Leyst úr álitaefni tengdu reglunni um ne bis in idem

20.09.2018

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í kærumáli þar sem deilt var um ákvæði í dómi Landsréttar um að vísa frá héraðsdómi sakargiftum á hendur fjórum einkahlutafélögunum um brot gegn tilteknum ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á þeim grundvelli að málsmeðferðin sem félögin sættu hefði farið í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Í síðastgreinda ákvæðinu er kveðið á um bann við því að nokkur sæti lögsókn eða refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot, sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur fyrir með lokadómi.

Í málinu leysti Hæstiréttur meðal annars úr ágreiningi um það hvort lögaðilar yrðu felldir undir bann samkvæmt 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Vísaði rétturinn til þess að þótt ekki yrði með skýrum hætti ráðið af orðalagi ákvæðisins hvort það tæki einungis til einstaklinga yrði ekki annað séð af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu en að þar hefði ákvæðinu einnig verið beitt gagnvart lögaðilum. Til þess væri einnig að líta að á grundvelli laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu væri ákvæðið íslensk réttarheimild og sætti sem slíkt skýringu sem hvert annað lagaákvæði fyrir dómstólum. Eðli máls samkvæmt stæðu ekki haldbær efnisrök til að fella lögaðila utan þeirrar verndar, sem ákvæðinu væri ætlað að veita.

Þá lagði Hæstiréttur mat á það hvort álag á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988 fæli í sér refsingu í skilningi framangreinds ákvæðis samningsviðaukans. Sló Hæstiréttur því föstu að þótt hundraðshluti álags væri ólíkur samkvæmt því ákvæði samanborið við 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt auk þess sem munur væri á aðferðinni við beitingu þess, stæðu ekki efni til þess að gera greinarmun í þessum tveimur tilvikum, enda væri í báðum ákvæðunum um að ræða viðurlög sem taka bæri tillit til við ákvörðun sektar í sakamáli.

Að þessu virtu og með vísan til þess að ekki væri ágreiningur um þá niðurstöðu Landsréttar að rekstur máls gegn félögunum fyrir skattayfirvöldum annars vegar og rannsókn sakamáls á hendur þeim og meðferð þess fyrir dómi hins vegar hafi ekki staðist efnislegan áskilnað 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu að því er varðaði samþættingu í tíma, var niðurstaða Landsréttar staðfest.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.