Orðalag bókunar talið fela í sér stefnuyfirlýsingu en ekki kjarasamningsákvæði

18.09.2018

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Félagsdóms um að vísa máli Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands gegn íslenska ríkinu frá dómi. Í málinu var þess krafist að viðurkenndur yrði sá skilningur starfsmannafélagsins að frá 2. nóvember 2011 hefði íslenska ríkið verið bundið af tiltekinni bókun við kjarasamning milli aðila og niðurstöðu starfshóps um að meðallaun almennra hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands skyldu ekki vera undir meðallaunum aðildarfélaga BHM. Meðal annars var vísað til þess að orðalag bókunarinnar bæri með sér að vera stefnuyfirlýsing og markmiðssetning en ekki ákvæði kjarasamnings um tiltekin réttindi eða skyldur aðila að samningnum. Var talið að kröfugerð starfsmannafélagsins lyti að hagsmunaágreiningi og atriðum varðandi gerð kjarasamnings, en ekki að réttarágreiningi um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Ætti úrlausn um viðurkenningarkröfu félagsins því ekki undir Félagsdóm.

Dóm Hæstaréttar má lesa hér.