Valdframsal til ráðherra andstætt stjórnarskrá

14.05.2019

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli sem sveitarfélag höfðaði á hendur íslenska ríkinu vegna skerðinga á fjárframlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem það hafði orðið fyrir vegna breytinga sem ráðherra gerði á reglugerð um sjóðinn en með lögum nr. 139/2012 um breytingu á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga var mælt fyrir um að heimilt væri í reglugerð að kveða á um að sveitarfélög, sem hefðu heildartekjur sem teldust verulega umfram landsmeðaltal, skyldu ekki njóta framlaga úr sjóðnum. Hélt sveitarfélagið því fram að með þessu hefði ráðherra verið falið að taka með reglugerð ákvörðun um tekjustofna sveitarfélaga í andstöðu við lagaáskilnaðarreglu 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í lögskýringargögnum með 2. mgr. 78. gr. kæmi fram að tilgangur ákvæðisins væri að taka af skarið um að ákvörðun um tekjustofna sveitarfélaga ætti undir löggjafarvaldið og þar með ekki undir framkvæmdarvaldið. Var talið að í ljósi stjórnskipulegrar stöðu sveitarfélaga og fyrirmæla 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar yrði lagaáskilnaðarregla ákvæðisins ekki túlkuð á annan veg en þann, að ekki væri heimilt að fella niður tekjustofna sveitarfélaga í heild eða að hluta nema með lögum. Yrði það því ekki gert með reglugerð. Umrætt ákvæði laga nr. 4/1995 hefði í fyrsta lagi mælt fyrir um heimild ráðherra til þess að ákveða hvort fella skyldi niður jöfnunarframlög eða ekki og í öðru lagi til þess að ákveða hvað telja bæri verulega umfram landsmeðaltal. Hefði ráðherra því verið falið ákvörðunarvald um hvort skerða skyldi tekjustofna sveitarfélaga eða ekki andstætt því sem beinlínis væri tekið fram í lögskýringargögnum með 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Var því talið að framsal löggjafans á heimild til að fella niður framangreinda tekjustofna til sveitarfélagsins færi í bága við lagaáskilnaðarreglu ákvæðisins. Var íslenska ríkinu því gert að greiða sveitarfélaginu fjárhæð sem svaraði til greiðslna sem það hefði fengið á árunum 2013 til 2016 ef ekki hefði komið til ákvörðun ráðherra um niðurfellingu þeirra. 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.