Æðstu dómstólar Finnlands 100 ára

09.10.2018

Hæstiréttur Finnlands fagnaði 100 ára afmæli mánudaginn 1. október sl. Af því tilefni var efnt til hátíðarsamkomu í hátíðarsal Helsinki háskóla. Samkoman hófst með ávarpi Timo Esko, forseta Hæstaréttar Finnlands en að því loknu ávarpaði forseti Finnlands, Sauli Niinistö, samkomuna. Oskar Merikanto, prófessor í réttarheimspeki, flutti erindi á samkomunni sem hann nefndi „Democracy and Justice“ og Mia Korpiola, prófessor í réttarsögu, flutti erindi sem hún nefndi „From Legalism to the Constitutional State -  Historical Perspective.“ Auk þátttakenda frá Finnlandi var boðið til samkomunnar forsetum æðstu dómstóla á Norðurlöndum og Eistlands. Af Íslands hálfu tók þátt í hátíðarhöldunum Þorgeir Örlygsson forseti Hæstaréttar.

Æðsti stjórnsýsludómstóll Finnlands, Högsta Förvaltningsdomstolen, fagnaði 100 ára afmæli 31. ágúst sl. Samkoman fór fram í Finlandia Hall og hófst með ávarpi Pekka Vihervuori, forseta dómstólsins. Að því loknu flutti ávarp áðurnefndur forseti Finnlands, Sauli Niinistö. Eftir það og að loknu tónlistaratriði hófust erindi annars vegar undir yfirskriftinni „The European Perspective“ og hins vegar „The National Perspective.“ Um fyrri dagskrárliðinn fluttu Niilo Jääskinen, dómari við Högsta Förvaltningsdomstolen í Finnlandi, og Koen Lenaerts, forseti Evrópudómstólsins, erindi undir heitinu, „A National Supreme Adminstrative Court as a Participant in Judicial Dialogue with the Court of Justice of the European Union.“ Eftir það fluttu Pauliine Koskelo, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, og Anne E. Niemi, dómari við Högsta Förvaltningsdomstolen í Finnlandi, erindi um „Issues concerning the International Protection of Refugees: Viewpoints from the European Court of Human Rights and a national Supreme Administrative Court.“ Eftir hádegisverð var komið að síðarnefnda viðfangsefninu, sem hófst með erindum Mats Melin, forseta Högsta Förvaltningsdomstolen í Svíþjóð, og Irma Telivuo, dómara við Högsta Förvaltningsdomstolen í Finnlandi, sem fjölluðu um „Development Line in the Administrative Process and in the Position of the Supreme Administrative Court.“ Að því loknu töluðu Tapio Määttä, prófessor við Háskólann í  Austur-Finnlandi, og Riitta Mutikainen, dómari við Högsta Förvaltningsdomstolen í Finnlandi, um „The Supreme Administrative Court‘s Case Law in Environmental Issues: Development Policies.“ Loks flutti Markus Kari, fræðimaður og doktor í lögum, erindi undir heitinu „The Supreme Administrative Court 100 years: Legal History Perspectives in the Relationship between the Supreme Administrative Court and the Society.“ Auk þátttakenda frá Finnlandi var boðið til samkomunnar forsetum æðstu dómstóla Norðurlanda, Eistlands og Rússlands. Fyrir hönd Íslands tók þátt í hátíðarhöldunum Helgi I. Jónsson, varaforseti Hæstaréttar.