Dómur um upplýsingaskyldu seljenda fasteignar

09.05.2018

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem seljendur fasteignar kröfðu kaupendur um eftirstöðvar kaupverðs. Kaupendurnir töldu sig hins vegar eiga rétt á afslætti þar sem fasteignin hefði verið gölluð sökum þess að seljendur hefðu ekki upplýst þá við söluna um fyrirhugaða byggð við húsið sem hefði í för með sér skerðingu á útsýni. Héldu þeir því eftir 10% af umsömdu kaupverði. Talið var að seljendum og fasteignasalanum sem sá um söluna hefði verið kunnugt um að í gildandi deiliskipulagi væri gert ráð fyrir umræddri byggð og hefði fasteignasalanum borið að geta þess í söluyfirliti. Hefðu seljendurnir hins vegar ekki sýnt fram á að það hefði verið gert eða að kaupendur hefðu á annan hátt verið veittar þessar upplýsingar áður en kaupin fóru fram en um það bæru seljendur sönnunarbyrði. Var því talið að fasteignin hefði verið gölluð og kaupendur ættu því rétt á afslætti. Samkvæmt matsgerð sem lögð var til grundvallar við úrlausn málsins var verðrýrnun fasteignarinnar vegna byggðarinnar metin 7% af kaupverðinu. Fyrir lá að kaupendur höfðu fengið greiddar bætur úr starfsábyrgðartryggingu fasteignasalans sem þau í beinu framhaldi greiddu seljendum. Var sú innborgun hærri en nam þeirri fjárhæð sem kaupendur áttu eftir að standa skil á til rétts uppgjörs á kaupunum. Voru kaupendur því sýknaðir af kröfu seljenda.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.