Launakröfu vegna ótekins frítökuréttar hafnað

30.09.2019

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem V, sem starfað hafði sem yfirmatreiðslumaður mötuneytis starfsmanna S hf., krafði félagið um hálfu ári eftir starfslok um greiðslu fyrir ótekinn frítökurétt í samræmi við ákvæði kjarasamnings. Óumdeilt var að samið hefði verið við V um heildarlaun á mánuði gegn því að hann sæi til þess að matur og millimál yrðu til reiðu á tilgreindum tímum. Var honum í sjálfsvald sett hvernig hann skipulagði vinnutíma sinn og hvernig hann samræmdi vinnu sína og vinnu aðstoðarmanns sem starfaði með honum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í IX. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum væri meðal annars 53. gr. þeirra um vinnutíma og lágmarkshvíld starfsmanna, sem V reisti mál sitt á. Í 3. tölulið 52. gr. a. laganna, sem væri í sama kafla, kæmi á hinn bóginn fram að ákvæði hans giltu ekki um æðstu stjórnendur eða aðra þá sem réðu vinnutíma sínum sjálfir. Sömu reglu og mælt væri fyrir um í því ákvæði væri að finna í samningi 30. desember 1996 milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands en í samningnum væri mælt fyrir um að hann skyldi skoðast sem hluti af kjarasamningum aðildarsamtaka og félaga þessara heildarsamtaka. Var því talið að skýra yrði ákvæði um lágmarkshvíld í kjarasamningi þeim sem gilti um starfskjör V þannig að þau tækju ekki til starfsmanna í sömu stöðu og V, sem ráðnir væru fyrir föst mánaðarlaun og réðu vinnutíma sínum og skipulagi vinnunnar sjálfir. Var S hf. því sýknað af kröfu V. 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.