Dómur um ráðstöfun á jarðhitaréttindum

18.09.2019

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem landeigendur jarðarinnar Kaldárholts í Rangárþingi Ytra kröfðust þess aðallega að viðurkennt yrði að samningur þeirra og Hitaveitu Rangæinga 6. nóvember 1998 hefði veitt Orkuveitu Reykjavíkur og Veitum ohf. tímabundinn rétt til að bora eftir heitu vatni á jörðinni og virkja og nýta þar jarðhita í 25 ár og að viðurkennd yrði greiðsluskylda þeirra vegna nýtingar á heitu vatni umfram tiltekna rúmmetra á ári úr jörðinni árin 2012 til 2016. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í samningnum hefði verið afmarkað hvaða réttindum væri ráðstafað með honum en hvergi rætt um að ráðstöfun á jarðhitaréttindum í landi Kaldárholts hefði verið tíma- eða magnbundinn með einum eða öðrum hætti. Þá hefðu engin fyrirmæli verið í samningnum um hvernig fara skyldi með búnað vegna hitaveitunnar á jörðinni að ætluðum samningstíma loknum en ljóst væri að Hitaveita Rangæinga hefði lagt í verulegar fjárfestingar til að nýta jarðhitann. Þá höfðu aðilar sammælst um að áður en samningnum yrði þinglýst yrði leitað samþykkis jarðanefndar og ráðherra en dómurinn taldi að það hefði ekki verið gert í öðrum tilgangi en að afla heimildar til að skilja jarðhitaréttindi varanlega frá jörðinni, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Var því talið að með samningnum hafi jarðhitaréttindum jarðarinnar í heild verið afsalað varanlega til hitaveitunnar. Jafnframt var hafnað varakröfum áfrýjenda þess efnis að ákvæði samningsins yrði breytt á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga á þann veg að samningurinn yrði bundinn við ákveðinn tíma og magn. Var því öllum kröfum landeigendanna hafnað.


Dóminn í heild sinni má lesa hér.