Vetrardagskrá Hæstaréttar
09.09.2019Fyrsti málflutningur fyrir Hæstarétti á þessu hausti verður miðvikudaginn 11. september næstkomandi í máli nr. 26/2019, Jón Helgason og fleiri gegn Orkuveitu Reykjavíkur og fleirum. Í málinu er deilt um inntak samnings frá árinu 1998 um nýtingu jarðhita á jörðinni Kaldárholti í Rangárþingi ytra.
Árið 2019 er fyrsta árið sem Hæstiréttur dæmir eingöngu í málum sem til hans er skotið samkvæmt nýrri dómstólaskipan. Á tímabilinu frá 1. janúar til 1. júlí 2019 bárust Hæstarétti 16 kæruleyfisbeiðnir, 69 beiðnir um áfrýjunarleyfi í einkamálum og 22 beiðnir um áfrýjunarleyfi í sakamálum. Af þessum beiðnum og óloknum beiðnum frá 2018, samtals 115 beiðnir, voru 109 leyfisbeiðnir afgreiddar á þessu sama tímabili. Hæstiréttur veitti á þessu sama tímabili 4 kæruleyfi, 24 áfrýjunarleyfi í einkamálum en ekkert leyfi til áfrýjunar sakamáls. Hlutfall samþykktra áfrýjunar- og kæruleyfisbeiðna er 25,5%. Hlutfall samþykktra áfrýjunar- og kæruleyfisbeiðna æðstu dómstóla í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er á bilinu 12 til 15%.
Á fyrri helmingi þessa árs, þ.e. frá janúar til júní, kvað Hæstiréttur um dóma í 32 málum. Þar af voru 17 dómar í áfrýjuðum einkamálum, 2 dómar í áfrýjuðum sakamálum, 11 dómar í kærðum einkamálum og 2 í kærðum sakamálum. Meðal afgreiðslutími áfrýjunar- og kæruleyfisbeiðna á sama tímabili var 17,6 dagar og er þá miðað við tímabilið frá því að leyfisbeiðni barst Hæstarétti og þar til ákvörðun réttarins um leyfisveitingu var tekin. Málsmeðferðartími frá veitingu áfrýjunar- eða kæruleyfis til dómsuppsögu var á sama tímabili 7,6 vikur.