Deilt um uppsögn samnings um jarðhitaréttindi frá árinu 1971

25.10.2018

Í dag var kveðinn upp dómur í máli þar sem deilt var annars vegar um hvort uppsögn landeigenda jarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi í júlí 1992 á samningi þeirra við Hitaveitu Reykjahlíðar frá júlí 1971 hefði verið heimil og hins vegar um eignarrétt að asbestpípu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samningurinn frá 1971 hefði verið ótímabundinn, án uppsagnarákvæðis og falið í sér gagnkvæmar skyldur til viðvarandi greiðslna af hálfu hvors aðila hans um sig. Með vísan til þeirrar meginreglu kröfuréttar að ótímabundnir samningar um viðvarandi greiðslur væru uppsegjanlegir með hæfilegum fyrirvara, nema annað væri ákveðið í lögum, samningi eða leiddi af eðli samningsins, var talið að Veitustofnun Skútustaðahrepps, sem hafði komið í stað Hitaveitu Reykjahlíðar, hefði ekki tekist að færa sönnur á að samningurinn væri enn í gildi. Þá var ekki fallist á með veitustofnuninni að landeigendur hefðu afsalað sér með samningi eða öðrum hætti eignarrétti að hinni umþrættu asbestpípu. Voru landeigendur því sýknaðir af kröfum veitustofnunarinnar.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.