Ágreiningur um hvort samningur fæli í sér stofnun kvaðar yfir lóðarréttindum eða kröfuréttarlega skyldu

30.10.2019

Í dag var kveðinn upp dómur þar sem reyndi á hvort að með tilteknum rammasamningi, sem kvað á um réttindi Í hf. til verktöku við byggingu bílakjallara á lóðinni Austurbakka 2 í Reykjavík, hefði stofnast eignarréttarleg kvöð á lóðarréttindum eða hvort um hefði verið að ræða kröfuréttarlega skyldu. Málið höfðaði Í hf. á hendur R ehf. til viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta á þeim grundvelli að sá síðarnefndi hefði ekki virt umræddan rétt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að réttindin sem rammasamningurinn kvað á um fullnægðu ekki því skilyrði að geta í eðli sínu talist hlutbundinn réttur yfir fasteign. Þá yrði heldur ekki af rammasamningnum ráðið að ætlun aðila hefði verið að stofna til eignarréttarlegrar kvaðar. Talið var að um væri að ræða kröfuréttindi í gagnkvæmu skuldarsambandi. R ehf. hefði ekki samþykkt að taka á sig þá skuldbindingu að virða rétt Í hf. til verktökunnar og skipti í því sambandi ekki máli þótt R ehf. hafi við kaup sín vitað eða mátt vita um réttinn. Var R ehf. því sýknað af kröfu Í hf.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.