Ársskýrsla Hæstaréttar 2017 komin út
21.02.2018Ársskýrsla Hæstaréttar fyrir árið 2017 hefur nú verið birt á heimasíðu réttarins en þar má finna upplýsingar um starfsemi réttarins á árinu. Þar kemur fram að réttinum bárust 857 mál á árinu sem er svipaður fjöldi og hefur verið síðustu ár en til samanburðar voru þau 869 árið 2016, 862 árið 2015, 862 árið 2014, 826 árið 2013 og 770 árið 2012. Nokkru færri dómar voru á hinn bóginn kveðnir upp á árinu eða alls 690 talsins en þeir voru 762 árið 2016, 761 árið 2015, 760 árið 2014, 764 árið 2013 og 710 árið 2012. Ástæða þessarar fækkunar er sú að dómurum við réttinn fækkaði um tvo í september 2017.
Munnlega fluttum málum hefur fækkað töluvert og voru þau 256 talsins á síðasta ári samanborið við 356 mál árið á undan. Voru þrír dómarar í 197 málum, fimm dómarar í 58 málum og sjö dómarar í einu máli. Dómarar skiluðu sératkvæði sjö sinnum á árinu í munnlega fluttum málum. Í fimm tilvikum var um að ræða efnislega aðra niðurstöðu en í tveimur tilvikum aðra niðurstöðu að hluta.
Hæstarétti barst 401 áfrýjað mál
Árið 2017 bárust Hæstarétti 401 áfrýjað mál en til samanburðar voru þau 432 á árinu 2016. Voru kveðnir upp dómar í 256 áfrýjuðum málum en á árinu 2016 voru þeir 356 talsins. Réttinum bárust 307 áfrýjuð einkamál en dómar í slíkum málum voru 190 talsins. Þar af var niðurstaða héraðsdóms staðfest í 112 málum, í 17 málum var niðurstöðu héraðsdóms breytt að einhverju leyti en í 44 málum var niðurstöðu héraðsdóms breytt að verulegu leyti eða snúið við. Í 14 tilvikum var málum vísað frá eða héraðsdómur ómerktur.
Réttinum bárust 94 áfrýjuð sakamál en kveðnir voru upp dómar í 66 slíkum málum. Þar af var niðurstaða héraðsdóms staðfest í 26 málum, henni breytt að einhverju leyti í 13 tilvikum en í 16 málum var niðurstöðu héraðsdóms breytt að verulegu leyti eða henni snúið við. Þá var í 11 tilvikum málum vísað frá eða héraðsdómur ómerktur.
Kærumál í fyrra voru 456
Árið 2017 bárust Hæstarétti alls 456 kærumál og féllu dómar í 434 slíkum málum. Til samanburðar bárust réttinum 437 árið á undan og voru dómar í kærumálum 406 það árið. Bárust alls 210 kærð einkamál á árinu og voru kveðnir upp dómar í 191 slíkum málum. Skráð kærð sakamál voru 246 talsins og féllu dómar í 243 slíkum málum. Í kærumálum var niðurstaða héraðsdóms staðfest í 324 málum, henni breytt að verulegu leyti eða snúið við í 73 tilvikum en 37 málum var vísað frá eða meðferð þeirra ómerkt.
Engin kærumál voru munnlega flutt. Þá voru engin sératkvæði í kærumálum á árinu.
Ársskýrsluna má lesa í heild sinni hér.