Oft verið mikið líf og fjör í kringum Hæstarétt

21.01.2019

Í tilefni af því að Hæstiréttur Íslands verður 100 ára í febrúar 2020 hefur verið ákveðið að gefa út afmælisrit um réttinn. Verður það tvískipt. Annars vegar hluti sem hefur að geyma sögu réttarins og hefur Arnþóri Gunnarssyni sagnfræðingi verið falið það verkefni. Hinn hlutinn mun geyma 20 ritgerðir um valin viðfangsefni á sviði lögfræðinnar, þar sem úrlausnir Hæstaréttar hafa haft mikil áhrif. Sérstök ritnefnd hefur umsjón með útgáfunni. Arnþór hefur lagt drög að uppbyggingu verksins og er kominn áleiðis með nokkra kafla.

Áður en Hæstiréttur Íslands var stofnaður fór Hæstiréttur Danmerkur með æðsta dómsvald í íslenskum málum en Landsyfirrétturinn, stofnaður árið 1800, var efsta dómstig hér á landi. Landsyfirréttur var lagður niður þegar Hæstiréttur Íslands tók til starfa.

Arnþór var spurður um aðdragandann að því að Íslendingar stofnuðu Hæstarétt.

„Það má halda því fram að aðdragandinn hafi bæði verið langur og skammur, allt eftir því hvernig á það er litið; langur að því leyti að frá því um miðja nítjándu öld var það ein af meginkröfunum í sjálfstæðisbaráttunni við Dani að við Íslendingar fengjum í okkar hendur æðsta dómsvald í eigin málum, en skammur að því leyti að samkvæmt sambandslagasamningi Dana og Íslendinga sem tók gildi 1. desember 1918, og kom frekar skyndilega upp á borðið, gátu Íslendingar flutt æðsta dómsvald í eigin málum heim þegar þeim þóknaðist, og það gerðu þeir rúmu ári síðar. Þá voru liðin um 650 ár síðan Íslendingar létu æðsta dómsvaldið af hendi þannig að þetta var stór áfangi í sögu þjóðarinnar.“

Þetta verður væntanlega mikið verk og víða leitað fanga?

„Já, það er mikilvægt að leita víða fanga í heimildum, t.d. ævisögum, dagblöðum, tímaritum og sendibréfum auk hefðbundinna stofnanaheimilda. Ef saga Hæstaréttar er skrifuð um of frá þröngu stofnanalegu sjónarhorni er hætt við að hún verði svolítið þunglamaleg en þegar vel er að gáð sést að oft hefur verið mikið líf og fjör í kringum Hæstarétt. Sum dómsmál hafa vakið þjóðarathygli og mikil skoðanaskipti. Þar hefur Hæstiréttur lokaorðið og hafa sumir dómar og úrskurðir réttarins haft afgerandi áhrif á lög og rétt. Mig langar líka að skoða aðeins samspil Hæstaréttar og almennings, eða almenningsálitsins, hvernig svo sem við skilgreinum það hugtak, og hvernig viðhorf til Hæstaréttar hafa breyst. Þróun réttarins þarf auðvitað að skoða í samhengi við þjóðfélagsþróunina vítt og breitt.

Skipun í embætti hæstaréttardómara hefur stundum vakið miklar umræður og deilur og um það verður auðvitað fjallað. Hæstiréttur kom líka töluvert við sögu í hörðum pólitískum átökum og stéttabaráttu á millistríðsárunum. Ekki svo að skilja að Hæstiréttur hafi leitast við að blanda sér í slík átök heldur gerðist það miklu frekar þannig að rétturinn væri dreginn inn í þau. Á sama tíma varð hann fyrir barðinu á hinum alræmda niðurskurðarhnífi sem varð til þess að hæstaréttardómurum var fækkað úr fimm í þrjá. Þá átti Hæstiréttur sannarlega í vök að verjast. Um þetta hefur að vísu nokkuð verið fjallað en mig langar að varpa skýrara ljósi á þessi mál.

Frá miðjum fjórða áratugnum og fram yfir 1970 ríkti hins vegar meiri friður um Hæstarétt en með opnari og beittari fjölmiðlaumræðu á áttunda og níunda áratugnum komst rétturinn oftar í kastljósið. Fyrir vikið komst hann í meira návígi við þjóðina.“

Getur þú dregið einhvern lærdóm af þessari sögu nú þegar?

„Núna átta ég mig enn betur á því en áður hve mikilvægt það er í lýðræðislegu samfélagi að tryggja sem best sjálfstæði Hæstaréttar, annars getur hann ekki notið almennrar virðingar og trausts. En Hæstiréttur þarf líka að virði þjóðina og almenn mannréttindi og sama gildir auðvitað um löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið, því þjóðin er uppspretta valdsins. Sagan kennir okkur að allir þessir leikendur og gerendur verða að virða leikreglur lýðræðisins, annars er ekki von á góðu. Núna erum við líka daglega minnt á þetta í heimsfréttunum.“

Segir Arnþór Gunnarsson sagnfræðingur að lokum.

Í ritnefndinni vegna útgáfu afmælisritsins sitja: Þorgeir Örlygsson forseti Hæstaréttar,  Markús Sigurbjörnsson og Karl Axelsson hæstaréttardómarar, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómarar, Jóna Björk Helgadóttir hæstaréttarlögmaður og Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari. Með nefndinni starfar Þorsteinn A. Jónsson skrifstofustjóri Hæstaréttar.

Gert er ráð fyrir að afmælisritið komi út á afmælisárinu 2020.