Málstofa æðstu dómstóla á Norðurlöndum

12.04.2019

Dagana 7. til 9. apríl 2019 var haldin í Helsinki í Finnlandi árleg málstofa æðstu dómstóla á Norðurlöndum. Málstofuna sóttu dómarar við Hæstarétt Noregs, Danmerkur, Íslands, Finnlands og Svíþjóðar ásamt dómurum frá æðstu stjórnsýsludómstólum Svíþjóðar og Finnlands. Af Íslands hálfu sóttu málstofuna hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Málstofan hófst með því að fulltrúar allra landanna gerðu grein fyrir því sem efst er á baugi í lagaumhverfi hvers lands. Meðal annarra umræðuefna á málstofunni voru: a) Samband Evrópudómstólanna og einstakra landsdómstóla í framhaldi af dómi Evrópudómstólsins í máli framkvæmdastjórnarinnar gegn Frakklandi nr. C-416/17 og dómi EFTA-dómstólsins í máli Irish Bank Resolution Corporation gegn Kaupþingi banka hf. nr. E-18/11, b) Úrræði til að tryggja sjálfstæði dómstólanna gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins, c) Mannréttindasáttmáli Evrópu, tjáningarfrelsið og landsdómstólarnir, d) Álitaefni á sviði barnaréttar, þar með talin svokölluð nauðungarættleiðing og e) Skaðabótabyrgð hins opinbera vegna tjóns sem hlýst af því að reglugerðir eða reglugerðarákvæði eru andstæð lögum.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á málstofunni. Á þeirri efri má sjá Benedikt Bogason hæstaréttardómara fjalla um álitaefni á sviði barnaréttar og á þeirri neðri Viðar Má Matthíasson hæstaréttardómara fjalla um ábyrgð hins opinbera.