Fyrsta áfrýjunarleyfið samþykkt

18.04.2018

Hæstiréttur samþykkti í gær beiðni um leyfi til áfrýjunar á tilteknum dómi Landsréttar í sakamáli. Var beiðnin sett fram á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála með vísan til þess að meðal dómara í málinu fyrir Landsrétti hefði verið dómari sem ekki væri með réttu handhafi dómsvalds með því að skipun viðkomandi í embætti hefði ekki verið lögum samkvæm. Taldi ákæruvaldið að rök stæðu til þess að fallast á beiðnina. Verður þetta fyrsta málið sem kemur til meðferðar í Hæstarétti samkvæmt breyttu fyrirkomulagi sem tók gildi 1. janúar síðastliðinn með stofnun Landsréttar.

Þá tók Hæstiréttur jafnframt ákvörðun í máli er varðaði beiðni um leyfi til kæru á úrskurði Landsréttar er varðaði túlkun á tilteknu ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var beiðninni hafnað þar sem 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 áskilur að mælt sé fyrir um heimild til að sækja um leyfi til að kæra úrskurð Landsréttar í öðrum lögum en lögum nr. 91/1991, en því skilyrði var ekki fullnægt í málinu.