá Hæstarétti og þyngstur róðurinn í framhaldi af bankahruninu. Gleðilega hliðin á því var að missa ekki niður skilvirknina, jafnóvenjuleg, mörg og umfangsmikil og þau mál voru. Frá mínum bæjardyrum séð var þar unnið þrekvirki, ekki aðeins í Hæstarétti, heldur í dómstólakerfinu í heild og mest mæddi þetta á héraðsdómstólunum. Ef við svo horfum víðar yfir og förum lengra aftur þá vekur þessi mikli málafjöldi hér í okkar fámenna landi jafnan athygli á alþjóðavettvangi. Þetta er miklum mun meira af málum miðað við höfðatölu en til dæmis annars staðar á Norðurlöndum og svo hefur reyndar verið gegnum alla, 100 ára sögu Hæstaréttar. Það má kannski segja að þetta eigi einhverjar rætur að rekja til þess að við séum bæði þrasgjarnir og þrjóskir, en svo má heldur ekki vanmeta áhrifin af því að óháð höfðatölu hljóta í sérhverju samfélagi í vissum mæli að koma upp ákveðin álitaefni sem enda fyrir dómstólum. Þá er það líka undrunarefni hvað kemur mikið upp af óvenjulegum lagalegum álitaefnum hér á landi miðað við ekki fleiri íbúa. Þar erum við á sama báti og stórar og fjölmennar þjóðir. Þess má líka geta að fyrir 25 árum eða svo dróst afgreiðsla mála oft mjög á langinn. Það gátu liðið allt að fjögur ár frá því að mál voru tilbúin til málflutnings fyrir Hæstarétti og þar til þau komust á dagskrá. Það tókst svo um aldamótin að vinna á þessum hala, þannig að þá var hægt að afgreiða mál í réttinum á fjórum til fimm mánuðum en ekki mörgum árum eins og áður. Þetta er auðvitað gríðarleg breyting og það tókst að halda þessu að mestu í svipuðu horfi fram að kerfisbreytingunni með tilkomu Landsréttar. Þessi skemmri afgreiðslutími mála var ekki aðeins breyting fyrir starfsemi Hæstaréttar, heldur ekki síður fyrir þá sem áttu hlut að þessum málum, að þurfa ekki að bíða óralangan tíma eftir að fá botn í þau. Ekki síst var þessi breyting mikils virði fyrir allt samfélagið.